Glitnir HoldCo hefur farið fram á heimild Hæstaréttar til að áfrýja lögbannsmáli gegn Stundinni og Reykjavik Media til réttarins, og freistar þess þannig að fá lögbannið staðfest á þriðja dómsstigi eftir að hafa tapað málinu í héraðsdómi og Landsrétti.
Stundin hélt áfram umfjöllun sinni, sem lotið hafði lögbanni, í síðasta tölublaði sínu sem kom út á föstudag.
Nú er það því í höndum Hæstaréttar að ákveða hvort Glitnir HoldCo fái málinu áfrýjað, þar sem tekin yrði afstaða til þess hvort lögmætt hafi verið af Sýslumanninum í Reykjavík að leggja lögbann á umfjöllun Stundarinnar. Bæði héraðsdómur og Landsréttur töldu lögbannið hafa „raskað grundvallargildum tjáningarfrelsisins og rétti einstaklinga til að taka við upplýsingum og mynda sér skoðun á samfélgslegum málefnum“. Verði áfrýjunarbeiðni Glitnis hafnað er því endanlega lokið fyrir íslenskum dómstólum.
Lögbannið gilti fram yfir tvennar kosningar
Lögbanninu var komið á 16. október í fyrra, eftir að Stundin birti umfjallanir byggðar á gögnum sem tengjast Glitni í samstarfi við Reykjavik Media og breska blaðið the Guardian, þar sem sagt var frá umfangsmiklum viðskiptum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og fjölskyldu hans með bréf tengd Glitni í aðdraganda bankahrunsins, samhliða aðkomu hans að málinu sem kjörinn fulltrúi. Bjarni seldi meðal annars hlutabréf sín í Glitni, fyrir um 119 milljónir króna, dagana eftir að hann átti fund með forstjóra Glitnis, sem þingmaður, til að ræða við hann um hvernig ríkisstjórnin gæti komið bönkunum til hjálpar. Auk þess seldi faðir hans, Benedikt Sveinsson, hlutabréf sín í Glitni á svipuðum tíma, en þeir til samans seldu bréf fyrir milljarð króna. Lögbannið varði meðal annars fram yfir alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar, þrátt fyrir að hafa verið metið ólögmætt af dómstólum.
Umfjöllun haldið áfram
Rúmu ári eftir að lögbanni var komið á hélt Stundin áfram umfjöllun sinni í síðasta tölublaði, á þeim grundvelli að þá væru liðnar lögbundnar þrjár vikur frá dómsuppsögu Landsréttar, en samkvæmt lögum um kyrrsetningu og lögbann fellur lögbannið úr gildi þegar „æðri dómur“ hefur staðfest synjun á lögbanni.
Glitnir HoldCo fullnýti áfrýjunarfrest til Hæstaréttar, sem er fjórar vikur frá dómsuppsögu í Landsrétti. Sá frestur er útrunninn á morgun.
Fram kom í áframhaldandi umfjöllun í síðasta tölublaði Stundarinnar að Bjarni hefði verið í hlutverki skuggastjórnanda í viðskiptum Engeyjarættarinnar tengdum Glitni. Þannig hefði hann til dæmis verið í leiðandi hlutverki við tilraun viðskiptahópsins til að kaupa bifreiðaumboð Toyota á Íslandi. Þá kom einnig fram að starfsmaður Íslandsbanka taldi það vera á ,,gráu svæði” að hann kæmi að gerð kauptilboðs í Toyota fyrir Einar Sveinsson, föðurbróður Bjarna, þar sem hann var einnig stjórnarformaður bankans. Auk þess var greint frá því að nafn Benedikts Jóhannessonar kæmi fram í Glitnisskjölunum en til stóð að hann fengi 40 milljóna króna lán til að kaupa hlutafé í BNT ehf. móðurfélagi N1. Af lánveitingunni varð þó ekki. Stundin gat ekki sagt frá þessu máli Benedikts í aðdraganda kosninganna í fyrra þar sem lögbann Glitnis kom í veg fyrir það.
Glitnir hefur farið fram á að Stundinni verði gert að afhenda gögn, en tapað þeim hluta málsins á öllum þremur dómsstigum.
Grundvallargildum tjáningarfrelsisins raskað
Í rökstuðningi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir því að synja Glitni staðfestingu á lögbanninu 2. febrúar síðastliðinn kemur fram að lögbannið brýtur gegn tjáningarfrelsi og stangist á við réttinn til frjálsra kosninga.
„Lögbannið beindist þannig að rétti stefndu til að fjalla um málefni sem lutu að viðskiptum ákveðinna einstaklinga sem tengdust Glitni hf. áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008. Með lögbanninu var einnig komið í veg fyrir að almenningur fengi frekari upplýsingar um þau mál sem fjallað var um af hálfu stefndu og þannig raskað grundvallargildum tjáningarfrelsisins um frjáls skoðanaskipti og rétti einstaklinga til að taka við upplýsingum og mynda sér skoðun á samfélagslegum málefnum. Lögbannið fól sem fyrr segir einnig í sér fyrirfram tálmun sem almennt þarf ríkar ástæður til að réttlæta.
„Ljóst er að rétturinn til frjálsra kosninga og frelsið til að tjá sig um stjórnmál eru ein af undirstöðum lýðræðislegs stjórnarfars.“
Í þessu sambandi verður jafnframt að hafa í huga að þegar lögbannið var lagt á voru einungis 12 dagar til þess að Alþingiskosningar færu fram 28. október. Ljóst er að rétturinn til frjálsra kosninga og frelsið til að tjá sig um stjórnmál eru ein af undirstöðum lýðræðislegs stjórnarfars. Þessi réttindi eru nátengd, enda er tjáningarfrelsi ein af nauðsynlegum forsendum þess að kjósendur í lýðræðissamfélagi geti tjáð hug sinn með því hvernig þeir beita atkvæðisrétti sínum. Af þeim sökum hefur verið talið sérstaklega brýnt að fólk hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar og miðla upplýsingum í aðdraganda kosninga.“
Fyrirvari um hagsmuni: Stundin er beinn aðili að málinu sem fjallað er um.
Athugasemdir