Frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum er varðar stafrænt kynferðisofbeldi hefur verið lagt fram af 23 þingmönnum allra flokka á Alþingi nema Sjálfstæðisflokksins. Fyrsti flutningsmaður þess er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Björt Framtíð flutti svipað frumvarp í tvígang, en þá var talað um hefndarklám.
Í frumvarpinu er lagt til að dreifing af ásetningi á mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án hans, hennar eða háns samþykkis verði refsivert með sektum eða allt að sex ára fangelsi. Einnig er ákvæði um að dreifing falsaðs efnis sem sýnir kynferðislega hegðun einstaklings verði refsiverð.
Athygli vakti að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokks er meðflutningsmaður frumvarpsins. Gísli Marteinn Baldursson deildi frétt RÚV um frumvarpið á Twitter aðgangi sínum og spurði þar Helga Hrafn hvort Sjálfstæðismönnum hafi yfir höfuð verið boðið með.
„Já, ég bauð öllum þingmönnum. Get ekki svarað því af ábyrgð hví enginn þeirra vildi vera með,“ svarar Helgi. „Seinast þegar ég lagði þetta fram byggði gagnrýni xD á þeim misskilningi að þetta væri sama frumvarp og BF lagði fram á sínum tíma. Kannski sáu þau ekki að við höfum brugðist vel og mikið við umsögnum og telja því eldri gagnrýni enn gilda. Bara ágiskun, samt.“
Athugasemdir