Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Þegar samúræinn hugðist hálshöggva Rússaprins

Ill­ugi Jök­uls­son skrif­ar um til­ræði við Nikulás síð­ar Rússa­keis­ara í Jap­an 1891. Frændi Nikulás­ar, Georg son­ar­son­ur Kristjáns X, kon­ungs Ís­lands og Dan­merk­ur, vann þá hetju­dáð mikla. Eða hvað?

Þegar samúræinn hugðist hálshöggva Rússaprins
Nikulás II Hefði Nikulás II Rússakeisari verið hálshöggvinn í Japan hefði sagan mögulega orðið allt önnur. Mynd: Shutterstock

Þann 11. maí árið 1891 var 22 ára gamall grískur prins staddur í bænum Otsu við Biwa-vatn í miðju Japan. Þetta var reffilegur ungur maður með há kollvik og afar snyrtilegt yfirskegg, sterklegur og þróttmikill, og sá gildi göngustafur silfursleginn sem hann bar var bara tískutildur. Prinsinn þurfti í rauninni alls ekkert að styðja sig við hann. Georg hét hann, þessi prins, næstelsti sonur Georgs Grikkjakóngs og Olgu drottningar. Hvorugt þeirra mátti í rauninni heita grískt; Georg kóngur var næstelsti sonur Kristjáns IX Danakóngs og hafði verið dubbaður upp í hásætið í Aþenu þegar Ottó Grikkjakóngur var settur af 1862 og átti enga sonu; en Olga var sonardóttir Nikulásar I Rússakeisara. 

Heimalningur leggur land undir fót

Nikulás II 18 ára

Það var einmitt vegna ættartengsla við rússnesku keisarafjölskylduna sem Georg prins með göngustafinn var kominn til Japans. Honum hafði verið boðið að slást í för frænda síns og jafnaldra, Nikulásar krónprins Rússa, sem hafði verið boðinn í opinbera heimsókn til Japans. Ráðamenn í Japan voru þá í óða önn að rjúfa einangrun landsins sem staðið hafði óslitið öldum saman þangað til um miðja 19. öld og boðið til Nikulásar krónprins var einn þáttur í því. Krónprinsinn var reyndar í miðri mikilli reisu um veröldina og þeir Georg frændi höfðu þegar heimsótt Egiftaland, Indland, Síam og Singapúr. Fram að þessu hafði Nikulás verið hálfgerður heimalningur í Moskvu og hafði litla sem enga þekkingu á umheiminum. Alexander III faðir hans hafði heldur ekki sett hann inn í nein stjórnarmálefni svo hann þótti helstil fávís um flest, en frjálslyndir menn vonuðu að þessi ferð myndi opna augu krónprinsins fyrir veröldinni og öðrum áhrifum en bara hinu feyskna rússneska einveldi Romanov-ættarinnar. 

Krónprins fékk sér tattú

Og vissulega var ferðin upplifun fyrir þá frændur Nikulás og Georg og í Japan hafði þeim sannarlega verið tekið með kostum og kynjum. Þeim var fengin sérstök fylgdarsveit þar sem voru leiðsögumenn, túlkar og lögreglumenn og fór allt saman fram með ýtrustu kurteisi. Prinsarnir höfðu farið um ýmsar japanskar borgir og þar á meðal til hinnar fornu höfuðborgar þar sem ættleiddur sonur Japanskeisara tók á móti þeim og kappkostaði að sýna þeim virðingu. Ekki höfðu prinsarnir þó enn gengið á fund Japanskeisara sjálfs.

Japanir mátu heimsóknina mikils. Rússar höfðu á síðustu árum fært sig mjög upp á skaftið við landamærin að Kína og Kyrrahafsströndina, og aukið þar herafla sinn stórlega, svo Japönum var í mun að efla við þá bandalag. Þeir voru sjálfir í útþensluhug og litu Kóreu til dæmis hýru auga um þær og vildu tryggja að Rússar skiptu sér ekki af plönum þeirra þar. En Nikulás og Georg sátu ekki bara opinberar veislur þar sem fyrirmenn hneigðu sig hver fyrir öðrum, uns alla var farið að sundla, heldur fóru þeir út á meðal almennings, fengu sér snotur drekatattú á handlegg og svo framvegis. Og svo lá leiðin að hinu ægifallega Biwa-vatni og ungu prinsarnir fóru í bátsferð um kyrrlátt vatnið og nutu þess að teygja í sig náttúrufegurðina. 

