Þegar fulltrúi yfirsakadómara lét handtaka Einar Bollason, Magnús Leópoldsson og Valdimar Olsen klukkan sex að morgni mánudagsins 26. janúar 1976 lágu einungis tylliástæður þar að baki og að því er Valdimar Olsen varðaði hafði óljós ásökun á hendur honum verið dregin til baka. Til þeirrar handtöku hafði lögreglan sem sagt alls enga gilda ástæðu.
Eins og rakið er í bókinni „Sá sem flýr undan dýri“ virðist rannsóknarlögreglan hafa lagt trúnað á kjaftasögur, sem á þessum tíma gengu um hvarf Geirfinns Einarssonar. Ein þessara sagna er til skjalfest í nokkrum lögregluskýrslum frá haustinu 1975, en hún gekk út á að Geirfinnur hefði farist við að kafa eftir smygluðum spíra. Samkvæmt kjaftasögunni áttu það að vera Sigurbjörn Eiríksson, veitingamaður í Klúbbnum, og menn honum tengdir, sem stóðu að smyglinu.
Skorti ástæðu til að handtaka menn
Fulltrúi yfirsakadómara og tveir rannsóknarlögreglumenn höfðu mikinn áhuga á því að ná Sigurbirni og Magnúsi Leópoldssyni, framkvæmdastjóra Klúbbsins, í hús til að skapa sér þannig aðstöðu til að ná fram játningum. En til handtöku höfðu þeir ekki eina einustu haldbæra ástæðu. Á grundvelli þess sem nú er vitað, má nokkurn veginn fullyrða að þeir gripu til þess óyndisúrræðis að blekkja og þvinga Erlu Bolladóttur, Sævar Ciesielski og Kristján Viðar Viðarsson til að hjálpa sér að koma höndum yfir þessa stórhættulegu menn.
Þeim tókst að fá Erlu, Sævar og Kristján til að skrifa undir skýrslur um að þau hefðu sjálf farið í hina örlagaríku ferð til Keflavíkur til að sækja spírann ásamt stórglæpamönnunum. Þannig var hægt að skapa tylliástæðu til að handtaka mennina og þessir þremenningar höfðu góða reynslu af langvarandi gæsluvarðhaldi til að losa um málbeinið og ýta undir „sannleiksást“ fanga.
Erla var yfirheyrð óformlega þann 21. janúar, en fyrsta skýrslan í málinu var tekin af Sævari daginn eftir. Daginn þar á eftir, 23. janúar var tekin skýrsla af Erlu og Kristján var líka yfirheyrður seinna um daginn. Ný skýrsla var svo tekin af Sævari sunnudaginn 25. janúar.
Skelfilega lélegt samræmi
Þessar fjórar lögregluskýrslur voru í rauninni það eina sem rannsóknarlögreglumennirnir og fulltrúi yfirsakadómara höfðu í höndunum, þegar þeir ákváðu að handtaka þrjá menn, en sú ákvörðun var tekin þennan sunnudag. Það verður hins vegar að segjast eins og er að þessi undirstaða var afar veikburða.
Þeim Erlu, Sævari og Kristjáni bar nefnilega mjög illa saman um þessa Keflavíkurferð. Það er meira en skiljanlegt í ljósi þess sem nú er vitað. Þau höfðu nefnilega aldrei farið í þessa ferð. Að vísu hafði tekist að fá þau til að nefna fáein nöfn, en frásagnirnar voru svo gerólíkar að það var ógerlegt að ímynda sér að þau væru að lýsa sömu ferðinni.
Þetta létu þeir Örn Höskuldsson, Eggert Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson sér í léttu rúmi liggja. Á þessu stigi varðaði þá ekkert um samræmi. Þeir vildu bara fá fram nöfn, að líkindum fyrst og fremst nöfn Sigurbjörns Eiríkssonar og Magnúsar Leópoldssonar, til að geta handtekið þá. Þeir virðast hreinlega hafa verið svo sannfærðir um sannleiksgildi kjaftasögunnar að þeir hikuðu ekki við að láta tilganginn helga meðalið.
Nauðsynlegar peðsfórnir
Fyrsta skrefið í þessum blekkingarleik var að hræða Erlu með símhringingum og telja henni og Sævari trú um að líf hennar væri í hættu meðan stórglæpamennirnir gengu lausir. Gallinn var hins vegar sá að þegar gengið var á Erlu og hún spurð hvaða menn hún gæti mögulega haft ástæðu til að óttast, virðist hún ekki hafa álitið að nokkrum manni gæti verið illa við sig, nema hugsanlega Einari bróður sínum. Þau hálfsystkinin höfðu átt í verulega stirðum samskiptum og um það var Sævari að sjálfsögðu kunnugt.
Þessir þrír starfsmenn sakadóms voru staðráðnir í að leysa Geirfinnsmálið á grundvelli kjaftasögunnar og virðast hafa ályktað að einfaldast væri að stinga Einari inn í pakkann og reyna síðan að fá „vitnin“ til að bæta við réttum nöfnum. Þeir hafa litið á Einar sem peðsfórn í samhenginu.
Annað peð birtist svo í frásögn Sævars í fyrstu skýrslunni þann 22. janúar, en þá sagðist hann hafa verið kallaður inn í bíl til þeirra Einars Bollasonar, Magnúsar Leopoldssonar og Geirfinns Einarssonar og þeir spurt sig hvort hann gæti tekið að sér að selja smyglaðan spíra. Sævar sagðist svo hafa farið í bílferð til Keflavíkur nokkrum dögum síðar með Einari, Magnúsi og Valdimar Olsen. Það var í þeirri ferð sem Geirfinnur Einarsson drukknaði í bátsferð.
Valdimar skipt út fyrir Kristján
Í þessum þremur fyrstu skýrslum nefndu Sævar, Erla og Kristján öll Einar Bollason. Sævar og Erla nefndu líka Magnús Leópoldsson, en Kristján mundi nánast ekkert eftir ferðinni og þótt hann nefndi Einar, auk Sævars og Erlu, var framburður hans vægast sagt bæði óljós og óburðugur.
En sunnudaginn 25. janúar var Sævar yfirheyrður aftur. Hann var nú aftur látinn segja frá bílferðinni til Keflavíkur og sagði nú að auk Erlu hefðu Einar Bollason og Magnús Leópoldsson verið í bílnum, en ekki Valdimar. Það tók Sævar skýrt fram. Í stað Valdimars setti hann nú vin sinn, Kristján Viðar. Við skulum kíkja beint í lögregluskýrsluna:
„Þegar ég var svo sóttur heim að Grýtubakka skömmu síðar, þá var Erla í bifreið þeirri sem sótti mig. Í henni voru einnig, þeir Einar og Magnús, en ekki Valdimar Ólsen, eins og ég sagði áður. Í stað Valdimars, þá var Kristján Viðar Viðarsson í bifreiðinni.“
Grundvöllur handtöku?
Sævar dró þarna afar skýrt til baka þá fullyrðingu sína að Valdimar Olsen hefði verið með í för. Síðar í skýrslunni kemur þó fram að Valdimar hafi verið staddur í Keflavík þetta kvöld, en farið með öðrum bíl. En Sævar hafði þó ekki séð hann sjálfur, heldur kvaðst hafa þetta eftir Erlu og í því getur ekki talist vera fólgin nein marktæk fullyrðing af hans hálfu.
Sjálf hafði Erla ekki nefnt Valdimar í þessu sambandi og gerði raunar aldrei nema mjög óljóst. En til að hafa ástæðu til að handtaka Valdimar á þessu stigi, hefði þó verið bráðnauðsynlegt að hafa nafn hans beint frá Erlu.
Svona var sem sagt staðan, síðdegis á sunnudegi. Samkvæmt undirrituðum skýrslum höfðu bæði Sævar og Erla fullyrt að Einar Bollason og Magnús Leópoldsson hefðu verið í Dráttarbrautinni í Keflavík þetta örlagaríka kvöld. Til viðbótar hafði Kristján Viðar nefnt Einar, en þó fremur óljóst.
Einungis Sævar hafði nefnt Valdimar á nafn, en dregið þann framburð til baka einmitt þennan sama sunnudag. Lögmætur grundvöllur til að handtaka Valdimar, hlýtur í allra besta falli að hafa verið afar hæpinn og að úrskurða hann í 30 daga gæsluvarðhald án frekari málalenginga getur hreinlega ekki með nokkru móti hafa verið lögmætt.
Og hvaða máli skiptir þetta?
Þótt dómstóll kæmist nú að þeirri augljósu niðurstöðu að handtaka Valdimars hafi verið ólögmæt og gæsluvarðhaldsúrskurðurinn beinlínis saknæm misbeiting valds, er málið auðvitað löngu fyrnt. Þremenningarnir sem að þessu stóðu verða ekki dæmdir héðan af.
Þetta skiptir samt máli í nútímanum. Endurupptökunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Geirfinnsmálið skuli tekið upp aftur. En jafnframt hafnaði nefndin endurupptöku ákæruliðarins um rangar sakargiftir. Dómarnir um rangar sakargiftir byggðust á því að Sævar, Erla og Kristján hefðu að eigin frumkvæði sakað fjóra um menn um að hafa verið í Dráttarbrautinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf og jafnvel átt þátt í dauða hans. Þetta áttu meira að segja að hafa verið samantekin ráð.
Í nýlegum pistli fjallaði ég um þá staðreynd að Erla bar aldrei beinar sakir á Valdimar Olsen. Hér bætist það við, að Valdimar var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald án haldbærrar ástæðu. Hvort tveggja gefur fullt tilefni til að taka vinnubrögð lögreglunnar til nýrrar skoðunar.
Í nýlegum Kastljósþætti var greint frá þeirri dómsniðurstöðu Hæstaréttar að lögreglan hefði brotið gegn Guðmundi Rúnari Guðlaugssyni „með ólögmætum og saknæmum hætti“, bæði við handtöku hans og í gæsluvarðhaldi í framhaldinu. Þetta sýnir okkur að 40 árum eftir GG-málin er lögreglan enn við sama heygarðshornið og vílar ekki fyrir sér að brjóta lög. Fyrir því virðist einfaldlega vera gömul hefð.
Varðandi handtöku Valdimars Olsen sjáum við mjög „einbeittan brotavilja“ þriggja starfsmanna Sakadóms Reykjavíkur. Það voru þeir sem áttu frumkvæðið og víluðu ekki fyrir sér að láta blásaklausa menn rotna í gæsluvarðhaldi mánuðum saman vegna þess eins að kjaftasögur hljómuðu trúlega í eyrum þeirra.
Athugasemdir