Meirihluti fjárlaganefndar og meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis gera athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um að endurskoða skattstofn fjármagnstekjuskatts svo hann miðist við raunávöxtun frekar en nafnávöxtun.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að skattstofn fjármagnstekjuskatts verði tekinn til endurskoðunar á kjörtímabilinu. Fram hefur komið í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og greinargerðum fjárlaga 2018 og fjármálaáætlunar að stefnt sé að því að breyta reiknireglu fjármagnstekjuskattsins þannig að skattstofninn miði við raunávöxtun í meira mæli en nú er.
Þetta er í samræmi við kröfur Viðskiptaráðs og fleiri hagsmunaaðila, en með því að miða við raunávöxtun yrðu greiðendur fjármagnstekjuskatts varðir sérstaklega fyrir verðbólguáhrifum.
Slíkt gæti skipt miklu fyrir fjársterkustu hópa íslensks samfélags ef rætist úr áhyggjum Seðlabankans af því að minna aðhald í ríkisfjármálum muni kynda undir verðbólgu á næstu árum.
Fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis skiluðu umsögnum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Meirihlutar beggja nefnda leggja til að horfið verði frá áformum um skattlagningu raunávöxtunar í stað nafnávöxtunar.
„Meiri hlutinn bendir á að svo virðist sem að óbreyttri álagningarprósentu sé einfaldara og skynsamlegra að hækka frítekjumark fremur en að innleiða flókna útreikninga raunávöxtunar,“ segir í áliti meirihluta fjárlaganefndar sem samanstendur af Willum Þór Þórssyni nefndarformanni, Haraldi Benediktssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Páli Magnússoni og Njáli Trausta Friðbertssyni.
Þannig taka þau undir ábendingu sem kemur fram í umsögn meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þar segir: „Skattlagning raunávöxtunar er ekki einföld og meiri hlutinn bendir á að með henni er líklegt að skattlagning fjármagnstekna verði ekki aðeins flóknari heldur einnig ógagnsærri og jafnvel illskiljanlegri en nú. Skiptar skoðanir eru innan meiri hlutans um skattlagninguna en svo virðist sem að með óbreyttri álagningarprósentu sé einfaldara og skynsamlegra að hækka frítekjumörk fremur en innleiða flókna útreikninga raunávöxtunar.“ Sú umsögn er einnig lögð fram af þingmönnum stjórnarflokkanna, Óla Birni Kárasyni nefndarformanni, Bryndísi Haraldsdóttur, Brynjari Níelssyni, Ólafi Þór Gunnarssyni og Silju Dögg Gunnarsdóttur.
Til fjármagnstekna einstaklinga teljast vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar, en fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna en almennar launatekjur á Íslandi og jafnframt miklu minna en tíðkast í flestum ríkjum OECD.
Athugasemdir