Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Skýrsla Hannesar birt: Ver Davíð og gagnrýnir rannsóknarnefnd Alþingis

Hann­es Hólm­steinn Giss­ur­ar­son hef­ur skil­að skýrslu um er­lenda áhrifa­þætti banka­hruns­ins. Hann ávít­ar rann­sókn­ar­nefnd Al­þing­is fyr­ir að gagn­rýna Dav­íð Odds­son Með­höf­und­ar taka ekki ábyrgð á inni­haldi skýrsl­unn­ar.

Skýrsla Hannesar birt: Ver Davíð og gagnrýnir rannsóknarnefnd Alþingis
Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Davíð Oddsson Hannes segir rannsóknarnefnd Alþingis betur hafa gagnrýnt Samfylkinguna en Davíð. Mynd: Wikipedia

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, grípur til varna fyrir Davíð Oddsson í skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008 sem hann skilaði til fjármálaráðuneytisins í dag. Skýrslan byggir að miklu leyti á viðtölum við helstu leikendur í hruninu, flesta úr Sjálfstæðisflokknum, og er rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýnd fyrir „ófullnægjandi útskýringar“.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar voru erlendir aðilar ábyrgir fyrir því hvernig fór haustið 2008. Samstaða evrópskra seðlabankastjóra, áhugaleysi Bandaríkjanna og ákvarðanir breskra stjórnvalda voru nauðsynleg skilyrði fyrir því að bankahrun varð á Íslandi 2008. Skýrslan er á ensku, en niðurstöðukaflinn hefur verið birtur á íslensku.

Í skýrslunni gagnrýnir Hannes rannsóknarnefnd Alþingis fyrir skýrslu sína, þar sem fundið var að framgöngu Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, Árna Mathiesen fjármálaráðherra og Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Voru einnig seðlabankastjórarnir þrír, Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson sagðir hafa sýnt af sér vanrækslu, auk Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Hannes telur hins vegar að rannsóknarnefndin hafi hunsað erlenda áhrifaþætti hrunsins.

Hefðu betur gagnrýnt Samfylkinguna en Davíð

Hannes segir að rannsóknarnefndin hafi ávítt Davíð fyrir það að fyrri pólitískir andstæðingar í Samfylkingunni hafi ekki treyst honum sem seðlabankastjóra í hruninu. Nefnir hann sérstaklega ríkisstjórnarfund 30. september 2008, nokkrum dögum fyrir hrun. „Sumir viðstaddir ráðherrar virtust einblína á þá staðreynd að það var Davíð sem gaf út viðvaranirnar, en ekki yfirvofandi hrunið sjálft og hvernig bregðast ætti við því. Rannsóknarnefndin hefði átt að gagnrýna þá, gætu sumir sagt, en ekki Davíð,“ segir í skýrslunni í þýðingu blaðamanns.

Þá fjallar hann um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs Haarde, þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi ekki brotið gegn Geir í Landsdómsmálinu svokallaða. „Hins vegar hunsaði Mannréttindadómstóllinn að mestu pólitíska þætti málsins,“ segir í skýrslunni.

Ein stærsta heimildin við skrif skýrslunnar voru viðtöl við helstu leikendur hrunsins, þar á meðal Geir, Árna og Davíð, alla fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokks. Þá voru tekin viðtöl við Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Allir voru þeir sakaðir um vanrækslu af rannsóknarnefndinni. Einnig voru tekin viðtöl við suma af fyrri eigendum og stjórnendum bankanna, seðlabankastjóra Bretlands og Svíþjóðar frá tíma hrunsins, auk breska fjármálaráðherrans. Hannes tók öll viðtölin sjálfur.

Ásgeir Jónsson, Birgir Þór Runólfsson og Eiríkur Bergmann eru skráðir meðhöfundar skýrslunnar (e. collaborators), en komu ekki að ritun hennar. Meðhöfundar skýrslunnar „gerðu niðurstöður rannsókna sinna aðgengilegar Hannesi, sem framkvæmdi eigin sjálfstæðar rannsóknir, skrifaði skýrsluna og ber sjálfur fulla ábyrgð á henni,“ að því er segir í skýrslunni í þýðingu blaðamanns.

