Þingmennirnir okkar eru einhverjir dýrustu stjórnmálamenn í heimi þegar bara er horft á þingfararkaupið og það borið saman við þjóðþing í öðrum löndum. Launin þeirra hækkuðu um 45 prósent fyrir nokkru síðan, það þótti nokkur ofrausn, en þegar pólitísk nefnd hefur nú ákveðið að hækkunin skuli standa óbreytt geta allir andað léttar.
En þetta er nú bara þingfararkaupið.
Alþingi kallar reglulega eftir því að Ríkisendurskoðun fari í saumana á ríkisstofnunum eða stofnunum sem starfa fyrir opinber framlög. Skýrslurnar eru ræddar í þingsal og þingmenn troðast hver um annan þveran til að ræða með þjósti ýmiss konar bruðl, til að mynda bótasvik öryrkja.
Ríkisendurskoðun skoðar ekki reikninga Alþingis. Hún er undirstofnun þess. Það er Pricewaterhousecoopers sem endurskoðar þingið og þær upplýsingar eru algert trúnaðarmál og koma bara fyrir sjónir forsætisnefndar og æðstu embættismanna þingsins.
Engin úttekt á meðferð fjármuna
En hvorki forsætisnefnd Alþingis né skrifstofa Alþingis hefur óskað eftir úttekt á meðferð opinberra fjármuna á Alþingi og skattfrjálsum fríðindum sem þingmenn njóta, hvað þá að gera slíkar upplýsingar opinberar. Í ljósi nýjustu upplýsinga er þó ekki vanþörf á því.
Í kjölfar háværrar umræðu um bílastyrki þingmanna hefur forsætisnefndin þó ákveðið að bregðast við gagnrýni. Við sem borgum reikninginn eigum að fá að sjá aukagreiðslur til þingmanna en aðeins frá 1. janúar. Við eigum ekki að fá að vita hverjir misfóru með opinbert fé í skjóli leyndar fram að þeim tíma og varla verður um neina rannsókn á því að ræða hvort athæfið geti talist saknæmt eða ekki, þótt rökstuddur grunur geti verið um slíkt. Þingmenn fá hins vegar tækifæri til að bæta ráð sitt sem er talsvert betri þjónusta en aðrir meintir brotamenn fá.
En hverjir borga reikninginn?
Ræstingafólkið á Alþingi
Ef við höldum okkur við vinnustaðinn Alþingi, þá starfar þar alls konar fólk. Þar eru til dæmis sex ræstingakonur, allar af erlendu bergi brotnar. Og einn íslenskur ræstingastjóri. Það er kannski bara þakkarvert. Það kom til álita að reka þær allar og bjóða reksturinn út fyrir nokkrum árum. Stjórnarráðið setti göfugt fordæmi og losaði sig við allar skúringakonurnar á einu bretti, til að geta boðið skúringarnar út, greitt þannig lægri laun, og sparað peninga. En skúringakonurnar á Alþingi héldu störfum sínum og eru betur launaðar en almennt gengur og gerist í skúringabransanum. Launin eru samt ekkert há. Fyrir fulla vinnu á vöktum fá þær kannski svona 260 þúsund í vasann eftir að skatturinn hefur tekið sitt, lífeyrissjóðurinn og verkalýðsfélagið.
Þær munar örugglega talsvert um skattinn en samanlagðar skattgreiðslur þeirra allra dygðu þó ekki til að greiða mánaðarlegan skattfrjálsan bílastyrk þess þingmanns sem mest ekur. Af því hann á heima á Suðurnesjum. Þær fá ekki bílastyrk til að fara til og frá vinnu, ekki einu sinni strætókort. Og þær fá ekki 190 þúsund í skattfrjálsan mánaðarlegan húsnæðisstyrk frá Alþingi eins og landsbyggðarþingmennirnir, þótt þær komi langt að, jafnvel frá Póllandi eða Moldavíu eða einhverju öðru Evrópulandi.
Borga skatt en njóta ekki þjónustunnar
En eiga þingmenn ekki að vera á góðum kjörum? Þeir setja jú lögin og bera mikla ábyrgð? Lögin sem gera það til að mynda að verkum að sumar útlendu ræstingakvennanna í samfélaginu greiða hér fullan skatt til samfélagsins en njóta ekki góðs af heilbrigðiskerfinu eða bótakerfinu á sama hátt og við hin. Þær þora jafnvel ekki að leita hjálpar hjá félagsþjónustunni ef eitthvað kemur upp á, því þá geta þær ekki fengið ríkisborgararétt. Þetta eru girðingar sem þingmenn hafa komið sér saman um að þurfi að rísa til að útlendingar, sem hingað koma til að vinna, sligi ekki samfélagið.
Og það má velta fyrir sér hvað margar skúringakonur þessa lands þurfa að greiða skatta svo þingmenn geti talað ókeypis í síma, flogið í flugvélum, búið á lúxushótelum, fyrir utan þær 80 þúsund kónur sem þeir fá til að mæta föstum starfskostnaði. Já eða bara þingverðir eða ræðuritarar á Alþingi.
Siðanefndin kemur aldrei saman
Við sem borgum reikninginn fyrir þingmennina erum semsagt bara alls konar fólk. Stundum erum við aflögufær og stundum ekki. Þingmenn eiga að njóta góðra kjara en ekkert umfram það. Þeir mega ekki gleyma því að skattarnir okkar eiga að fara í að reka hér samfélag fyrir alla.
Það hvarflar stundum að manni að það væri ódýrara að setja bara hjól undir Alþingishúsið. Þá geta þingmenn verið á ferðinni alla daga, enda gríðarleg eftirspurn eftir þeim í afskekktum byggðarlögum, ef marka má upphæðirnar sem við greiðum í bílastyrki.
En það er dónalegt að einblína svona á hvaðan peningarnir koma sem stjórnmálamenn moka í vasana í skjóli leyndra og óljósra reglna sem þeir settu sjálfir. Það er einelti. Við skulum þess vegna einblína á siðareglurnar sem þingið setti sér. Það var ekki fyrr en eftir mikinn þrýsting að slíkar reglur voru settar. Siðfræðistofnun háskólans lagði mikla áherslu á að þingmenn myndu semja þær sjálfir. Það fór þó þannig að módelið var sótt til Brussel, þýtt og staðfært. Og siðanefndin? Hún átti upphaflega að verða mun sjálfstæðari, síðan var ákveðið að hún þyrfti ekkert að gera nema forsætisnefnd kallaði hana til. Nefndarmenn fengu skipunarbréf og síðan ekki söguna meir. Nefndin hefur aldrei verið kölluð saman. Líklega eru nefndarmenn búnir að gleyma því að þeir séu í siðanefnd Alþingis. Það var haldinn blaðamannafundur til að kynna siðareglur til að auka gagnsæi um störf alþingismanna, eins og segir í fréttatilkynningu. En það er hins vegar alger óþarfi að siðanefndin fari síðan að brjóta heilann um það hvort það sé verið að fylgja siðareglunum.
Það er því öruggast að hún haldi aldrei fund.
Athugasemdir