Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundar um stöðu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra og lögbrot hennar við skipun dómara við Landsrétt á fimmtudaginn.
„Viðfangsefni fundarins er málsmeðferð Sigríðar Andersen við skipun dómara og staða hennar sem ráðherra,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í samtali við Stundina.
„Hún gegnir auðvitað ráðherraembætti meðan hún er varin af meirihluta þings, en það er skylda nefndarinnar að fjalla um hennar stöðu, og jafnframt stöðu þingsins og aðkomu þess að skipun dómara almennt. Næstu skref miðast svo kannski dálítið við hvað kemur fram á þessum fundi.“
Á fundinn koma umboðsmaður Alþingis, yfirlögfræðingur Alþingis og jafnframt sérfræðingar í stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti.
Píratar hafa talað fyrir því að Sigríður Andersen segi af sér ráðherraembætti og gefið til kynna að ellegar verði lögð fram vantrauststillaga gegn henni.
Jón Þór Ólafsson, fulltrúi flokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, telur mikilvægt að allir þingmenn geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir treysti ráðherra til áframhaldandi starfa.
„Til að svo megi vera í þessu máli, þá þurfa upplýsingar um ákvarðanir og verklag ráðherra að liggja fyrir. Þess vegna hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kallað eftir tiltækum upplýsingum frá ráðuneytinu,“ segir hann.
Jón bendir á að þegar lögð er fram vantrauststillaga hafi þingið í raun aðeins þrjá daga þar til málið er tekið fyrir. „Þess vegna þarf undirbúningsvinnan að fara fram með meiri fyrirvara.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur gefið út að hún líti ekki á Landsréttarmálið sem afsagnarsök fyrir Sigríði Andersen. „Hún situr bara áfram í ríkisstjórn,“ sagði Katrín í sjónvarpsfréttum RÚV þann 19. desember og tók Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, í sama streng. „Hún er náttúrlega ráðherra í þessari ríkisstjórn áfram,“ sagði hann. Eftir því sem Stundin kemst næst hefur ekki komið til sérstaks ágreinings um stöðu Sigríðar Andersen meðal þingmanna og forystufólks Vinstri grænna.
Stundin spurði Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, formann þingflokksins, hvort hún væri samstíga Katrínu Jakobsdóttur hvað varðar stöðu Sigríðar Andersen. „Já, ég er það og það hefur ekkert breyst í sjálfu sér. Við vissum þegar við gengum inn í þetta samstarf að þetta gæti orðið niðurstaðan,“ sagði hún og bætti við: „Það er auðvitað ekki okkar að ákveða ráðherraval annarra flokka.“
Blaðamaður benti þá á að Sigríður gæti ekki setið á ráðherrastóli nema með stuðningi meirihluta þingsins, meðal annars þingmanna Vinstri grænna. „Vissulega, það er rétt,“ sagði Bjarkey.
Aðspurð hvort eining sé um málið innan þingflokksins svarar hún: „Þetta hefur ekki verið tekið sérstaklega fyrir innan þingflokksins, en þar eru eflaust skiptar skoðanir um málið. Okkur fannst viðeigandi að það yrði tekið fyrir á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en að öðru leyti hefur þetta ekki verið rætt neitt sérstaklega.“
Þessi grein er brot úr ítarlegri umfjöllun um ráðherraferil og embættisfærslur Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra sem birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Athugasemdir