Klukkan er korter yfir eitt um nótt og ég sit við borð sem er hannað fyrir miklu minni fullorðna manneskju, það er 25 stiga hiti og ég heyri í sjónum. Ég var að enda við að rifja upp að ég lofaði að lýsa þessari ferð í háskerpu, með lykkjuföllum og öllu. Í fullri hreinskilni: Fyrsta vikan var mjög erfið. Þegar við lögðum af stað í ferðalagið var ég alveg sannfærð um að krakkarnir yrðu vandamálið í fluginu og í flugþreytunni, ég sá fyrir mér að þramma um í vélinni með grátandi barn og velta því fyrir mér hver hafi eiginlega átt þessa hugmynd. Mér leist ekki á blikuna í byrjun þegar við vorum enn á íslenskri grundu en ég var strax komin með svitabletti eftir hamaganginn í öryggistékkinu góða. Leó reyndi að þjófstarta og fara með töskunum inn á færibandinu, Ylfa byrjaði í innritun að rukka mig um sleikjóinn sem hún sá mig lauma í handfarangurinn fyrir flugið til Singapúr. En síðan voru börnin eins og eftir pöntun þegar við komumst af stað, sofnuðu alltaf fimm mínútum eftir flugtak og steinsváfu eða voru stillt og glöð.
Það sem hins vegar var ekki til friðs var örþreytta taugakerfið mitt. Eftir mikið og margs konar álag undanfarnar vikur var greinilega lítið til á „slökum nú á“-lagernum í miðtaugakerfinu, en ég hefði einmitt þurft stærstu sendingu þaðan. Ég gat alls ekki róað mig almennilega í fluginu og leið illa. Ég lofaði sjálfri mér því að kaupa aldrei aftur miða fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem krefðist þess að við sætum kyrr í 11 klukkutíma með börnin í fanginu. Eftir að við lentum átti ég ennþá erfitt með að blanda réttu boðefnunum saman til að geta sofnað, og þegar ég sofnaði loksins á kvöldin vöknuðu krakkarnir oft stuttu síðar, eldhress klukkan fjögur um nótt í flugþreytunni. Þessa daga kom það sér virkilega vel að vera hreinlega í paradís á daginn og það skemmdi heldur ekki fyrir að klukkutíma heilnudd kostar tæpar þúsund íslenskar krónur hér. Svo erum við hjónin nú sérfræðingar í svefnleysi. En ég mæli sem sagt ekki með því að leggja örmagna af stað í langferð.
Við enduðum á því að reyna að snúa þessum nóttum upp í það besta sem þær gætu mögulega verið. Við hættum að reyna að svæfa, fengum okkur einn bjór og snakk, spjölluðum saman og fórum í leiki með krökkunum. Þetta furðulega tímabil leið síðan hjá á nokkrum dögum, en ég er eiginlega viss um að sumar af bestu minningunum okkar úr ferðinni verði frá þessum vökunóttum inni á hóteli þar sem allir voru að stikna á nærbuxunum klukkan eitthvað alveg fáránlegt að hlæja saman.
„Helsta áskorunin sem blasir við okkur á þessum sallarólegu fjölskyldudögum er að gíra niður.“
En það sem lífið er nú ljúft hérna! Ljós púðursandur og túrkísblár sjór, maður röltir kannski í nudd eða fótsnyrtingu (450 ISK) til skiptis við hitt foreldrið eða kaupir sér ávexti sem voru teknir af trénu áðan. Langir könnunarleiðangrar á strönd með hitabeltisgróðri og klettum, láta sig fljóta í sundlaug eða panta þvílíkan mat handa öllum á veitingastað og borga minna en eitt hamborgaratilboð kostar heima. Öll skilningarvit eru sneisafull af nýrri lykt, birtu, bragði, orðum, andlitum og hitastigi.
Veraldarkennslan gengur líka vel. Magnið af upplýsingum sem börnin eru búin að soga í sig er eiginlega ótrúlegt. Þegar ég segi kennsla meina ég auðvitað að það er veröldin sjálf sem sér um kennsluna, við búum bara til umhverfi þar sem auðvelt er að læra sjálfstætt með nægri örvun og athygli. Við erum ekki að ýta að þeim neinni ákveðinni þekkingu, en notum tækifæri sem bjóðast þegar þau þurfa og vilja vita meira. Þannig endaði ég til dæmis á því að teikna upp eggjastokka og útskýra frjósemiskerfi kvenna klukkan þrjú um nótt eftir síendurteknar spurningar frá flugþreyttu, forvitnu fjögurra ára barni. Hlynur Leó er að sjálfsögðu mikið í eðlisfræðinni og tjáningunni eins og öll eins árs börn, Ylfa æfir sig að skrifa orð í sandinn, leikur og skiptist á við börn sem hún á ekkert tungumál sameiginlegt með, lærir um af hverju tunglið snýr öðruvísi hér, um nýja siði og venjur og um atvinnugreinar sem eru ekki til á Íslandi (og hvers vegna þær eru það ekki).
Helsta áskorunin sem blasir við okkur á þessum sallarólegu fjölskyldudögum er að gíra niður. Það er erfitt að hætta að gera og bara vera. Ég er svo vön hraða að allur tími sem er ekki skipulagður virðist næstum tilgangslaus. Íslendingurinn í mér vill gjarnan að allt sé tengt afköstum, alltaf. En þannig er stemningin einmitt ekki hér, fólk svífur um í D-vítamínvímu og hefur akkúrat engin plön önnur en að drekka kókoshnetu með naflann út í loftið. Og ekki eru eyjarskeggjar nú mikið að stressa sig á hlutunum heldur, þó þeir hneppi reyndar alltaf að sér. Þannig að nú setjum við í hlutlausan og reynum að reyna ekki alveg svona mikið.
Athugasemdir