Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talaði fyrir því í aðdraganda síðustu þingkosninga að veiðigjöld yrðu hækkuð. Nú leiðir hún ríkisstjórn sem hyggur á lækkun veiðigjalda um tvo milljarða.
„Ég tel bara að þessi gjöld hafi verið lækkuð alltof skarpt og ég held að þau geti skilað sér betur án þess að það ógni hagsmunum útgerðarinnar í landinu. Ég meina, horfum bara á þær arðgreiðslur sem hafa verið að fara út úr stórum útgerðarfyrirtækjum á undanförnum árum upp á hundruð milljóna. Finnst okkur þetta eðlilegt?“ sagði Katrín í þættinum Forystusætinu á RÚV þann 11. október 2017. „Ég held að það sé hægt að hækka þau með sanngjörnum hætti án þess að það bitni á útgerðinni í landinu.“
Í síðustu viku lagði meirihluti atvinnuveganefndar, sem samanstendur af þingmönnum stjórnarmeirihlutans og Miðflokksins, fram frumvarp um endurreikning veiðigjalds sem felur í sér að gjaldið mun skila ríkissjóði um tveimur milljörðum minni tekjum í ár en áður var gert ráð fyrir. Í greinargerð frumvarpsins er bent á að rekstrarafkoma sjávarútvegsfyrirtækja hafi þyngst umtalsvert á undanförnum árum samhliða mikilli hækkun veiðigjalds sem miði við 2 til 3 ára gamlar upplýsingar um afkomu í sjávarútvegi.
Við undirbúning fjárlaga ársins 2018 var gert ráð fyrir því að veiðigjald næmi um 10 milljörðum króna á árinu, en í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar voru hins vegar áætlaðar tekjur af veiðigjaldi lækkaðar um 3 milljarða.
Fréttablaðið greindi frá því í dag að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði samið við meirihluta atvinnuveganefndar um að leggja fram veiðigjaldsfrumvarpið. Þannig má segja að óbeint sé um stjórnarfrumvarp að ræða. Haft er eftir Katrínu að hún hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að veiðigjöldin eigi að vera afkomutengd. „En það hefur það óhjákvæmilega í för með sér að verri afkoma skilar lægri gjöldum,“ segir hún.
Eins og áður segir talaði þó Katrín fyrir því í kosningabaráttunni í fyrra að veiðigjöld yrðu hækkuð og vitnaði til arðgreiðslna árin á undan því til stuðnings. Minnt er á þetta í nýlegu myndbandi frá Jæja-hópnum, aktívistahópi sem varð til í kringum mótmæli gegn ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Byggir myndbandið á frétt RÚV frá því í gærkvöldi.
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt veiðigjaldsfrumvarpið harðlega og sakað ríkisstjórnina um sérhagsmunagæslu. Í umsögn frá Alþýðusambandi Íslands sem birtist á vef Alþingis í dag er bent á að með frumvarpinu sé verið að „létta eðlilegu endurgjaldi fyrir afnot af þjóðarauðlind af nokkrum af best stöddu fyrirtækjum landsins“. ASÍ telur að erfiðleika minni útgerða verði að leysa á annan hátt í stað þess að nota vanda þeirra til að rökstyðja almenna lækkun veiðigjalda. „ASÍ hefur ítrekað gagnrýnt það að veik rekstrarstaða smárra útgerða sé notuð til að lækka veiðigjöld á best settu fyrirtæki landsins,“ segir í umsögninni.
Athugasemdir