Ef þú starir lengi í hyldýpið starir hyldýpið á móti, sagði Nietzsche fyrir löngu síðan. Fyrir nokkrum dögum starði borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á borgarfulltrúa VG sem rak út úr sér tunguna á móti. Síðan þá hefur málið verið grandskoðað frá öllum hliðum með aðstoð sálfræðinga, stjórnmálafræðinga og fjölmiðlafólks sem hafa af þessu þungar áhyggjur.
En ef borgarfulltrúarnir hafa ekki meiri áhyggjur af borginni en þetta má gera ráð fyrir að þar gangi allt sinn vanagang, embættismennirnir stjórni öllu á bak við tjöldin. Hinir eru bara að leika sér.
„Við sem erum nýbúin að fjölga í liðinu“
Við sem erum nýbúin að fjölga í liðinu, fara úr 15 borgarfulltrúum í 23 og kosta til þess heilmiklu fé, getum svo velt því fyrir okkur hvort því fé hafi verið vel eða illa varið. Hafi almenningur ætlað að fá fleiri hugsjónamenn til starfa, með raunverulegt erindi, virðist það hafa látið undan síga andspænis hinni risavöxnu vinnumiðlun stjórnmálaflokkanna.Borgarfulltrúunum lendir aldrei saman út af pólitík, heldur bara út af fundarsköpum, skarkinu í stólunum, vondu kaffi eða embættismönnum sem eru ekki nógu auðsveipir. Þegar verst lætur fá þau störuflog og ulla.
Tíminn er undarlegt fyrirbæri, það sem virðist breytast á löngum tíma, er aðeins örskotsstund þegar maður horfir til baka. Snemma í ágúst hlykkjaðist gleðigangan um götur borgarinnar, þar leiðast nú prestar og hommar, lesbíur og lögreglumenn, transfólk og biskupar, stjórnmálamenn dansa um með bleikt hár og regnbogafána, lögreglukórinn syngur og æskulýðssamtök Þjóðkirkjunnar dilla sér í hægum takti með dragdrottningum sem hagræða hárkollunum og halda undraverðu jafnvægi á pinnahælunum og BDSM fólkið rykkir í hundaólarnar hvert á öðru með sérstökum keðjum og lætur hvína í svipunum. Undir þessu hljómar mjög froðukennd júróvisjóntónlist sem hefur þann eiginleika að renna saman við alla aðra tónlist þannig að öll lögin virka eins.
Það eru í raun aðeins nokkur ár síðan hommar og lesbíur þóttu nánast óþolandi, hjónabandið myndi enda á ruslahaugunum ef slíkt fólk léti pússa sig saman, guði þætti þau viðurstyggileg og það myndi líða yfir hlustendur Ríkisútvarpsins ef svona dónalegt fólk yrði nefnt á nafn.
Núna erum við öll eins.
Menn keppast svo við að ausa ást og kærleika yfir hinsegin fólk að nokkrir ellilífeyrisþegar með Leoncie og Gylfa Ægisson í fararbroddi hafa gert það af gæsku sinni að skapa mótvægi í umræðunni og áunnið sér þónokkra fjölmiðlafrægð fyrir vikið.
Þau eru síðustu móhíkanarnir. „Vonda“ fólkið fer stundum að elska „góða“ fólkið gegn vilja sínum. Það skilur það náttúrlega bara enginn jafn vel og það.
Ef þú starir lengi ofan í hafragrautinn þinn fer hafragrauturinn að stara á móti.
Stjórnmálin eru líka orðin gleðiganga, þar sem öll dýrin í skóginum eru vinir.Þannig má sjá fyrir sér vagn, þar sem þau sitja í faðmlögum, Pía Kjærsgaard og Steingrímur J. Sigfússon. Einhvern tímann stóð maður í þeirri trú að þau væru svarnir andstæðingar í stjórnmálum en svo kom í ljós að þau eru bara eins.
Alveg eins og júróvisjónlag
Steingrímur J. er líka búinn að læra að elska óvini sína í Sjálfstæðisflokknum eins og öll forysta VG (eða höfuðandstæðinga sína eins og það hét fyrir kosningar) eða kannski breyttust þau bara í skrímsli. Þótt hann og Pía hafi árangurslaust reynt að spinna ofan í almenning að þau séu nánast ósnertanlegar verur, sem forsetar þjóðþinga, hafin yfir skoðanir, pólitík og flokkadrætti, trúir því enginn. Enda var það pólitík, plott og undirferli sem kom þeim í embætti. Engu máli skiptir þótt ríkisstjórnin kyrji undir.
„Steingrímur J. er líka búinn að læra að elska óvini sína í Sjálfstæðisflokknum“
Þetta er bara sjóbis
Það runnu samt tvær grímur á marga þegar „góða“ fólkið í VG fór í ríkisstjórn með „vonda“ fólkinu í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og fékk að launum að vera „fína“ fólkið með góðu launin, góðu ráðuneytin og góðu stólana.
Fótgönguliðarnir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar flokkseigendafélagið hékk skyndilega á dyrahúninum hjá Bjarna Ben, (höfuðandstæðingi sínum í stjórnmálum)frá sér numið af aðdáun. Skyndilega var VG komið í uppgrip við að lækka veiðigjöldin, og lækka tekjuskattinn til að auka bilið milli ríkra og fátækra, slást við ljósmæður, verja fínu launin sín en útskýra um leið föðurlega fyrir almenningi að það séu ekki til peningar til að hækka launin hans. Og svo þarf að dásama hvalveiðar og verja virkjun í Ófeigsfirði og ég veit ekki hvað og hvað.
Þrátt fyrir hafragrautinn í stjórnarráðinu og störuflogin í ráðhúsinu er ennþá fólk í heitu pottum sundlauganna, á kaffistofum vinnustaðanna, á foreldrafundum, í strætó og í sófanum heima hjá sér með tölvuskjáinn fyrir framan sig. Og þetta fólk veltir fyrir sér fyrir hverja þessir stjórnmálamenn séu að vinna? Hver kaus til dæmis VG til að lækka veiðigjöldin eða til að auka bilið á milli ríkra og fátækra með skattalækkunum? Hver kaus Steingrím J. til að vera riddarinn á hvíta hestinum, ríðandi á Þingvöll með Píu Kjærsgaard, leiðtoga danskra fasista, fyrir framan sig?
Svarið er enginn
Vinir þeirra í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hafa hins vegar öflugan kjósendahóp bak við sig sem vill akkúrat þetta. Þess vegna munu þau lifa þetta ríkisstjórnarsamstarf af en hin ekki.
Gleðiganga ríkisstjórnarinnar er feigðarflan.
Því þótt það sé afskaplega krúttlegt að sjá gamlan biskup leiða transkonu eða lögreglukór syngja fyrir hinsegin fólk er ekkert krúttlegt við að sjá mann sem þóttist vera hugsjónamaður biðja sótsvartan kynþáttahatara afsökunar á þjóð sinni.
Ég ætla því ekki að fara á límingunum þótt einn borgarfulltrúi VG reki út úr sér tunguna framan í annan í Sjálfstæðisflokknum. Borgarstjórnarflokkar höfuðandstæðinganna geta bara gengið undir fána BDSM, sína erindisleysu í gleðigöngu stjórnmálanna með Mörtu sjálfstæðiskonu, Sönnu sósíalista, Degi borgarstjóra og Vigdísi Hauks.
Höfuðandstæðingar og aðdáendur Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni hafa hins vegar ekkert umboð til að vera þar.
Athugasemdir