Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Vinstri grænna, voru einu stjórnarliðarnir sem studdu vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar gegn Sigríði Andersen dómsmálaráðherra. Ráðherra stóð af sér vantrauststillöguna sem var felld með 33 atkvæðum gegn 29, en einn þingmaður sat hjá.
„Sumir vilja meina að siðferði og rétt breytni skipti litlu máli í stjórnmálum. Ég er ósammála því. Þessi afstaða mín var ein af ástæðum þess að ég studdi ekki stjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks þegar til þess var stofnað,“ sagði Andrés Ingi þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu.
„Á þeim tíma taldi ég að nóg væri af dæmum um mál sem sýndu að ekki væri hægt að treysta samstarfsflokkunum. Það var sérstaklega framganga Sjálfstæðisflokksins í málum sem tengdust uppreist æru, harðnandi afstaða flokksins í útlendingamálum og loks skipan dómara í Landsrétt.“
Hann sagði Sigríði Andersen hafa sýnt að hún væri ekki traustsins verð. „Vinnubrögðin sæma ekki ráðherra og almenningur getur ekki treyst því að vandað sé til verka til að tryggja óháða dómstóla. Mín afstaða er einföld. Ég styð ekki áframhaldandi setu dómsmálaráðherra í ríkisstjórn. Ég segi já.“
Rósa Björk gagnrýndi Sigríði Andersen dómsmálaráðherra hafa veitt skipun nýrra dómara við Landsrétt í farveg tortryggni og vantrausts.
„Það blasir við öllum. Líka æðsta dómstigi Íslands, Hæstarétti sem staðfestir þetta með skýrum hætti í dómi sínum um skipunina í desember,“ sagði hún.
„Traust á stjórnvöldum vinnst ekki með því að stofna starfshópa. Traust til stjórnvalda er áunniðmeð sanngirni, virðingu og heiðarlegum vinnubrögðum, ekki vinnubrögðum sem veikja dómskerfið eða réttarkerfið í heild sinni og vekja athygli á alþjóðavísu eða kosta okkur formúu úr sameiginlegum sjóðum. Traustið verður að vinnast með verkum en ekki slælegum embættisfærslum sem enginn ber pólitíska ábyrgð á. Hér verður ráðherra dómsmála í landinu að bera pólitíska ábyrgð á sínum embættisverkum.“ Rósa Björk sagðist styðja vantrauststillöguna, því hún vildi ekki fúin og trénuð vinnubrögð, heldur ný og betri vinnubrögð.
Athugasemdir