Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur birt svar við opnu bréfi vegna máls Hauks Hilmarssonar á Facebook-síðu sinni. 400 manns birtu í gær opið bréf til Katrínar þar sem lýst var áhyggjum af afdrifum Hauks, sem týndur er í Sýrlandi, og lýstu þeirri skoðun að íslensk stjórnvöld hefðu sýnt af sér vanrækslu með aðgerðarleysi sínu við leitina að Hauki.
Í bréfinu, sem undirritað var af fjölda þjóðþekktra einstaklingra og annarra, var skorað á Katrínu að beita sér tafarlaust í máli Hauks með því að reyna með öllum tiltækum leiðum að komast að því hvaðan Tyrkneskir fjölmiðlar hefðu fengið þær upplýsingar að senda ætti lík Hauks heim til Íslands, sem og hvaðan þær upplýsingar væru komnar að lík Hauks væri í höndum Tyrklandshers. Leita ætti til óháðra aðila til að komast að því hvort þær upplýsingar ættu við rök að styðjast. Þá var skorað á Katrínu að beita fullum þunga við að fá Hauk, lífs eða liðinn, heim til Íslands væri hann í höndum Tyrkja. Þess var einnig krafist að aðstandendur Hauks fengju fullnægjandi aðgang að gögnum um rannsókn yfirvalda á hvarfi Hauks og að íslensk stjórnvöld sæktu formlega um leyfi frá tyrkneskum stjórnvöldum til að hópur úr röðum aðstandenda Hauks fengju að ferðast óáreittir til Afrin að leita hans þar.
Katrín svarar á Facebook-síðu sinni og fer yfir þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafi ráðist í til að grennslast fyrir um hvarf Hauks. Leitað hafi verið eftir upplýsingum hjá tyrkneskum stjórnvöldum og öðrum til þess bærum yfirvöldum þar í landi, auk mannúðarsamtaka á svæðinu. Tyrknesk yfirvöld hafi gerið þær upplýsingar að Tyrkir hafi Hauk ekki í haldi og að hans verði leitað meðal fallinna og særðra á svæðinu.
Þá hafi verið leitað til vinaþjóða Íslands með beiðni um að afla upplýsinga um málið, og íslensk lögregluyfirvöld hafi í samstarfi við norræna og evrópska kollega sína kannað það einnig.
Enn hafi hins vegar ekkert komið fram sem varpað geti ljósi á hvað orðið hafi um Hauk en áfram verði unnið að málinu. Ekki sé unnt að afhenda öll gögn sökum þess að um þau ríki trúnaður um milliríkjasamskipti.
Þá segir einnig að íslensk stjórnvöld geti ekki mælt með því að íslenskir ríkisborgarar ferðist til svæðisins þar sem þeim geti stafað mikil hætta af þeim átökum sem þar geisi.
Svar Katrínar er svohljóðandi:
Vegna opins bréfs um mál Hauks Hilmarssonar
Mál Hauks Hilmarssonar hefur verið í algjörum forgangi hjá utanríkisráðuneytinu frá því það kom upp. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur leitað allra leiða til að komast að afdrifum Hauks og lögð hefur verið áhersla á að vinna náið með fjölskyldu Hauks.
Um leið og fregnir bárust af því að Tyrkir kynnu að hafa Hauk í haldi var haft samband við Tyrki.
Í fyrsta lagi var það gert í gegnum sendiherra Tyrklands í Osló sem er æðsti fulltrúi tyrkneskra stjórnvalda gagnvart Íslandi.
Í öðru lagi hafa íslensk og tyrknesk stjórnvöld, þ.m.t. hermálayfirvöld, verið í stöðugu sambandi eftir ýmsum leiðum frá þeim degi.
Í þriðja lagi hefur mál Hauks hefur verið tekið upp við utanríkisráðherra, varnarmálaráðherra og fjölskyldumálaráðherra Tyrklands. Þær upplýsingar hafa fengist á því að Tyrkir hafi Hauk ekki í haldi og að hans verði leitað meðal látinna og særðra á svæðinu.
Í fjórða lagi hefur verið leitað eftir upplýsingum í gegnum óformlegri samskipti, s.s. við mannúðarsamtök sem hafa aðgang að svæðinu.
Í fimmta lagi hafa lögregluyfirvöld, sem fara með rannsókn mannshvarfa, rannsakað málið, m.a. í gegnum norrænt og evrópskt samstarf lögregluyfirvalda.
Í sjötta lagi hefur verið haft samband við sjö vinaþjóðir til að afla upplýsinga um hvernig staðið sé að svipuðum borgaraþjónustumálum. Þessi ríki hafa öll áréttað að staðan sé einstaklega flókin, og erfitt sé að afla upplýsinga og enn erfiðara að veita aðstoð. Aðrar upplýsingar liggja því miður ekki fyrir að svo stöddu.
Í sjöunda lagi ræddi ég málið við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og bað um aðstoð við að afla upplýsinga um afdrif Hauks. Í kjölfarið áttu íslenskir embættismenn samskipti við þýska embættismenn.
Því miður hefur enn ekkert komið fram sem varpað getur ljósi á hvað orðið hefur um Hauk. Áfram er unnið að málinu af alúð og heilindum innan borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins með þeim úrræðum sem til staðar eru af fullum þunga.
Ekki er unnt að afhenda öll gögn sem til eru um framgang og niðurstöður íslenskra stjórnvalda á hvarfi Hauks. Ástæður þess eru að trúnaður ríkir um milliríkjasamskipti. Einnig er það þannig að sum gögn sem tengjast máli Hauks innihalda upplýsingar um einstaklinga sem geti ógnað öryggi þeirra. Aðstandendur hans hafa hins vegar verið upplýstir um efni og niðurstöðu þeirra samskipta eftir því sem kostur hefur verið.
Íslensk stjórnvöld geta ekki mælt með því að íslenskir ríkisborgarar ferðist til svæðisins, þar sem þeim getur stafað mikil hætta af þeim átökum sem geisa á svæðinu.
Hermálayfirvöld, mannúðarsamtök og borgaraþjónustur samstarfsríkja hafa sagt ástandið á svæðinu mjög óöruggt og hafa raunar ekki haft aðgang að því um nokkurra vikna skeið.
Öll ríkin ráða borgurum sínum frá ferðalögum til Sýrlands almennt enda er geta þeirra til að veita borgaraþjónustu mjög takmörkuð. Ferðaviðvaranir, þar sem varað er við öllum ferðum til Sýrlands vegna ríkjandi ástands, eru því í fullu gildi.
Katrín Jakobsdóttir.
Athugasemdir