Fyrir rúmlega mánuði síðan, þann 6. mars bárust fréttir af falli Hauks Hilmarssonar í innrás Tyrklands á sjálfsstjórnarsvæði Rojava í Sýrlandi. Frá því að fréttirnar bárust hafa ástvinir og fjölskylda Hauks leitað upplýsinga með öllum tiltækum ráðum og ítrekað farið þess á leit við stjórnvöld að þau beiti sér af fullri alvöru í að komast að afdrifum Hauks. Svo virðist sem stjórnvöld hafi frá fyrsta degi gengið út frá því að Haukur sé látinn, þrátt fyrir vísbendingar um að fjölskyldan hafi ekki fengið réttar upplýsingar. Þó svo að rétt kunni að vera að Haukur sé látinn er óviðunandi að leit að líki skuli ekki vera tekin alvarlega, einkum í ljósi þess að hætta er á að líkið verði sett í fjöldagröf og aðstandendur fái aldrei staðfestingu á því hvað varð um Hauk.
Í mánuð hafa ástvinir og fjölskylda Hauks beðið um upplýsingar um framgang mála hjá Utanríkisráðuneytinu. Það var svo loksins í morgun að fjölskyldan fékk svar frá ráðuneytinu um framgang málsins en var synjað um aðgang að þeim gögnum sem eiga að sýna fram á að haft hafi verið samband við erlend ríki og alþjóðastofnanir. Vísað er í samskipti við „aðila á svæðinu“ en engar upplýsingar veittar um það hverskonar „aðilar“ það eru, blaðamenn, andspyrnumenn, stuðningsmenn Erdoğans, einhver úr stjórnsýslu Tyrkja, persónulegir vinir einhvers hjá Utanríkisráðuneytinu eða einhver annar. Gögnin sem ráðuneytið afhendir sýna ekki fram á að reynt hafi verið að komast til botns í fréttaflutningi af því að lík Hauks sé í höndum Tyrkja, og í raun er sáralítið á þessari afgreiðslu að græða. Taldir eru upp fjölmargir aðilar sem haft hefur verið haft samband við en lítið um gögn því til staðfestingar.
Með því að mæta á þingpalla viljum við minna ríkisstjórnina á að við munum ekki linna látunum fyrr en stjórnvöld axla þá ábyrgð að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að upplýst verði um afdrif Hauks, sem íslensks ríkisborgara. Stjórnvöldum ber skylda til þess að rannsaka mannshvörf og voveifleg mannslát og má þá einu gilda hvaða álit stjórnvöld hafa á pólitískum skoðunum þess manns sem saknað er. Ef vangeta stjórnvalda til þess að komast að afdrifum vinar okkar er alger, er það minnsta sem þau geta gert að greiða fyrir því að einhver úr okkar hópi komist sjálf til Afrín til að leita hans.
Vinir Hauks
Athugasemdir