Íslenska er skemmtilegt tungumál þar sem mörg orð geyma aldagamla visku og þekkingu á samfélaginu. Orð eru eins og gróður sem sprettur upp úr jarðvegi samfélagsins og tengir líf og reynslu saman.
Ég lá andvaka í veikindum um helgina og hugsaði um orðið róttækni. Setti það í samhengi við kröfuna um róttækar breytingar í kjölfar hrunsins og grasrótarfélagsins Snarrót sem ég var eitt sinn hluti af. Þetta var félag róttæklinga sem vildu vera varanlegir í jarðveginum eins og snarrót sem er nánast ómögulegt að uppræta. Það var svolítið fyndið vegna þess að hlutverk róttæklinga er að tækla og fjarlægja kerfisrætur til að sá nýju í farveginn.
Svo fór ég að hugsa um orðin róttækni og uppræting í samhengi við þær væntingar um breytingar sem ég og margir aðrir höfðum í kjölfar hrunsins. Ljóst er við þá skoðun að fíflaræturnar voru með sanni ekki upprætnar né tókst róttæklingum í garðyrkjuskóla lífsins að ná upp arfanum enda er það eins og að reyna að ná lirfum af rifsberjarunnum með flísatöng að gera slíkt án undirbúnings.
Undirstöður umvafnar rótum
Eins ömurlegt og það er, þá dugar ekki grænsápa á alla óværu og því þarf að aflúsa, lifrahreinsa og arfauppræta með eitri áður en allt sölnar og deyr vegna ójafnvægis.
Þegar ég reyti arfa sem oft og tíðum er fallegur þá minnist ég snarrótarinnar. Róta djúpt ofan í jarðveginn til að ná minnstu ögnum því ef ég tek ekki upp sumar rætur í heild sinni, þá liggja þær í leyni og vefja þær sig um allt hitt. Í stóra samhenginu er mikilvægt að skilja og vita hvað og hvernig ber að huga að þessum garði okkar sem virðist vera ákaflega einsleitur, brimfullur af kredduarfa, hefðarótum og jarðvegsvampírum.
Einkenni í gömlum íslenskum görðum er að oft og tíðum þarf að fjarlægja eða fella risastór tré frá útveggjum. Talið er að það sé vegna þess að þegar þau voru gróðursett þá hafði sé sem gróðursetti þau ekki hugmyndaflug í að þessir runnar gætu vaxið svona hratt. Þá virðist almennt ekki hafa verið þekking á því að tré hafi rótarhaf sem smeygir sér ekki bara út í garð heldur vefur sér um undirstöðurnar, uns húsið var í hættu á að falla inn í sjálft sig.
Sami jarðvegurinn
Í kjölfar breytinga í heiminum, sem innibera hlýnun jarðar þá eru alls konar ný vandamál sem við þurfum að horfast í augu við. Sumt vex hraðar en annað og allur garðurinn er fullur af alls konar stökkbreytingum sem kalla á nýjar aðferðir sem eru enn ekki þekktar né orðnar að vana né er almennt víðtæk sátt um lausnir.
Í fölbleikri bók sem heitir „The Utopia of Rules“ er fjallað um kerfi, uppruna þeirra og tilraunir til að laga þau að nútímanum til að fá þau til að þjóna upprunalega tilgangi sínum. Við lestur bókarinnar komst ég nær því að skilja ástæðu þess að við höfum ekki náð betri árangri við að búa til nýja Ísland eftir hrun.
Þau hrikalegu mistök voru gerð, að hafist var handa við að endurreisa á grunni, í jarðvegi orsaka hrunsins. Íslandsgarðurinn, hinn nýi, var yfirfullur af meinsemdum sem eru á góðri leið að drepa fræin sem landsmenn sáðu á ögurstundu. Ég man enn óttann sem meginþorri landsmanna upplifði mánuðina eftir hrun. Áfallið sem Íslendingar urðu fyrir í hruninu var alger uppskerubrestur vegna áhættuhegðunar allra þeirra sem var treyst til að gæta heildarhagsmuna okkar allra. En þegar samfélög verða fyrir áföllum þá verður til skírleiki og mögnuð samstaða sem fjarar út þegar fjær áfallinu dregur.
Ekki var upprætt
Vegna þess að engu var breytt í grunninn og ekkert upprætt þá erum við aftur komin á sama stað og fyrir hrun. Litlar marktækar breytingar áttu sér stað. Kerfin eru öll nákvæmlega eins þó svo að sum hafi verið opnuð aðeins og fólk veit að það getur komið breytingum í gegn með samheldnu hugrekki og þrautseigju. Margir sjá þó ekki tilgang með því að reyta arfa, sá fræjum þegar ljóst er að kerfismoldin er enn hin sama og allt sem áður var gert virðist engu skila.
„Stundum þarf smá hugrekki til að uppræta það sem virkar ekki og prófa eitthvað nýtt.“
Ég minnist þess að í samfélaginu er til alls konar fólk sem kann og getur hannað garða, þar sem má sá nýjum fræjum í frjóan jarðveg án þess að þau kæfi gróðurinn sem næst þeim stendur, sem vita hvernig tré vaxa og hvað ber að varast. Stundum þarf smá hugrekki til að uppræta það sem virkar ekki og prófa eitthvað nýtt. Ekki allir sem vinna í garðinum þurfa né geta gert sömu verkin.
Í hruninu fundu margir hvata og þörf á að taka þátt í að breyta samfélagsgarðinum, heilu samfélög ókunnugra spruttu upp, þar sem meginmarkmið samræðunnar var að leita leiða til að fyrirbyggja annað hrun og vinna sameiginlega að lausnum. Það sem einkenndi þá vinnu var meðvitund um að maður uppsker eins og maður sáir og það er allt í lagi þó að sum fræ munu aldrei skjóta rótum eða spretta upp í annarri tímalínu. Sum fræ þurfa á daglegri alúð að halda, önnur sjá um sig sjálf. Þannig er lýðræðið eins og garður sem þarf alltaf á athygli okkar og vinnu að halda.
Rót óræktarinnar
Ástæða þess að lýðræðisgarðurinn er aftur kominn í órækt er kannski vegna þess að við treystum ekki sjálfum okkur til að vita hvernig ber að hlúa að honum og óttinn við að gera mistök er yfirþyrmandi tilfinning. Óttinn við að biðja um aðstoð er yfirþyrmandi þjóðareinkenni sem við verðum að læra að yfirstíga. Um leið og við áttum okkur á að lýðræðið er samofið tilveru okkar þá fer okkur að þykja vænt um það. Ef okkur finnst garðurinn glataður, þá þurfum við að nenna að gera eitthvað í því. Stundum er líka nauðsynlegt að þora að breyta okkur sjálfum og finna leiðir til að vinna saman að því sem okkur þykir þess virði að standa vörð um og berjast fyrir.
Sú sundrung og óeining sem einkennir allt og alla nú um stundir, mun ala af sér ákaflega veikburða rætur og óreiðumenn með snákatungur munu ná að selja ódýrar yfirborðslausnir, en staðreyndin er sú að allt líf kallar á framsýni og þróun og ekkert nýtt sprettur úr engu.
Athugasemdir