Stundin sendi Katrínu Jakobsdóttur, þingkonu VG og forsætisráðherra, spurningar um skoðanir hennar á því að þingmenn stundi viðskipti samhliða þingmennsku og hvort opinberanir um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu við Íslandsbanka og Glitni hafi einhver áhrif á viðhorf hennar til ríkisstjórnarsamstarfsins. Eins og kunnugt er hófu Vinstri græn ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn í fyrra eftir að fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafði fallið vegna uppreist æru-málsins og eftir að breska blaðið The Guardian, Stundin og Reykjavík Media sögðu frá viðskiptum Bjarna Benediktssonar við Glitni í aðdraganda bankahrunsins árið 2008.
Katrín Jakobsdóttir náði ekki að svara spurningum Stundarinnar fyrir prentun blaðsins sökum þess að ekki gafst til þess tími. Spurningarnar voru sendar til Katrínar að kvöldi dags þriðjudaginn 23. október. Samkvæmt upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, Láru Björgu Björnsdóttur, verður spurningunum svarað svo fljótt sem auðið er.
Athugasemdir