Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er orðin óvinsælli en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur eftir jafnlangan tíma frá myndun.
Samkvæmt könnun MMR sem kynnt var í gær styðja 37,9 prósent ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir 11 mánaða valdatíð. Það er minni stuðningur en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, naut eftir jafnlangan tíma. Í janúar 2010, þegar stjórn Jóhönnu hafði setið í ellefu mánuði, studdu tæp 46 prósent ríkisstjórnina. Á ársafmæli stjórnar Jóhönnu var stuðningurinn síðan kominn niður í 40 prósent.
Stjórn Katrínar hefur hins vegar fallið mun meira í vinsældum en stjórn Jóhönnu, sem var umdeildari frá upphafi. 56 prósent studdu Jóhönnustjórnina í fyrstu könnun MMR eftir myndun hennar, en 67 prósent lýstu stuðningi við breiða stjórn Katrínar við upphaf hennar.
Fallið í stuðningi er því orðið um 29 prósentustig hjá Katrínu, en var 12 prósentustig í tilfelli Jóhönnu, 11 mánuðum frá myndun hennar.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, naut stuðnings 37 prósent svarenda í könnun MMR ellefu mánuðum eftir myndun hennar, og hafði stuðningurinn fallið úr 60 prósentum, eða um 23 prósentustig. Hún naut því sambærilegs stuðnings og stjórn Katrínar nú, samkvæmt sömu könnun.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nýtur nú minni stuðnings, samkvæmt MMR, en Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem 41,8 prósent styðja samkvæmt meðaltali kannana þar í landi. Þjóðarpúls Gallup sýnir hins vegar heilt yfir meiri stuðning við ríkisstjórnir en kannanir MMR. Þjóðarpúlsinn var síðast tekinn fyrir tveimur vikum og mældist sitjandi ríkisstjórn þar með stuðning 49,8 prósent kjósenda. Stjórn Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar naut stuðnings 50 prósenta kjósenda samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups eftir jafnlangan tíma frá myndun og er því munurinn ekki marktækur í könnunum.
Stuðningur við stjórn Jóhönnu átti hins vegar eftir að falla hratt á öðru ári og endaði að lokum í 34 prósentum.
Ríkisstjórn hinna tveggja turna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, undir forsæti Geirs H. Haarde, naut 55 prósenta stuðnings eftir ellefu mánuði vorið 2008, og hafði þá fallið um 28 prósentustig, úr 83 prósent stuðningi. Fimm mánuðum síðar varð efnahagshrun og þremur mánuðum eftir það var stuðningur kominn í 26 prósent, samkvæmt Gallup, eða 24 prósent samkvæmt MMR.
Athugasemdir