Birt rúmum þremur árum of seint

Skýrslu Hannesar og Félagsvísindastofnunar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins hefur verið beðið í þrjú ár, en áætluð skil voru sumarið 2015. Samningur við fjármála- og efnahagsráðuneytið um skýrsluskrifin hljóðar upp á 10 milljónir króna. Hannes afhenti Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, skýrsluna í dag.

27. júlí síðastliðinn birti Hannes hins vegar skýrslu með titlinum „Lessons for Europe from the 2008 Icelandic bank collapse“ á vef New Direction, evrópskrar hugveitu íhaldsmanna. Niðurstöður þeirrar skýrslu eru þær sömu. „Hún er alls ekki sama skýrslan og fyrir fjármálaráðuneytið, enda hafði ég frjálsari hendur um að láta í ljós eigin skoðanir í þessari skýrslu, en hún hvílir auðvitað að nokkru leyti á sömu rannsóknum,“ sagði Hannes við Stundina þegar skýrslan kom út.

Helstu niðurstöður skýrslu Hannesar:

1. Beiting hryðjuverkalaganna bresku 8. október 2008 gegn Landsbankanum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu var ruddaleg og óþörf aðgerð. Hún var Bretum til skammar, sagði Mervyn King lávarður, fyrrverandi seðlabankastjóri Breta, skýrsluhöfundi. Því markmiði að koma í veg fyrir ólöglega fjármagnsflutninga mátti ná með tilskipun, sem breska Fjármálaeftirlitið gaf út til útbús Landsbankans í Lundúnum 3. október 2008.

2. Ekki hafa fundist nein merki um ólöglega fjármagnsflutninga bankanna frá Bretlandi til Íslands fyrir bankahrun, þótt breskir ráðherrar hafi haldið því fram í samtölum við íslenska ráðamenn. Rannsóknir á íslensku bönkunum í Bretlandi hafa ekki leitt neitt ólöglegt framferði í ljós. Megnið af breskum innlánum var notað í fjárfestingar í Bretlandi, sem veittu hátt í 100 þúsund manns vinnu.

3. Bresk stjórnvöld björguðu öllum breskum bönkum með aðgerðum sínum í októberbyrjun 2008 nema þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Þeim var neitað um fyrirgreiðslu og lokað með tilskipunum. Með því mismunuðu stjórnvöld á grundvelli þjóðernis, sem gengur gegn reglum um innri markað Evrópu. Samt var það mál ekki tekið upp af Framkvæmdastjórn ESB.

4. Tvær aðgerðir skiptu miklu máli um þá keðjuverkun, sem varð í bankahruninu: Danske Bank neitaði Glitni um fyrirgreiðslu í september 2008, þegar hann ætlaði að selja hinn norska banka sinn, með þeim afleiðingum, að Glitnir varð að leita til Seðlabankans um neyðarlán. Það setti af stað bankahrunið. Breska fjármálaeftirlitið lokaði KSF 8. október með þeim afleiðingum, að móðurfélagið á Íslandi, Kaupþing, féll, því að lánalínur voru háðar áframhaldandi rekstri KSF. Það olli falli síðasta bankans, sem eftir stóð.

5. Bankarnir tveir, sem bresk stjórnvöld lokuðu, Heritable og KSF, reyndust báðir við uppgjör hafa traustan fjárhag. Lánardrottnar endurheimta nánast allt sitt fé þrátt fyrir gífurlegan kostnað við endurskoðendur og lögmenn. Hins vegar virðast bankar, sem bresk stjórnvöld björguðu, sérstaklega RBS, varla eiga fyrir skuldum.

6. Margar hugsanlegar skýringar eru á hinni ruddalegu og óþörfu framkomu breskra stjórnvalda, lokun Heritable og KSF og beitingu hryðjuverkalaganna. Ein er, að Gordon Brown og Alistair Darling, sem báðir voru frá Skotlandi, hafi viljað sýna Skotum, hvaða áhætta væri fólgin í því fyrir Skota að slíta sambandinu við England. Önnur er, að þeir hafi viljað leiða athyglina frá hinum stórfelldu útgjöldum til að bjarga breskum bönkum. Hin þriðja er, að þeir hafi viljað sýna kjósendum, að þeir gættu breskra hagsmuna af hörku, en sú sýning kostaði þá lítið, þegar Ísland átti í hlut. Hin fjórða er, að þeir hafi viljað bæta vígstöðu sína í væntanlegri Icesave-deilu.

