Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, kannast ekki við að þingmenn hafi fengið hærri endurgreiðslur á undanförnum árum heldur en reglur um þingfararkostnað gera ráð fyrir. „Ég kannast ekki neinar „óleyfilegar eða óhóflegar endurgreiðslur þingfararkostnaðar á undanförnum árum“,“ segir hann í svari við fyrirspurn Stundarinnar um hvort komið hafi til álita að þingmenn verði beðnir um að endurgreiða fjármuni sem þeir fengu í trássi við reglur sem þeir höfðu skuldbundið sig til að fylgja.
Í febrúar á þessu ári kom í ljós að þrír þingmenn sem notuðust við eigin bifreiðar fengu meira en 30 þúsund kílómetra aksturskostnað endurgreiddan frá Alþingi árið 2017 þrátt fyrir að reglur forsætisnefndar um þingfararkostnað kvæðu á um að þingmenn sem ækju meira en 15 þúsund kílómetra á ári í starfi sínu skyldu notast við bílaleigubíl. Eins og Stundin benti á eru siðareglur þingmanna afdráttarlausar um að þingmenn skuli „sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál.“
Alls fóru átta þingmenn yfir 15 þúsund kílómetra markið á eigin biðfreið, en Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, keyrði mest, neitaði að þiggja bílaleigubíl og fékk samtals 4,6 milljóna aksturskostnað endurgreiddan eftir að hafa ekið um 48 þúsund kílómetra. Þá viðurkenndi hann að hafa rukkað Alþingi fyrir aksturskostnaði vegna prófskjörsbaráttu sinnar og þáttagerðar fyrir ÍNN. Þegar Stundin spurði Helga um málið sagði hann að það væri í höndum þingmanna sjálfra að meta hvað væri eðlilegt í þessum efnum.
Þrátt fyrir að hafa skuldbundið sig til að fylgja siðareglum þar sem kveðið er á um að gæta skuli fullkomins samræmis við reglur um þingfararkostnað hafa flokksfélagar Ásmundar á Alþingi hæðst að umræðunni um akstursgreiðslurnar.
Umræðan um umgengni þingmanna við endurgreiðslukerfið var hávær fyrri hluta ársins en koðnaði svo niður. Stundin sendi yfirstjórnendum þingsins fyrirspurnir um málið á dögunum. Sagðist Helgi Bernódusson ekki kannast við „neinar „óleyfilegar eða óhóflegar endurgreiðslur þingfararkostnaðar á undanförnum árum““.
Athugasemdir