Ráðist fram með sverð

En þá fór að kárna gamanið. Eftir siglinguna voru prinsarnir á leið að léttivögnum sínum ásamt bæði eigin fylgdarliði og hinum japönsku gestgjöfum þegar Georg veitti því skyndilega athygli að einn japönsku lífvarðanna var kominn með hárbeitt samúræja-sverð á loft og hjó nú sem skjótast að Nikulási Rússaprins. Þetta gerðist svo óvænt að enginn fékk við ráðið, högg lífvarðarins kom á andlit Nikulásar sem féll við og blóð fossaði úr sári hægra megin á enni hans. Og lífvörðurinn hafði nú stillt sér betur upp og lyfti sverði sínu á ný yfir höfði Nikulásar. Nú bjóst hann til að hreinlega sníða höfuð krónprinsins af búknum.

Allir stóðu sem steini lostnir og japönsku lífverðirnir höfðu ekki hreyft hönd eða fót rússneska gestinum til varnar.

En þá kom Georg Grikkjaprins til skjalanna. Hann einn var nógu skjótur að átta sig. Umsvifalaust steig hann nú fram, lyfti silfurbúnu montpriki sínu og náði að slá sverðberann svo fast í handlegginn sem reiddi upp sverðið að högg hans geigaði og Nikulás gat beygt undan gljáfægðri egginni á síðustu stundu. Og nú runnu loks álögin af hinum japönsku lífvörðum og þeir ráku upp skaðræðisóp og teygðu sig eftir vopnum sínum svo tilræðismaðurinn lagði á snöggan flótta. Hann komst hins vegar ekki langt því tveir léttvagnahlauparar eltu hann uppi, stukku á hann og héldu honum föstum þar til hinir lífverðirnir komu aðvífandi og tóku hann höndum. 

Tilræðismaðurinn var samúræi

Þarna hafði hurð skollið nærri hælum fyrir Nikulás krónprins Rússa. Hann var með 9 sentímetra langt sár á höfðinu sem mikið blæddi úr en ljóst var að það var ekki lífshættulegt. Hins vegar áttuðu allir sem á horfðu sig á því að næsta högg hefði drepið hann ef Georg Grikkjaprins hefði ekki slegið tilræðismanninn með staf sínum svo honum fipaðist.

Tilræðismaðurinn reyndist vera 36 ára fyrrverandi samúræi sem hafði verið í japönsku lögreglunni undanfarið. Tsuda Sanzo hét hann og við yfirheyrslur kvaðst hann hafa ákveðið að drepa Nikulás vegna þess að hann væri „ókurteis“. Með því að ganga ekki beint á fund keisarans við komu sína til Japans og votta honum virðingu sína, þá hefði Nikulás vanvirt keisarann sem refsa bæri fyrir með lífinu. Jafnframt hélt hann ræður yfir þeim sem yfirheyrðu hann um lymskufull áform Rússa um að seilast til valda í Japan og skyldi svo aldrei verða. Sjónarmið eins og þau sem Sanzo hélt fram voru ekki alveg óþekkt í Japan því mörgum fannst að í auknum samskiptum við útlönd fælist undirgefni við erlend ríki. 

Beðið eftir kraftaverki?

Einnig heyrðist sú skýring að Sanzo hefði tilheyrt samúræjahópi sem vonaðist eftir því kraftaverki að uppreisnarforinginn Saigo Takamori myndi dúkka upp í fylgdarliði Nikulásar krónprins. Takamori hafði gert uppreisn í nafni gamalla gilda árið 1877 og var felldur, en sumir fylgismenn vildu ekki trúa á dauða hans. Þeir trúðu því að hann hefði flúið til Rússlands og kæmi þaðan um síðir til að snúa aftur öllu til hefðbundnari vega í Japan. Þegar Takamori birtist ekki í rússneska herskipinu sem flutti Nikulás og fylgdarlið til Japans á Sanzo að hafa talið að Rússar hefðu komið samúræjanum snjalla fyrir kattarnef, og heitið hefndum.

En svo var því líka fleygt að Sanzo hefði einfaldlega hatað alla útlendinga. Það var til í dæminu í Japan í þá daga. Og sumir fullyrtu að hann hefði ekki verið með öllum mjalla. 