7. Þegar leið fram á árið 2007, veðjuðu vogunarsjóðir og sumir bankar, þar á meðal Danske Bank, á móti íslenskum bönkum og íslensku krónunni. Ólíkt því sem gerðist í Hong Kong 1998, tókst ekki að hrinda áhlaupi þeirra.

8. Bandaríkjamenn neituðu Íslandi um lausafjárfyrirgreiðslu, en veittu ríkjum, sem aldrei hafa verið bandamenn þeirra, til dæmis Svíþjóð og Sviss, slíka fyrirgreiðslu. Stórbankinn UBS í Sviss hefði fallið án þess, en hann reyndi að eyða gögnum um innstæður gyðinga frá stríðsárunum, aðstoða viðskiptavini við skattaundanskot og hagræða ólöglega vöxtum á millibankamarkaði. Bankakerfið í Sviss nam tífaldri landsframleiðslu og var því stærra hlutfallslega en hið íslenska fyrir bankahrun.

9. Meginskýringin á því, að bandarísk stjórnvöld neituðu Íslandi um fyrirgreiðslu, er líklega sú, að Ísland var ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í þeirra augum. Gjaldeyrisskiptasamningur við Bandaríkin hefði hugsanlega gert Seðlabankanum kleift að hafa stjórn á atburðarásinni og fara „sænsku leiðina“, sem sænski seðlabankinn markaði í fjármálakreppunni í Svíþjóð 1991–1992.

10. Rússalánið svonefnda var raunhæfur möguleiki, en Rússar hurfu frá því að veita það, þegar þeir fréttu af því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri í viðræðum við íslensk stjórnvöld. Eftir að Íslendingar leituðu á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, beittu Bretar og Hollendingar áhrifum sínum innan sjóðsins í því skyni að neyða Íslendinga til að viðurkenna greiðsluskyldu í Icesave-deilunni.

11. Ýmsar erlendar eignir bankanna voru hirtar á smánarverði, oft með fulltingi stjórnvalda, til dæmis í Noregi, Finnlandi og Danmörku. Samanlagt tap af þessum útsölum kann að hafa numið 4,3 milljörðum evra eða 558 milljörðum íslenskra króna.

12. Siðferðileg greining á framkomu stjórnvalda og kaupsýslumanna, sem hirtu eignir bankanna, sýnir, að þeir nýttu sér neyð Íslendinga á óréttmætan hátt. Ekki var um eðlileg markaðsviðskipti að ræða.

13. Hugsanlega hefði íslenska bankakerfið átt fyrir skuldum, ef það hefði ekki hrunið í október 2008. Ef miðað er við þá forsendu, þá var tapið af fallinu 38,1 milljarðar evra. Þetta tap lenti aðallega á herðum erlendra lánardrottna bankanna, en að nokkru leyti íslensks almennings vegna mistaka við sölu FIH banka í Danmörku, sem ollu tapi að upphæð 514 milljónum evra eða 66 milljörðum íslenskra króna.

14. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu voru skynsamleg: að reisa varnarvegg um Ísland (ring-fencing) og forðast það, að ríkissjóður tæki að sér skuldir einkaaðila. Þess í stað var innstæðueigendum veittur forgangur í bú bankanna, og hefur sú regla verið tekin upp í Evrópu síðan, ef til vill að fordæmi Íslendinga.

15. Íslendingar mismunuðu ekki á grundvelli þjóðernis, þegar þeir settu neyðarlögin 6. október 2008. Breskir innstæðueigendur nutu sama forgangs og íslenskir. Íslenska þjóðin bar hvorki lagalega né siðferðilega ábyrgð á skuldbindingum bankanna. Málflutningur Breta í Icesave-deilunni var því ekki á rökum reistur, og bresk stjórnvöld skulda íslensku þjóðinni afsökunarbeiðni vegna beitingar hryðjuverkalaganna og framgöngunnar í Icesave-málinu.

