S
igríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur kynnt fyrirhugaðar lagabreytingar þess efnis að hætt verði að birta nöfn dæmdra brotamanna og annarra sem tilgreindir eru í dómum og úrskurðum í sakamálum. Þá vill hún að hætt verði alfarið að birta dómsúrlausnir héraðsdómstóla í kynferðisbrotamálum, umgengnismálum og fleiri málum sem teljast viðkvæm.
Breytingar í þessa veru eru lagðar til í drögum að frumvarpi Sigríðar Andersen til laga um breytingu á lögum um dómstóla og lögum um meðferð sakamála. Með þessu yrði dregið talsvert úr gagnsæi hvað varðar réttarframkvæmd í kynferðisbrotamálum, en birting dóma í slíkum málum hefur oft kallað fram harkaleg viðbrögð og harða gagnrýni á dómstóla.
„Hér er lagt til að eitt gangi yfir alla þannig að engin nöfn þeirra sem við sögu koma í sakamálum verði birt. Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum og úrskurðum í einkamálum ef ástæða er til, sem er sama regla og gildir í dag,“ segir í greinargerð frumvarpsdraganna sem samin hafa verið í dómsmálaráðuneytinu í samráði við dómstólasýsluna og réttarfarsnefnd.
Bent er á að þótt augljós rök mæli með því að úrlausnir dómstóla séu aðgengilegar verði að hafa í huga að í dómum komi oft fram viðkvæmar persónuupplýsingar. Söfnun og vinnsla slíkra upplýsinga geti stangast á við sjónarmið um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. „Þá hefur í sumum tilvikum verið ófullnægjandi að birta dóma undir nafnleynd þar sem má ráða af atvikum og aðstæðum hverjir eiga hlut að máli, oft í viðkvæmum málum. Af þessum sökum hefur birting á dómum með þessu móti sætt nokkurri gagnrýni,“ segir í greinargerð.
Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að dómar og úrskurðir héraðsdómstóla sem varða viðkvæm persónuleg málefni, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, málefni barna, ofbeldi í nánum samböndum og nálgunarbann sem og kynferðisbrot skuli yfir höfuð ekki vera birtir. Í Landsrétti og Hæstarétti skuli í slíkum málum birta útdrátt þar sem meðal annars komi fram á hverju niðurstaðan sé reist.
„Við birtingu dóma og úrskurða skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna sem eðlilegt er að leynt fari, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál,“ segir jafnframt í drögum að lagatextanum. „Í dómum og úrskurðum í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir. Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum og úrskurðum í einkamálum ef ástæða er til. Þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið.“
Fram kemur að með því að birta ekki dóma er varða viðkvæm persónuleg málefni sé verið að festa í sessi „það fyrirkomulag sem komið var á með lögum nr. 78/2015 að birta ekki á vefsíðu héraðsdómstólanna dóma sem varða viðkvæm persónuleg málefni“. Gerð verði sú breyting að birta aðeins á vefsíðum æðri dómstóla útdrátt úr dómi í stað þess að birta dóma allra dómstiga í heild sinni. „Með þessu móti verður betur tryggð persónuvernd í viðkvæmustu málunum en hún verður ekki fyllilega tryggð með því að birta dóma undir nafnleynd, þar sem viðbúið er að greina megi aðila af öðrum atriðum sem fjallað er um eins og áður er getið. Með því að semja slíkan útdrátt er einnig komið í veg fyrir að greina megi persónur í dómi vegna mistaka við nafnhreinsun eða úrfellingar en nokkur brögð hafa verið að því við birtingu dóma og hafa sum þeirra verið mjög bagaleg.“
Athugasemdir