„Ég hef ekki sett mig upp á móti þéttingu byggðar, en engu að síður er það staðreynd að umferðin er svo mikil, að bara – og nú ætla ég að vera mjög persónuleg – bara frá því ég flutti inn í mars höfum við misst bæði hundinn okkar og köttinn okkar í Álmgerðinu þar sem var keyrt yfir þá,“ sagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi, í umræðum um samgöngumál á borgarstjórnarfundi í dag.
Talsvert hefur verið um hraðakstur í Álmgerði. Þegar lögreglan fylgdist með umferð á götunni eina klukkustund síðasta sumar ók meira en þriðjungur ökumanna yfir hámarkshraða. „Þarna fara börn yfir í skóla á hverjum einasta degi,“ sagði Sveinbjörg Birna í ræðu sinni.
Hún velti því upp hvort áhrif þéttingar byggðar á umferðarþunga í íbúðahverfum hefðu verið nægilega rannsökuð. „Við erum ekki búin að skoða hvort hægt sé að gera forgangsakreinar á Bústaðaveginum og það að þrenging Grensásvegarins hafði auðvitað mikið að segja um að fólk styttir sér leiðir í gegnum íbúðahverfi, sem er það sem við viljum allra síst,“ sagði hún. „Við getum ekki tryggt umferðaröryggi innan hverfanna. Þess vegna er þessi umræða sem við erum hér að fara í, herra borgarstjóri, og við borgarfulltrúar, hún er svo mikilvæg, vegna þess að það verður að leysa þennan umferðarþunga sem er að valda því að umferðin í hverfunum er að aukast.“
Sagði Sveinbjörg að ekki mætti líta framhjá tengslunum milli umferðarþunga og þéttingar byggðar. „Ég bý í Hlyngerði og það er mikil uppbygging að eiga sér stað á RÚV-reitnum. Það er verið að samþykkja núna að gera breytingar á húsnæði við Bústaðarveg. Bústaðarvegur er algjörlega stappaður frá klukkan 10:15 á morgnanna og fram yfir 21. Svo hvað gerir fólk, jú það styttir sér leið, alveg eins og það stytti sér leið hér áður fyrr á Háaleitisbrautinni gegnum Safamýrina þar til hámarkshraðinn þar var gerður 30 og það voru gerðar þrengingar þar. Allar þessar akreinar eru samt sem áður fullar af bílum á morgnana, í áttina niður í bæ. Og það er að fara fram uppbygging, við erum að auka húsnæði á Sogaveginum, þar er verið að byggja fjölbýlishús og það er verið að fara að byggja upp við Bústaðaveg ennþá fleiri íbúðir og svo mætti lengi telja.“ Í framhaldinu vék Sveinbjörg að ástandinu við Álmgerði þar sem mikið er um hraðakstur.
Athugasemdir