16. Einn almennan lærdóm fyrir Evrópu og raunar allan heim má draga af viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við bankahruninu: Með því að gera innstæðueigendur að forgangskröfuhöfum í bú banka verður óþarft að veita bönkum ríkisábyrgð, og þannig minnkar freistnivandi (moral hazard) banka.

17. Gögn sýna, að Seðlabankinn varaði ráðamenn margsinnis í kyrrþey við útþenslu bankanna, og til að takmarka áhættu þjóðarinnar lagði hann m. a. til, 1) að Icesavereikningar yrðu fluttir úr útbúi í dótturfélag, 2) að Glitnir seldi hinn norska banka sinn, 3) að Kaupþing flytti höfuðstöðvar sínar úr landi. Jafnframt beitti Seðlabankinn í bankahruninu sér fyrir varnarveggshugmyndinni (ring-fencing) og takmörkun skuldbindinga ríkissjóðs.

18. Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni 2010, að bankarnir hefðu vaxið of hratt og orðið of stórir. Sú niðurstaða er ekki röng, en segir ekki alla sögu. Stærð bankakerfisins var nauðsynlegt skilyrði fyrir bankahruninu, en ekki nægilegt skilyrði fyrir því. Skýra þarf, hvers vegna hætt komnir bankar eins og UBS í Sviss, Danske Bank í Danmörku og RBS í Skotlandi féllu ekki eins og íslensku bankarnir. Það var vegna þess, að þeir fengu þá lausafjárfyrirgreiðslu, sem Íslendingum var neitað um.

19. Ekkert bendir til þess, að eignir íslensku bankanna hafi almennt verið lakari en erlendra banka. Íslensku bankarnir gerðu hins vegar margvísleg mistök, sem voru til þess fallin að vekja andúð og vantraust á þeim erlendis, meðal annars: 1) Kaupþing reyndi að kaupa hollenskan banka haustið 2007, eftir að fjármálakreppan var skollin á; 2) Landsbankinn hóf vorið 2008 að safna innlánum í útbúi í Hollandi í stað dótturfélags; 3) bankarnir allir lánuðu einum hópi meira en 5,5 milljarða evra samtals eða hátt í þúsund milljarða króna.

20. Það reyndist að sumu leyti blessun frekar en bölvun, að Íslendingum var neitað um lausafjárfyrirgreiðslu, svo að þeir gripu til eigin ráða. Aðrar Evrópuþjóðir hafa enn ekki tekið á þeim skuldavanda, sem Íslendingar urðu að leysa við bankahrunið.   

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Hrunið

Orð Geithner á skjön við hrunskýrslu Hannesar
FréttirHrunið

Orð Geit­hner á skjön við hrun­skýrslu Hann­es­ar

Timot­hy Geit­hner, fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra Banda­ríkj­anna, seg­ir ut­an­rík­is­stefnu Ís­lands aldrei hafa ver­ið rædda þeg­ar hug­mynd­um um gjald­eyr­is­skipta­samn­ing í hrun­inu 2008 var hafn­að. Í skýrslu Hann­es­ar Hólm­steins Giss­ur­ar­son­ar sagði hann ástæð­una vera að Ís­land hefði ekki leng­ur ver­ið hern­að­ar­lega mik­il­vægt í aug­um Banda­ríkj­anna.
Timothy Geithner um hrunið á Íslandi: „Skakkt númer, hringdu í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn“
FréttirHrunið

Timot­hy Geit­hner um hrun­ið á Ís­landi: „Skakkt núm­er, hringdu í Al­þjóða­gjald­eyr­is­sjóð­inn“

Timot­hy Geit­hner, fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra Banda­ríkj­anna, seg­ist ekki minn­ast um­ræðu um ut­an­rík­is­stefnu Ís­lands vegna um­sókn­ar um gjald­eyr­is­skipta­samn­ing í hrun­inu 2008. Ís­land var ekki kerf­is­lega mik­il­vægt sam­kvæmt við­töl­um í bók Svein Har­ald Øygard, fyrr­ver­andi seðla­banka­stjóra.

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
5
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár