Ung vinstri græn styðja vantrauststillögu þingmanna Samfylkingar og Pírata á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og hvetja þingmenn Vinstri grænna til að kjósa með henni. Þetta kemur fram í færslu á Facebook síðu félagsins í kvöld.
„Það er ótækt að Sigríður skuli gegna embætti dómsmálaráðherra eftir að hafa brotið lög um skipun dómara í Landsrétt, þar sem hún íhlutaðist í lista valnefndar án þess að hafa haldbæran rökstuðning til,“ segir í tilkynningunni. „Dómsmálaráðherra braut lög sem eiga að koma í veg fyrir að spilling ráði för við skipan dómara. Það er ólíðandi að vinnubrögð af hendi ráðamanns í lýðræðissamfélagi sem bera vott um spillingu hafi engar afleiðingar í för með sér þrátt fyrir dómsúrskurð um að vinnubrögðin hafi brotið í bága við lög. Ef slík lög hafa engin áhrif, er íslenska dómskerfið ekki í stakk búið til þess að taka á spillingu.“
Að minnsta kosti fjórir þingmenn VG, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir, hafa lýst yfir trausti á dómsmálaráðherra. Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í desember að hún hafi brotið lög við skipun dómara við Landsrétt.
„Í ljósi þess er eðlileg krafa að Sigríður Á. Andersen víki af þingi og að skipaður verði nýr dómsmálaráðherra,“ segir að lokum. „Það er einnig mikilvægur liður í því að auka traust almennings á Alþingi. Vinstri græn hafa ávallt tekið afstöðu gegn vinnubrögðum sem þessum og því hvetjum við þingmenn VG sem og aðra þingmenn til þess að standa með sinni sannfæringu, taka afstöðu gegn spillingu og styðja vantrauststillöguna.“
Athugasemdir