Sæll Jón Steinar.
Ég tek áskorun þinni að spjalla við þig á opinberum vettvangi þar sem þú segir sjálfur í aðsendri grein þinni að þú viljir eiga slík samtöl við fólk sem hefur eitthvað út á verk þín að setja. Í grein þinni segist þú vilja eiga samtal við fólk því mögulega hafir þú sagt eða gert eitthvað óafvitandi sem hafi framkallað þessa afstöðu til þín. Að þessu sögðu get ég upplýst þig strax að ég nota önnur orð en þau sem grein þín fjallar um og þó ég tilheyri þessum hópi sem fjölmargir einstaklingar eru í, var umræðan um þig á þræði sem lítill hluti hópsins tók þátt í. Ég sjálf hafði ekki hugmynd um þessa umræðu fyrr en ég las aðsendu grein þína í Morgunblaðinu þar sem þú vaktir athygli á umræðunni.
Þó ég sjálf hafi ekki tekið þátt í umræðunni er þetta bréf mitt til þín ekki skrifað til að fara um þig neinar gælur. Ég get heldur ekki talað fyrir þær sem þú vitnar í, ég get aðeins talað fyrir mig og beðið þið um að skilja mína afstöðu til verka þinna og það ætla ég að gera á opinberan hátt eins og þú biður um.
Ég hef aðeins einu sinni talað við þig og það var í síma í lok júlí 1998 þegar ég var að leita að lögmanni þar sem ég ætlaði að kæra nauðgun sem ég hafði orðið fyrir tveimur dögum áður. Þarna vissi ég ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga og vissi ekkert í hvern ég ætti að hringja í. Eina lögfræðinafnið sem ég þekkti var þitt og þess vegna hringdi ég í þig. Þú varst kurteis við mig, sagðir að þú hefðir ekki tíma og spurðir hvar ég hefði fengið nafnið þitt. Ég sagðist eiginlega ekki muna það, ég hafi líklega séð þig í sjónvarpi. Þú sagðir mér að þú værir önnum kafin og að þú tækir ekki mál að þér.
Ég fór upp á Neyðarmóttöku sama dag, þar var mér leiðbeint með framhaldið. Ég fékk réttargæslumann og fór í kæruferli. Á þessum tíma treysti ég réttarkerfinu og var fullviss um að ég fengi áheyrn dómsstóla. Ég hafði áverka eftir ofbeldið og greiningu um áfallastreitu, sem í kæruferlinu varð að áfallastreituröskun sem gerði mig óvinnufæra í nokkur ár. Það er skemmst frá því að segja að kæran var felld niður, hún náði ekki einu sinni á dómsstig. Og hinn ákærði veifaði niðurfellingunni sem sönnun um að hann væri saklaus.
Fyrir mig sem brotaþola kynferðisofbeldis var þessi niðurstaða eins og önnur nauðgun, öllu verri fannst mér, þar sem ég missti alla trú á samfélaginu sem ég taldi vera öruggt. Ég trúði því að hér væru lög sem vernduðu þegna samfélagins.
Í innilokun minni næstu árin þar sem ég var óvinnufær og gat ekki tekið þátt í samfélaginu sökum kvíða og þynglyndis, varð ég mjög upptekin af dómum í kynferðisbrotamálum og þá kom nafnið þitt oft fyrir í séráliti sem þú skilaðir sem Hæstaréttadómari. Iðulega fórstu þar fram á sýknu þar sem þér fannst saksóknari ekki hafa sannað sekt ákærða. Jafnvel þótt játning hins ákærða lægi fyrir. Þú gerðir lítið úr greiningu á áfallastreitu og sagðir hana vafasamt gagn til að meta minningar brotaþola. Ég segi þér alveg eins og er að ég hugsaði oft Helvítis fokking fokk, þegar nafn þitt kom upp. Mig langaði að standa fyrir utan hæstarétt með skilti sem á stæði „Ónothæft réttarkerfi”.
