Minnisblað utanríkisráðuneytisins um mál Hauks Hilmarssonar, sem saknað er í Sýrlandi, var sent formanni utanríkismálanefndar í gær, miðvikudaginn 11. apríl. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd hafði óskað eftir því fyrir um mánuði síðan að nefndin fengi slíkt minnisblað í hendur en ekkert gerðist í málinu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Trúnaður ríkir hins vegar yfir minnisblaðinu, eftir því sem Logi sagði við Stundina í gær, og gat hann því ekki upplýst um hvað kæmi þar fram.
Í fyrstu fréttum af máli Hauks, sem birtust 6. mars síðastliðinn, var hann sagður hafa fallið í bardögum í norðurhluta Sýrlands 24. febrúar. Enn hefur ekki tekist að staðfesta það. Óskað var eftir minnisblaði frá utanríkisráðuneytinu um málið, af hálfu utanríkismálanefndar, 12. mars síðastliðinn. Var sú ósk ítrekuð í tvígang, 21. mars og 4. apríl, án árangurs.
Ekki hægt að upplýsa um innihaldið
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu reyndist ekki unnt að afhenda minnisblað um málið á fundi utanríkismálanefndar 14. mars en fulltrúar ráðuneytisins mættu hins vegar á þann fund til að gera grein fyrir málinu og svara spurningum nefndarmanna.
Engir skilgreindir frestir munu vera á afhendingu minnisblaða sem þess sem utanríkismálanefnd óskaði eftir en leitast er eftir því að það sé gert svo fljótt sem auðið er, samkvæmt svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Stundarinnar sem barst í gær. Tafir á afhendingu minnisblaðsins um mál Hauks helgist meðal annars að önnum hjá þeim starfsmönnum ráðuneytisins sem fara með mál Hauks. „Sem kunnugt er hefur eftirgrennslan um afdrif hans verið í forgangi hjá ráðuneytinu frá því það kom fyrst til kasta þess fyrir rúmum mánuði,“ segir í svari ráðuneytisins. Þar er jafnframt bent á að nefndarmenn utanríkismálanefndar hafi fengið upplýsingar um stöðu og framgang málsins á umræddum fundi 14. mars og í fyrirspurnartíma ráðherra á Alþingi 22. mars.
Minnisblaðið umrædda barst loks í gær, sem fyrr segir. Í samtali við Stundina sagði Logi hins vegar að trúnaður væri um innihald þess og hann gæti því, að svo stöddu, ekki upplýst um hvað þar kæmi fram. Bætti hann því við að hann skyldi ekki hví svo væri.
Athugasemdir