Ríkisstjórninni er óheimilt að hafa áhrif á ákvarðanir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, enda sé slíkt brot á alþjóðasamningum. Þetta var skoðun Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, árið 2016 þegar hann var framkvæmdastjóri Landverndar.
Alþingi samþykkti í gærkvöldi lög sem gera ráðherra heimilt að veita fyrirtækjum í laxeldi bráðabirgðaleyfi til allt að tíu mánaða. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi á fimmtudag úr gildi starfsleyfi tveggja laxeldisfyrirtækja, Arctic Sea Farm og Fjarðalax. Stjórn Landverndar hvatti í gær umhverfisráðherra og sjávarútvegsráðherra til að virða niðurstöðu úrskurðarnefndar.
Í samtali við RÚV í september 2016, þegar Guðmundur var framkvæmdastjóri Landverndar sagði hann það fráleita hugmynd að ríkisstjórnin skipti sér af sjálfstæðum úrskurðarnefndum. Slíkt sé brot á Árósarsamningnum og öðrum alþjóðasamningum.
Varðaði málið lagningu Landsnets á Þeistareykjalínu og Kröflulínu, en framkvæmdir voru stöðvaðar að kröfu Landverndar. Þáverandi forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem nú situr í ríkisstjórn með Guðmundi, vildi þá skoða íhlutun.
„Þetta er náttúrulega að okkar mati, með öllu ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi.“
„Það sem að forsætisráðherra boðaði í gær, er í rauninni að fikta í löggjöfinni eftir á þannig að niðurstaða þessa óháða úrskurðaraðila sé líklegri til að henta málstað ríkisstjórnarinnar. Þetta er náttúrulega að okkar mati, með öllu ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi,“ sagði Guðmundur Ingi.
Fyrrverandi umhverfisráðherra gagnrýnir Vinstri græn
Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hún talar um dugleysi stjórnmálamanna „sem tala um vernd lífríkis og náttúru á tyllidögum“. Segir hún úrskurðarnefndina hafa bent á að meiriháttar annmarkar hafi verið á allri málsmeðferð hvað varðar laxeldi í sjó af hendi íslenskra stjórnvalda í áraraðir.
„Hvar eru þeir í pólitík sem eiga enn einhvern snefil af sannfæringu og hugsjón fyrir því meginstefi í náttúruvernd sem og verndun fjölbreytileika lífríkis að verndunin sjálf í eðli sínu sé það mikilvæga?“ spyr Björt. „Ekki fyrir peninga hvort sem það séu vasar Norðmanna eða veiðiréttarhafar laxveiðiáa. Heldur út af því að við sem erum hér í stutta stund höfum ekkert leyfi til þess að skemma hana til frambúðar.“
Björt segir stjórnmálamenn hafa brugðist Vestfirðingum með því að styrkja ekki innviði samfélagsins, en vera tilbúna til að fórna lífríki og náttúru fyrir störf sem verði ekki á svæðinu til frambúðar. „Fyrir nokkrum árum þótti stjórnmálamönnum Vinstri grænna olíuleit og kísilmálmver góðar og grænar hugmyndir ekki síst til þess að styðja við byggð í landinu. Hættum að láta eins og við vitum ekki að opið sjókvíaeldi sé mengandi.“
Athugasemdir