Edward H. Hujbens, varaformaður Vinstri grænna, kennir kjósendum um að Sigríður Á. Andersen sé enn dómsmálaráðherra og telur að gerð sé óviðeigandi krafa til Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna í umræðum um stöðu ráðherra. „Nú er krafa uppi um að okkar forsætisráðherra beiti sér eins og einhver einræðisherra og ráði og reki ráðherra, eins og kallað er eftir hverju sinni. Sem betur fer virkar okkar stjórnskipan ekki alveg þannig,“ sagði hann í ræðu sinni á flokksráðsfundi VG í dag.
Varaformaðurinn tók fram að í kerfinu væru sérstök ferli fyrir mál eins og mál Sigríðar. Ráðherra sé sjálfur ábyrgur fyrir sér og sínum ákvörðunum, en ábyrgðin á því hverjir veljist í ráðherrastóla sé fyrst og fremst kjósenda sjálfra. „Þeir sem kjósa flokka og ráðherra á þing aftur og aftur, sem sannarlega hafa farið á svig við lög og reglur, hljóta að verða skoða hug sinn vandlega. Ég vil skila skömminni, skila henni til þeirra sem kusu, vitandi vits yfir okkur ráðherra sem aðeins virðist vilja fylgja eigin villuljósi.“
Ein af grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar er þingræðisreglan, en í henni felst að þeir einir geta orðið ráðherrar og haldið ráðherrastóli sem meirihluti þingsins vill styðja eða þola í embætti. Þannig starfa ráðherrar í pólitísku umboði meirihlutans á Alþingi og þeirra flokka sem skipa þennan meirihluta.
Í dag er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og leiðtogi ríkisstjórnarinnar á Íslandi. Eins og Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor útskýrir í grein sinni, Sjálfstæði ráðherra og þingræðisreglan, frá 2006 má segja að pólitísk ábyrgð á störfum framkvæmdarvaldsins, og störfum ráðherra, hvíli á ríkisstjórninni í heild þar sem forsætisráðherra gegnir forystuhlutverki. „Seta ráðherra í embætti er þannig afleiðing af setu ríkisstjórnarinnar og háð henni. Í samræmi við það er óumdeilt að formlega geti forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar vikið hverjum og einum ráðherra úr embætti,“ skrifar Gunnar.
Það er í þessu samhengi sem Katrín Jakobsdóttir hefur verið krafin svara um afstöðu sína til áframhaldandi setu Sigríðar Andersen í embætti. Varaformaður Vinstri grænna virðist hins vegar telja þessa nálgun óeðlilega og til marks um að litið sé á Katrínu sem einræðisherra. Það sjónarmið samræmist illa viðteknum skilningi á þingræðisfyrirkomulaginu í íslenskri stjórnskipan.
Athugasemdir