Engin gögn um efnislegar niðurstöður velferðarráðuneytisins í kvörtunarmálum barnaverndarnefnda gegn Barnaverndarstofu voru lögð fyrir ríkisstjórn Íslands þann 23. febrúar þegar samþykkt var að bjóða Braga Guðbrandsson fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Ísland hönd.
Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við Stundina. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra fór hins vegar munnlega yfir almenn atriði á fundinum og gerði þannig ríkisstjórninni grein fyrir því hvernig könnun ráðuneytisins vegna ávirðinga barnaverndarnefnda á hendur Braga Guðbrandssyni var háttað.
Eins og Stundin greindi frá í dag hefur Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra búið yfir ítarlegum upplýsingum allt frá 31. janúar 2018 um afskipti Braga Guðbrandssonar af tilteknu barnaverndarmáli og þrýsting sem Bragi beitti barnaverndarstarfsmann af samúð við fjölskyldu manns sem grunaður var um kynferðisbrot gegn dætrum sínum.
Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að um leið og Bragi hlutaðist til um meðferð málsins átti hann ítrekuð samskipti við föður málsaðila, Þjóðkirkjuprest sem er málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál. Í þrýstingi Braga fólst sú krafa að móðir stúlknanna myndi hætta að „hamla umgengni“ þrátt fyrir að barnavernd Hafnarfjarðar hefði ráðlagt henni að halda dætrum sínum í öruggu skjóli frá föður þeirra meðan meint kynferðisbrot væru rannsökuð. Á sama tíma og afskiptin áttu sér stað lá tilvísunarbréf barnaverndarnefndar vegna málsins – þar sem farið var fram á rannsóknarviðtöl við stúlkurnar í ljósi sterkra og margvíslegra vísbendinga um að faðirinn hefði beitt þær kynferðisofbeldi – óhreyft í pósthólfi Barnahúss auk þess sem tölvukerfi Barnahúss mun hafa bilað.
Hvorki forsætisráðherra né aðrir ráðherrar en Ásmundur höfðu vitneskju um hvers eðlis afskipti Braga voru þegar ákveðið var að bjóða hann fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við Stundina að hún hyggist fara vandlega yfir málið með Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra. Hann muni jafnframt ræða málið við velferðarnefnd á mánudaginn, en eins og Stundin greindi frá fyrr í dag telja nefndarmenn að Ásmundur hafi ekki komið heiðarlega fram og eigi að segja af sér ráðherradómi.
Ásmundur Einar vildi ekki veita Stundinni viðtal í gær nema hann fengi að vita fyrirfram hverjar spurningarnar væru. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra varð hins vegar við viðtalsbeiðni og birtist samtal blaðamanns við Katrínu orðrétt hér á eftir. Orð blaðamanns eru skáletruð en orð Katrínar innan gæsalappa:
Upplýsti Ásmundur þig og ríkisstjórnina, á fundinum 23. febrúar, um hvers eðlis afskipti Braga af þessu máli voru og hvers konar upplýsingum hann bjó yfir?
„Ráðherra greindi frá því að ýmis mál hefðu komið upp er vörðuðu samskipti Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndar en fjallaði ekki um einstök mál, hvorki þetta né önnur. Hann greindi hins vegar frá því að ráðuneytið hefði farið yfir kvartanir barnaverndarnefndanna og komist að þeirri niðurstöðu að forstjóri Barnaverndarstofu hefði ekki gerst brotlegur í starfi. Það er það sama og fram kom í máli ráðherra á Alþingi á síðari stigum.“
Fenguð þið að sjá niðurstöður ráðuneytisins í kvörtunarmálum barnaverndarnefndanna?
„Þú ert þá að vísa til bréfanna sem voru send og lögð fram í velferðarnefndinni?“
Þau hafa verið kölluð niðurstaða, en ef þetta er niðurstaða þá hlýtur það að þýða að málin hafi ekkert verið rannsökuð, því það er ekkert í þessum bréfum og engin afstaða tekin til ávirðinga barnaverndarnefndanna með tilliti til laga og reglna.
„Þessi bréf voru ekki lögð fram á þessum fundi heldur gerð munnlega grein fyrir þessari niðurstöðu.“
En minnisblöðin sem bréfin byggja á, voru þau ekki heldur lögð fram?
