Bandarískur sendiráðsfulltrúi lýsti áhyggjum af meðferð íslenskra stjórnvalda á Sævari Marínó Ciesielski á fundi með Einari Ágústssyni, þáverandi utanríkisráðherra Íslands, þann 22. júlí 1976. Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi fylgdist grannt með framvindunni í Guðmundar- og Geirfinnsmálum í ljósi þess að faðir Sævars Ciesielskis var Bandaríkjamaður; en það sem meira er, Henry Kissinger, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, veitti málinu sérstaka athygli og óskaði eftir ítarupplýsingum um Sævar og Guðmundar- og Geirfinnsmál frá bandaríska sendiráðinu. „Hvað er það að mati sendiráðsins sem gerir þetta mál svona pólitískt viðkvæmt?“ spyr Kissinger í pósti til sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi þann 15. júlí 1976 meðan Sævar sat í gæsluvarðhaldi.
Þetta kemur fram í gögnum frá bandaríska utanríkisráðuneytinu sem börn Sævars Ciesielski hafa fengið aðgang að á grundvelli bandarískra upplýsingalaga og deilt með Stundinni. Bréfaskipti milli utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi sýna meðal annars að fulltrúar Bandaríkjanna töldu að Sævari Ciesielski væri haldið í jafn langri og kirfilegri einangrunarvist og raun ber vitni vegna þess að Guðmundar- og Geirfinnsmál væru pólitískt viðkvæm á Íslandi. Fram kemur að fulltrúar bandaríska sendiráðsins hafi lýst undrun sinni á því við íslensk stjórnvöld að „á Íslandi þyrftu menn að sæta meðferð sem hvergi tíðkaðist nema í löndum sem ekki búa við vestrænar hefðir á sviði laga og réttar“.
Kissinger bað um ítarlegri upplýsingar
Þann 30. janúar 1976 skrifaði Vilmundur Gylfason, þá menntaskólakennari og blaðamaður, grein í Vísi þar sem hann sakaði Ólaf Jóhannesson, dómsmálaráðherra og formann Framsóknarflokksins, um að hafa haft óeðlileg afskipti af rannsókn Geirfinnsmálsins. Voru uppi kenningar um að eigendur og starfsmenn veitingahússins Klúbbsins tengdust hvarfi Geirfinns í tengslum við smygl á spíra, og að þeir nytu verndar Framsóknarflokksins vegna styrkveitinga til flokksins.
Vikið er að þessum ásökunum í bréfi sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi til bandaríska utanríkisráðuneytisins þann 7. júlí 1976. „Þetta umfangsmikla mál er viðkvæmt á Íslandi vegna pólitískra afleiðinga þess, en því hefur verið haldið fram í dagblaði að dómsmálaráðuneytið (og jafnvel dómsmálaráðherra sjálfur) hafi hylmt yfir misgjörðir styrktaraðila flokksins,“ segir í bréfinu.
Athugasemdir