Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, verður formaður starfshóps sem vinna á skýrslu um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fyrir utanríkisráðuneytið.
Björn var í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks þegar samningurinn tók gildi 1994. Í febrúar skrifaði hann á heimasíðu sína um möguleikann á nýjum samningi, verði af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. „Óskaniðurstaða Íslendinga í Brexit-viðræðunum er aðild Breta að EFTA og nýr EES-samningur með aðild Breta og Svisslendinga,“ skrifaði Björn. „Fyrir þessu einfalda og skýra markmiði ættu íslensk stjórnvöld að beita sér.“
Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að Björn beri almenna ábyrgð á skipulagi verkefnisins og sé talsmaður hópsins gagnvart stjórnvöldum. Auk hans sitja í hópnum þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og erindreki um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar.
Með skýrslunni vill ráðuneytið koma til móts við beiðni frá hópi þingmanna um skýrslu utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að EES-samningnum sem samþykkt var á Alþingi fyrr á þessu ári. Starfshópurinn hefur 12 mánuði til að skila skýrslunni og skal leita til helstu sérfræðinga og fræðimanna í málaflokknum við vinnslu hennar.
Athugasemdir