Þegar þú skrifaðir nafnlausa bréfið „Einnota réttarkerfi”, sem þú sendir á alla hæstaréttadómara í Baugsmálinu fyrir Hrunið 2007, þá varstu að fylgja eigin sannfæringu en komst ekki fram undir nafni til að bera ábyrgð á skoðunum þínum. Bréf þitt skaðaði sókn málsins eins og þú veist og hafði settur saksóknari Sigurður Tómas Magnússon orð á því að nafnlaus bréf væru alltaf ógeðfelld. Sjö árum síðar í bók þinni Í krafti sannfæringar viðurkennir þú að vera höfundur bréfsins. Enda segir þú að það sé bráðnauðsynlegt að réttarkerfið sæti málefnalegri gagnrýni og því er ég svo sannarlega sammála. Í þessu máli kaust þú að taka enga ábyrgð á skoðunum þínum og tjáningu fyrr en 7 árum síðar, jafnvel þó að einhverjar þúsundir manna hlustuðu á. En þetta fordæmir þú einmitt nú, ásamt meirihluta virkra í athugasemdakerfum.
Ég er sammála þér i því að þú sætir ekki málefnalegri gagnrýni inn á þessum lokaða hóp, tilgangur hópsins er heldur ekki sá að vera málefnalegur. Flestir í þessum hóp hafa brennt sig illa á réttarkerfinu eða þekkja til fólks sem réttarkerfið hefur brugðist. Í þessum umræðum sem fram fóru varstu dregin til ábyrgðar fyrir að ráðleggja þolendum umbjóðanda þíns að fyrirgefa ofbeldismanni þeirra. Þú varðir umbjóðanda þinn eins og þér bar en þú gekkst lengra með því að biðla þolendur hans að fyrirgefa honum, þú sagðir fjölmiðlum sem fjölluðu um málið að maðurinn hafi þolað nóg. Það strauk mörgum öfugt, sér í lagi brotaþolum og aðstandendum þeirra sem eru í þessum hópi sem viðhöfðu ljótu orðin um þig.
Þegar samfélagið hrundi 2008 gekk fólk berserksgang af reiði. Samfélagið eins og við þekktum það hrundi. Þegar manneskja verður fyrir kynferðisofbeldi hrynur heimur þess, heimsmyndin gjörbreytist, það sem áður var öruggt athvarf verður ógnvekjandi. Eðli kynferðisofbeldis er þannig að sá sem verður fyrir því missir alla stjórn, sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins og möguleiki hans að ráða og stjórna aðstæðum er tekin af honum. Þegar brotaþoli ákveður að kæra, mætir hann sömu aðstæðum. Hann hefur enga lögsögu í málinu, hann verður vitni í eigin máli og hefur nákvæmlega ekkert um það að segja.
Hann getur ekki skrifað nafnlaus bréf á hæstaréttadómara og lögfræðinga í krafti sannfæringar sinnar og hlotið áheyrn og þó hann komi fram undir nafni og leiti réttar síns eru harla litlar líkur á að réttlætinu verði fullnægt.
Í kjölfar #metoo hafa hópar myndast á facebook, lokaðir hópar sem eru fyrir brotaþola og aðstandendur þeirra. Þar sem reynt er að skapa aðstæður sem eru öruggar fyrir þá. Inn í þessum lokuðu hópum fara fram umræður sem einkennast oft af reiði og máttleysi þess sem hefur engin völd og hefur orðið fyrir barðinu á ónothæfu einnota réttarkerfi sem ver ekki samfélagsþegna sína fyrir brotum sem á þeim eru framin.
Það er alveg umdeilanlegt hversu heilbrigt slíkt umhverfi er. En þarna er allavega hlustað og þarna fær fólk einhvern farveg fyrir það óréttlæti sem það hefur orðið fyrir. Þarna getur það sagt Helvíts fokking fokk og beint reiði sinni að óréttlætinu sem það hefur orðið fyrir og það gerir það í krafti þeirrar sannfæringar að einhver hlusti og einhverjum standi ekki á sama.
Það er gott að nú hafi þessir einstaklingar fengið athygli. Þó athyglin sé ekki jákvæð og allar þær málefnalegu umræður sem brotaþolar og aðstandendur þeirra hafa sett fram í bókum, pistlum og umræðum, séu máttleysisleg tilraun hins valdalausa að hafa einhver áhrif á réttarkerfi og viðhorf fólks til kynferðisbrota sem er í helvítis fokki.
Með vinsemd og virðingu
Anna Bentína Hermansen
brotaþoli kynferðisofbeldis og íslensk réttarkerfis
Athugasemdir