„Nei, bréfin voru ekki lögð fram. Þau voru lögð fram fyrir velferðarnefnd en ekki ríkisstjórn og ekki minnisblöðin heldur.“
Þannig í rauninni upplýsti hann ríkisstjórn ekki…
„Hann fór yfir þessa niðurstöðu munnlega.“
Fór hann yfir það hvers eðlis afskipti Braga voru?
„Fór ekki inn í einstök mál nei.“
Finnst þér ekki sem forsætisráðherra að Ásmundur Einar hafi brugðist trausti þínu?
„Nei, ég dreg ekki þá ályktun, en hins vegar ætlum við að fara yfir þessi mál þegar hann kemur heim. Hann er staddur erlendis. Ég veit að hann mun fara yfir þetta líka með forstjóra Barnaverndarstofu. Eins og ég segi, niðurstaða ráðuneytisins var þessi. Ráðherra kveðst svo hafa boðið velferðarnefnd aðgang að þessum gögnum og það verður að skýrast ef þar hefur orðið á einhver misbrestur.“
Nú hefurðu væntanlega lesið umfjöllun Stundarinnar. Er þetta ekki eitthvað sem þú hefðir viljað vita sem forsætisráðherra áður en ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að bjóða Braga fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna?“
„Eins og ég segi þá kom skýrt fram í máli ráðherra að komið hefðu upp mál þar sem væri ágreiningur milli Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda. Og þótt hann færi ekki í einstök mál. Svo það lá alveg fyrir að þarna voru einhver mál uppi á borðum sem ráðuneytið hafði svo farið sérstaklega yfir og komist að þeirri niðurstöðu.“
Hefðir þú og ríkisstjórnin ekki átt að vera upplýst um hvernig ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu?
„Um einstök mál þá?“
Já, eða jafnvel bara almennt um lagagrundvöllinn varðandi afskipti forstjóra Barnaverndarstofu af einstaka málum. Mér heyrist að svo sé ekki fyrst þið fenguð ekki bréfin eða minnisblöðin.
„Ég held að það þurfi bara að fara yfir hvernig svona upplýsingagjöf á að vera háttað. Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að ríkisstjórn eigi að vera upplýst um mál einstaklinga. Það er ekki endilega rétta leiðin í svona málum. En við munum fara yfir þetta.“
En ef þið fenguð ekki bréfin eða minnisblöðin, þá hafiði heldur ekki verið upplýst um málið almennt séð, afskipti með tilliti til laga og reglna, eitthvað sem er rauður þráður í kvörtunum barnaverndarnefndanna?
„Það var farið yfir þetta munnlega hvernig sú yfirferð hefði verið. Það var með þessum almenna hætti. Ekki farið í einstök mál heldur með sambærilegum hætti og í velferðarnefnd.“
Er þér ekki brugðið að ráðherra í ríkisstjórn þinni hafi vitað af þessu öllu, séð tölvupóstssamskiptin sem Stundin vitnar í, séð þennan útdrátt af símtali Braga við barnaverndarstarfsmanninn... að hann hafi vitað af þessu allan þennan tíma án þess að greina ykkur frá þegar þið ákveðið að bjóða Braga fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna?
„Eins og ég segi, ég mun fara yfir þetta mál með ráðherra þegar hann kemur til landsins.“
En er Bragi hugsaður sem einhvers konar fulltrúi Norðurlandanna í Barnaréttarnefnd? Það má skilja tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins þannig, talað sérstaklega um að hin Norðurlöndin hafi ekki boðið fram fulltrúa.
„Það kemur fram í minnisblaði sem var lagt fyrir ríkisstjórn að ekkert Norðurlandanna hefur skilað inn framboði en Norðurlöndin telji mikilvægt að tryggja áhrif sín í nefndinni. Svo það er væntanlega, þótt það sé ekki formleg skipting, þá gæti verið einhver hugsun í því.“
Þannig hin Norðurlöndin hafa væntanlega látið vera að bjóða fram fulltrúa fyrst Ísland býður fram Braga?
„Það er ekki orðað þannig en kemur fram að norski fulltrúinn gefi ekki kost á sér til endurkjörs og ekkert Norðurlandanna hafi skilað inn framboði.“
Athugasemdir