Saumakona sker sig á háls

Tilræðið við Nikulás var Japönum mikið áfall. Keisarinn arkaði þegar á fund Nikulásar og lét sig meira að segja hafa það að fara fáliðaður um borð í rússneskt herskip í höfninni í Kobe, þangað sem Nikulás var kominn með sárabindi um höfuð, en slíkt höfðu sumir af ráðgjöfum hans talið mikið hættuspil því Rússar myndu áreiðanlega sæta færis að hneppa keisarann í gíslingu.

Í einu héraði voru nöfnin Tsuda og Sanzo bönnuð og skyldu þau aldrei brúkuð framar og þeir urðu að skipta um nöfn sem hétu þessum ógæfunöfnum. Símskeyti með óskum um góðan bata streymdu í þúsundatali til Nikulásar frá háum sem lágum í Japan og þegar spurðist að Rússaprins ætlaði að halda heimleiðis fyrr en til stóð vegna þessarar árásar, þá skar ung saumakona sig á háls á opinberum vettvangi, og var það gert í yfirbótarskyni fyrir hönd japönsku þjóðarinnar. Og Japanir kunnu að meta þessa sjálfsfórn og japanskir fjölmiðlar lýstu hana valkyrju. Vagnahlaupararnir tveir sem handsömuðu Sanzo urðu líka á skammri stundu þjóðhetjur. Þeim var úthlutað gífurlega háum eftirlaunum til æviloka, fengu verðlaun og orður og þóttu til marks um hetjulund Japana. 

Olli gremja Nikulásar stríði?

Sanzo sjálfur var dreginn fyrir dóm og saksóknari fór fram á dauðarefsingu á mjög hæpnum forsendum, en hæstiréttur kvað upp úrskurð um ævilangt fangelsi. Þótti það til marks um að Japan væri orðið sannkallað réttarríki. Sanzo veiktist hins vegar og dó eftir fáeina mánuði í haldi.

Bæði Nikulás og aðrir Rússar fullvissuðu Japani um að þeir bæru engan kala til japönsku þjóðarinnar eða stjórnvalda vegna tilræðisins. Sumir hafa þó leitt að því líkur að þegar Rússar lýstu yfir stríði gegn Japönum 1904 hafi gremja Nikulásar vegna árásarinnar átt sinn þátt í því, en hann var þá orðinn keisari í stað Alexanders föður síns sem dó 1896. Japönum gramdist alla vega verulega við Rússa og virðast hafa rakið stríðið til tilræðisins í Otsu. Að minnsta kosti voru vagnahlaupararnir tveir þegar í stað sviptir hinum ríflegu eftirlaunum sínum, þeir sættu ásökunum fyrir að vera njósnarar Rússa og lögreglan ofsótti þá. 

Mikhaíl og „blóðsugan“

En spólum nú til baka til þeirrar stundar þegar Georg Grikkjaprins reiðir upp silfurbúinn stafinn sinn og bjargar Nikulási frá bráðum bana. Það er auðvitað alltaf afrek að bjarga mannslífi en eftir á hyggja: Hefði Georg þá átt að standa afskiptalaus eins og hinir og leyfa Tsuda Sanzo að höggva höfuðið af Rússaprins?

„Því ef Nikulás hefði verið afhausaður þarna á bökkum Biwa-vatns, þá hefði Mikaíl, yngri bróðir hans, á endanum orðið Rússakeisari. Og þá hefði sagan orðið ansi mikið öðruvísi en raun varð á.“ 

Þetta kann að virðast furðuleg spurning.

En sannleikurinn er sá að það má vel hugsa sér að hetjudáð Georgs hafi í raun verið hörmulegur bjarnargreiði við bæði Rússa og allt mannkynið í heild. Því ef Nikulás hefði verið afhausaður þarna á bökkum Biwa-vatns, þá hefði Mikaíl, yngri bróðir hans, á endanum orðið Rússakeisari. Og þá hefði sagan orðið ansi mikið öðruvísi en raun varð á. Frá Mikaíl og mögulegri keisaratíð hans segir í næstu flækjusögu eftir hálfan mánuð. Og hvað varð um Georg Grikkjaprins? Þar munu koma við sögu „blóðsugan“ Natalía Brasova og svo þeir kumpánar Raspútín, Adolf Hitler, Jósef Stalín og Sigmund Freud svo aðeins fáir séu taldir.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
5
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár