Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forseti Alþingis, mun starfa sem aðstoðarmaður forsætisráðherra frá og með 1. apríl næstkomandi og gegna hlutverki verkefnisstjóra við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Tilkynnt var um ráðninguna fyrir helgi og haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að það væri „mikill akkur í því að fá reynslumikinn lögfræðing með bakgrunn úr stjórnmálum, sem þar að auki nýtur trausts þvert á flokka og í samfélaginu, til að stýra þessu vandasama verkefni næstu árin“.
Unnur Brá var þingkona Sjálfstæðisflokksins á tímabilinu 2009 til 2017, þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti af stað vinnu við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og kallaði almenning til þátttöku á Þjóðfundi og í kosningum til stjórnlagaþings auk þess sem boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni.
Unnur Brá sat hjá þegar greidd voru atkvæði um frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Síðar greiddi hún atkvæði gegn þingsályktunartillögunni um skipun stjórnlagaráðs og þingsályktunartillögunni um að fram færi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur ráðsins.
Í umræðum um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu á Alþingi þann 27. mars 2012 sagði Unnur Brá að hún væri „ekki á móti því í sjálfu sér að yfirfara stjórnarskrána og breyta henni“ en að hún teldi að þær breytingar ættu að byggja á gömlu stjórnarskránni. „Ég tel ekki ástæðu til að umbylta stjórnarskránni. Ég tel ekki þörf á því, en ég tel hins vegar nauðsynlegt og mjög mikilvægt að við förum yfir hana og gerum breytingar á nokkrum ákvæðum.“
Þann 16. maí 2012 sagði hún svo: „Ég lýsti því í þingræðu minni að ég hefði persónulega miklar efasemdir um að þörf væri á viðamiklum breytingum á stjórnarskránni og er frekar íhaldssöm þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni, en auðvitað tel ég rétt að þingheimur ræði með hvaða hætti og hvaða ákvæðum sé rétt að ráðast í breytingar.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti þann 22. janúar síðastliðinn hugmyndir sínar um fyrirkomulag þeirrar stjórnarskrárvinnu sem framundan er. Lagt er upp með að stjórnarskráin verði endurskoðuð í áföngum á tveimur kjörtímabilum.
„Verkefnisstjórinn hefur heildaryfirsýn yfir verkefnið og tengir saman helstu aðila sem að því koma. Hann er málsvari verkefnisins og leitast við að tryggja skilvirkan framgang þess,“ segir á vef forsætisráðuneytisins. „Hann starfar í umboði forsætisráðherra, er tengiliður milli ráðherra og sérfræðinganefndar og nýtur aðstoðar skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu.“
Í tilkynningunni á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að Unnur Brá verði „aðstoðarmaður ríkisstjórnar, sbr. 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands“. Samkvæmt ákvæðinu sem vísað er til heyra pólitískir aðstoðarmenn beint undir ráðherra og gegna störfum svo lengi sem ráðherra ákveður. Meginhlutverk aðstoðarmanna er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra. „Hún verður í 100% starfi sem verkefnisstjóri stjórnarskrárbreytinga með starfsaðstöðu í forsætisráðuneytinu,“ segir Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu í svari við fyrirspurn Stundarinnar. Laun aðstoðarmanna nema um 1,2 milljónum króna á mánuði.
Athugasemdir