Einn virtasti tónlistarmaður landsins, Tómas Magnús Tómass, bassaleikari Stuðmanna, Þursaflokksins og fleiri hljómsveita, er fallinn frá.
Meðal þeirra sem kveðja Tómas eru Valgeir Guðjónsson stuðmaður. „Í dag var óvenjulegur dagur - á árvissu afmæli mínu fékk ég fregnina um að Tómas Magnús Tómasson aldavinur minn og félagi hefði kvatt þessa okkar skömmu jarðvist. Ég syrgi hanni og kveð með virktum - einstakur öðlingur til orðs og æðis, Á 66 ára afmælisdegi sé ég á bak förunauti í hálfa öld og mun sakna hans allar götur.“
Þá kveður Björgvin Halldórsson hann með orðunum: „Vinur minn og samstarfsmaður til margra ára Tómas Magnús Tómasson er fallinn frá. Þetta er sorgarfregn sem erfitt er að meðtaka. Hann var með eindæmum skemmtilegur og orðheppinn og afbrags tónlistarmaður. Ég geymi margar minningarnar um Tomma og sérstaklega okkar tíma í Englandi þegar við bjuggum saman í Dartford og þegar við unnum að Vísnaplötunum góðu. Guð blessi minningu Tomma...Hvíl í friði vinur.“
Tómas glímdi við krabbamein og lést á líknardeild.
Tómas var bæði bassaleikari, hljóðfæraleikari, tónlistarmaður og upptökustjóri. Hann fæddist 23. maí 1954 og var því 63 ára þegar hann lést. Að auki átti Tómas til að taka hljóðnemann og syngja. Frægasti flutningur hans á því sviði er pönkútgáfa hans af laginu Jón var kræfur karl og hraustur.
Athugasemdir