Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vísar til mála sem komu upp á kjörtímabili vinstristjórnarinnar en leiddu ekki til afsagnar ráðherra til að réttlæta áframhaldandi setu Sigríðar Andersen á ráðherrastóli.
Í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi í gær var Katrín innt eftir afstöðu sinni til stöðu dómsmálaráðherra. Var þá sérstaklega vísað til nýrra upplýsinga sem Stundin birti í gær og sýndu hvernig ráðherra hunsaði lögfræðiráðgjöf sérfræðinga við undirbúning tillögu sinnar um skipun Landsréttardómara til Alþingis.
„Það er alveg rétt að við höfum séð ráðherra fá á sig dóma. Hæstvirtan dómsmálaráðherra núna. Við höfum séð ráðherra fá á sig dóma vegna brota á jafnréttislögum, við höfum séð ráðherra fá á sig dóma vegna brota á skipulagslögum og svo mætti áfram telja,“ sagði Katrín.
„Hvernig axla ráðherrar ábyrgð? Jah, þau dæmi sem ég nefndi hér áðan þau leiddu ekki til afsagnar ráðherrar og ég hef sjálf, hvorki sem stjórnarandstöðuþingmaður né sem ráðherra í ríkisstjórn, kallað sérstaklega eftir afsögnum ráðherra af þessum tilefnum. Hins vegar kalla ég eftir því að slíkir dómar séu teknir alvarlega og við förum yfir það á vettvangi þingsins og framkvæmdarvaldsins.“
Af ummælum Katrínar má ráða að henni finnist framganga og verklag Sigríðar Andersen í Landsréttarmálinu með einhverjum hætti sambærilegt við vandræðamál sem komu upp í tíð vinstristjórnarinnar.
Hún nefnir mál er vörðuðu brot ráðherra á skipulagslögum og jafnréttislögum, segist ekki hafa kallað eftir afsögnum ráðherra af þeim tilefnum og notar þetta sem réttlætingu fyrir því að nú kalli hún ekki eftir afsögn Sigríðar Andersen í kjölfar lögbrota hennar við skipun Landsréttardómara síðasta sumar.
Dómstólar ógiltu ákvörðun Svandísar
Með orðum sínum um „dóma vegna brota á skipulagslögum“ má ætla að Katrín hafi verið að vísa til máls sem kom upp í umhverfisráðherratíð flokkssystur hennar, Svandísar Svavarsdóttur sem nú er heilbrigðisráðherra. Þá komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að með því að synja staðfestingu þess hluta aðalskipulags Flóahrepps sem varðaði Urriðafossvirkjun hefði Svandís ekki farið að lögum.
Forsaga málsins er sú að Flóahreppur og Landsvirkjun höfðu árið 2007 gert með sér samkomulag sem fól meðal annars í sér að Landsvirkjun skyldi kosta skipulagsgerð vegna fyrirhugaðrar virkjunar. „Ég taldi aðkomu Landsvirkjunar að skipulagi Flóahrepps ekki standast lög enda enga orðaða heimild að finna í lögunum,“ skrifaði Svandís í pistli þann 19. febrúar 2011 og benti á að áður hefði samgönguráðherra úrskurðað að tiltekin grein samnings um greiðslu fyrir skipulag væri ólögmæt.
„Þegar ég og ráðuneyti mitt stóðum frammi fyrir því að staðfesta skipulag Flóahrepps var byggt á sömu sjónarmiðum og umboðsmaður hafði nefnt enda einungis heimild í þágildandi lögum fyrir greiðslu framkvæmdaaðila við gerð deiliskipulags. Í ljósi þessarar forsögu átti niðurstaða mín ekki að koma neinum á óvart.“
Síðar staðfestu bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur að fyrirkomulagið um greiðslu Landsvirkjunar fyrir aðalskipulag Flóahrepps hefði staðist lög og því yrði synjun ráðherra ógilt.
Í máli Svandísar var ekki sýnt fram á að hún hefði hunsað lögfræðiráðgjöf í ráðuneyti sínu, né voru höfðuð skaðamál eða ríkið dæmt miskabótaskylt vegna vinnubragða ráðherrans. Hins vegar héldu Landsvirkjun og fulltrúar Flóahrepps því fram að með ákvörðun sinni hefði Svandís tafið atvinnuuppbyggingu á svæðinu og þannig óbeint valdið tjóni.
Dómar fyrir brot á jafnréttislögum?
Katrín Jakobsdóttir vísaði einnig til þess í þingræðu sinni í gær að ráðherrar hefðu fengið á sig „dóma vegna brota á jafnréttislögum“. Óljóst er til hvaða mála hún er þar að vísa.
Ögmundur Jónasson fyrrverandi innanríkisráðherra var staðinn að því að hafa brotið jafnréttislög samkvæmt útskurði kærunefndar jafnréttismála árið 2012 og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra árið 2017. Þeir voru hins vegar aldrei dæmdir fyrir brot á jafnréttislögum.
Það sama á til dæmis við um mál Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, þegar hann braut jafnréttislög að mati kærunefndar jafnréttismála með því að skipa ekki Hjördísi Hákonardóttur sem hæstaréttardómara árið 2003. Málið var leyst með samkomulagi við Hjördísi en ekki fyrir dómstólum.
Því hefur oft verið haldið fram að Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra hafi verið „dæmd fyrir brot á jafnréttislögum“ þegar Önnu Kristínu Ólafsdóttur voru dæmdar miskabætur í máli gegn forsætisráðuneytinu árið 2012 sem hún höfðaði eftir að kærunefnd jafnréttismála hafði komist að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði brotið jafnréttislög.
Í dómi héraðsdóms, sem ekki var áfrýjað til Hæstaréttar, var byggt á því að þar sem íslenska ríkið hefði ekki höfðað mál til að hnekkja úrskurði kærunefndarinnar yrði að leggja niðurstöðu nefndarinnar til grundvallar í málinu, enda væru úrskurðir kærunefndarinnar „bindandi gagnvart málsaðilum“. Dómurinn lagði hins vegar ekkert efnislegt mat á hvort jafnréttislög hefðu verið brotin við skipun í embættið.
Skaðabótakröfu Önnu Kristínar var hafnað en ríkinu gert að greiða henni 500 þúsund króna miskabætur vegna fréttatilkynningar forsætisráðuneytisins um málið þar sem farið hafði verið yfir matsferli ráðuneytisins og tekið fram að hún hefði lent í fimmta sæti yfir hæfustu umsækjendur.
Síðar komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að mat og aðferð kærunefndar jafnréttismála, sem lögð var til grundvallar niðurstöðu hennar í málinu, hefði ekki verið í samræmi við lögbundið hlutverk hennar samkvæmt jafnréttislögum. Jóhanna fékk aldrei á sig dóm fyrir brot á jafnréttislögum þótt því hafi ítrekað verið haldið fram af hálfu stjórnmálamanna og í fyrirsögnum fjölmiðla.
Eftir því sem Stundin kemst næst eru engin dæmi um að ráðherrar hafi verið dæmdir sekir um brot á jafnréttislögum frá því að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 öðluðust gildi né á þeim tíma sem Katrín Jakobsdóttir hefur átt sæti á Alþingi frá 2007, hvorki í tíð vinstristjórarinnar né hægristjórna.
Athugasemdir