Einn mikilvægasti lærdómurinn sem hægt er að draga af bankahruninu 2008 er sá að traust forysta Davíðs Oddssonar í Seðlabankanum skipti sköpum og varð Íslendingum til happs. Seðlabankinn varaði við ofvexti og útlánaþenslu bankanna og lagði til lausnir en talaði fyrir daufum eyrum. Þegar Bretar og Bandaríkjamenn brugðust Íslendingum á ögurstundu lék Seðlabankinn lykilhlutverk í því að reisa varnarvegg um Ísland. Rannsóknarnefnd Alþingis leit framhjá mikilvægum atriðum, enda voru meðlimir hennar að vissu leyti hlutdrægir í störfum sínum og með litla reynslu af bankastarfsemi.
Þetta er sú söguskýring sem birtist í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Aðalhöfundur skýrslunnar er Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, æskuvinur og samherji Davíðs Oddssonar til margra áratuga, einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á árunum fyrir hrun og fulltrúi flokksins í bankaráði Seðlabankans frá 2001 til 2009. Á meðal helstu heimilda sem skýrslan byggir á eru viðtöl Hannesar við Davíð sjálfan og fleiri, einkum sjálfstæðismenn, sem voru í hringiðu atburðarásarinnar haustið 2008.
„Hannes ber náttúrlega ábyrgð á skýrslunni og umfjölluninni sjálfur,“ segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, í samtali við Stundina en bendir á að starfsmenn stofnunarinnar hafa lesið skýrsluna yfir og gert athugasemdir sem Hannes hafi brugðist við.
Erfitt að svara því hvort skýrslan geti
skaðað orðspor Félagsvísindastofnunar
Í vísindasiðareglum Háskóla Íslands er lögð áhersla á sjálfstæði rannsakenda og rannsóknarstofnana og bent á að persónulegtengsl geti vakið spurningar um hæfi, hvort sem þau megi rekja til ættartengsla, vinfengis eða langvarandi tengsla rannsakanda og viðfangsefnisins sem rannsakað er. „Slík tengsl geta leitt til þess að rannsóknin verði notuð til varnar einstökum málsaðilum, að ekki verði gerður nægilegur greinarmunur á rannsókn og rannsóknarviðfangi eða að sjálfstæði sé ógnað vegna þess að rannsóknarviðfangið er í stöðu til þess að hafa áhrif á rannsakandann,“ segir í reglunum.
Skýrsla Félagsvísindastofnunar sem birt var í gær er skrifuð af Hannesi Hólmsteini, einum ötulasta talsmanni Sjálfstæðisflokksins innan fræðasamfélagsins, fyrir fjármálaráðuneytið að beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Í skýrslunni tekur Hannes upp hanskann fyrir fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og ein af meginniðurstöðum skýrslunnar er sú að Íslendingar geti prísað sig sæla að jafn dugmikill leiðtogi og Davíð Oddsson, náinn vinur Hannesar, hafi setið við stýrið í Seðlabankanum á árunum fram að hruni.
Aðspurð hvort það þyki ekki á gráu svæði að fræðimaður rannsaki embættisverk vinar síns á grundvelli viðtala við hann og komist að afgerandi niðurstöðu um að hann hafi farið rétt að í hvívetna segir Guðbjörg: „Það er alltaf lögð áhersla á að vera eins hlutlægur og hlutlaus og hægt er í umfjöllun. Það gengur ekki alltaf fullkomlega. En þessi skýrsla hefur ekki farið í formlega ritrýni eins og tíðkast með fræðirit, hún er ekki þess eðlis.“ Heldurðu að hún hefði staðist slíkar kröfur? „Það eru svo mismunandi kröfur eftir birtingarvettvangi, svo það er erfitt að segja til um það. En fyrir það fyrsta hefði aldrei nema brot af henni getað birst í tímariti.“
Óttist þið ekkert að þessi skýrsla hafi skaðleg áhrif á ímynd og orðspor Félagsvísindastofnunar?
„Þetta er nú mjög erfið spurning. Ég held ég geti ekki svarað henni, en við gætum þess auðvitað alltaf að það sem fer frá okkur sé vel unnið.“
En þessar skoðanir sem koma fram í skýrslunni, þetta er semsagt ekki afstaða Félagsvísindastofnunar?
„Nei, eins og kemur skýrt fram er umfjöllunin alfarið á ábyrgð Hannesar. Eins og gjarnan er þegar fræðimenn við skólann skrifa þá bera þeir ábyrgð á því sem þar kemur fram.“
Hannes telur meðlimi rannsóknarnefndarinnar hlutdræga
Hannes leggur áherslu á það í skýrslu sinni að Ísland sé lítið samfélag þar sem flestir tengist með einum eða öðrum hætti. „Hannes H. Gissurarson var til dæmis í bankaráði Seðlabankans frá 2001 til 2009 og skipulagði ýmsar ráðstefnur og atburði sem viðskiptabankarnir tóku þátt í fyrir hrun. Það sama gildir um samstarfsmenn hans. Ásgeir Jónsson var aðalhagfræðingur Kaupþings fyrir hrun bankans og faðir hans var ráðherra í vinstristjórninni milli 2009 og 2013. Birgir Þór Runólfsson var varamaður í bankaráði Seðlabankans og sat um tíma í stjórn sparisjóðs í heimabæ sínum. Eiríkur Bergmann vann á tímabili fyrir fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og sat í stjórnlagaráði sem kom saman 2011 til 2012,“ segir í skýrslunni (þýðing er blaðamanns) þar sem bent er á að allt svona lagað geti haft áhrif á sjónarhorn og skoðanir fólks en jafnframt veitt sérstaka innsýn og þekkingu. Fræðimenn séu ekki dómarar og taki ekki veigamiklar ákvarðanir um líf og frelsi fólks, svo varla geti fortíð þeirra eða sjónarmiðin sem þeir eru þekktir af dæmt þá úr leik. Á endanum hljóti gögnin og röksemdirnar að ráða úrslitum.
Athygli vekur að í skýrslu Hannesar eru meðlimir rannsóknarnefndar Alþingis, þau Páll Hreinsson, Tryggvi Gunnarsson og Sigríður Benediktsdóttir, sökuð um hlutdrægni í störfum sínum. Hannes telur þó að þau hafi starfað í góðri trú og ekki verið hlutdræg viljandi. Hér beri að hafa í huga að Ísland sé lítið samfélag. Að mati Hannesar sáu meðlimir rannsóknarnefndar ekki skóginn fyrir tjánum og einblíndu um of á einstaklinga og athafnir þeirra fremur en kerfislæga bresti evrópska bankakerfisins sem Ísland var hluti af. „Meðlimir rannsóknarnefndar Alþingis höfðu litla, ef nokkra beina reynslu af bankastarfsemi eða annars konar viðskiptum,“ skrifar Hannes.
Athugasemdir