Ef Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði farið að lögum við undirbúning og skipun dómara við Landsrétt og lagt forsvaranlegt mat á hæfni umsækjenda hefðu Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson hlotið skipun. Héraðsdómur Reykjavíkur telur að leiddar hafi verið nægilega sterkar líkur að þessu til að Jón og Eiríkur eigi rétt á skaðabótum vegna lögbrota dómsmálaráðherra við meðferð málsins. Athafnir ráðherra hafi bakað þeim fjárhagslegt tjón.
Þetta er niðurstaðan í tveimur dómum héraðsdóms sem kveðnir voru upp í gær. Ríkið var dæmt til að greiða Jóni Höskuldssyni 4 milljónir í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur vegna lögbrota dómsmálaráðherra auk málskostnaðar. Þá viðurkenndi dómurinn bótaskyldu „vegna tjóns [Eiríks Jónssonar] af völdum þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017“.
Í dómunum kemur fram að á grundvelli fyrirliggjandi gagna sé ekki hægt að slá því föstu að ráðherra hafi látið fara fram samanburð á umsækjendum sem fullnægi þeim kröfum sem taldar eru hluti af grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda.
„Í því sambandi verður að leggja áherslu á að ákvörðun um skipun í opinbert embætti verður að byggjast á samanburði á umsækjendum á sambærilegum grundvelli sem leiði í ljós hver er hæfastur til að gegna starfinu en ekki bara réttlætingu á því hvern ráðherra vill skipa í embættið,“ segir í dómunum.
Þrátt fyrir að ríkið hafi verið dæmt skaðabótaskylt vegna athafna ráðherra viðurkennir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ekki að hafa gert nein mistök við meðferð málsins.
„Nei, á þeim tíma þegar ég stóð frammi fyrir málinu þá get ég ekki fallist á að mér hafi verið unnt að haga þessum málum með öðrum hætti,“ sagði hún í Kastljóssviðtali í gær. Þá sagðist hún ekki fallast á að „þetta ágæta fólk [hefði] orðið fyrir einhverjum miska“ og ekki ætla að biðja Jón og Eirík afsökunar á brotunum.
Segir manninn ekki eiga rétt á því að fá starfið
Í kvöldfréttum í gær sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, að Jón Höskuldsson hefði ekki átt rétt á því samkvæmt lögum að vera skipaður í embætti dómara við Landsrétt.
„Þarna eru dómstólar í fyrsta sinn að dæma skaðabætur fyrir mann sem fékk ekki starf sem hann á ekki rétt á samkvæmt lögum,“ sagði hún.
Sigríður tók í sama streng í Kastljósinu. „Það er nýmæli að hér sé verið að dæma mönnum skaðabætur fyrir að fá ekki starf sem þeir hafa sóst eftir.“
Dómsmálaráðherra hefur ítrekað hafnað því að hafa brotið lög í Landsréttarmálinu þrátt fyrir að dómstólar hafi komist að gagnstæðri niðurstöðu.
Þegar vantrauststillaga gegn Sigríði var til umræðu á Alþingi þann 6. mars síðastliðinn sagðist hún hafa fylgt lögum í einu og öllu þegar hún skipaði dómara við Landsrétt í fyrra.
Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur hafa þó komist að þeirri niðurstöðu að ráðherra hafi brotið lög, 10. gr. stjórnsýslulaga, þegar hún skipaði dómara við Landsrétt. Í þessu fólst að ráðherra sýndi ekki fram á – með fullnægjandi rannsókn og rökstuðningi í samræmi við þær kröfur sem á henni hvíla samkvæmt stjórnsýslulögum – að hún hefði skipað hæfustu umsækjendurna til starfans. Fyrir vikið hafa umsækjendum sem gengið var framhjá verið dæmdar bætur.
Athugasemdir