Sinfóníuhljómsveit Íslands, stofnun í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar sem rekin er á fjárlögum, neitar að afnhenda Stundinni styrktarsamning sem hljómsveitin gerði við sjóðsstýringarfyrirtækið GAMMA árið 2016. Sá samningur var gerður þegar fyrri samningur frá 2012 rann úr gildi.
Samningurinn felur það í sér að GAMMA styrkir Sinfóníuhljómsveitina um 90 milljónir króna á árunum 2016 til 2020 eða um 22,5 milljónir á ári. Þessi upphæð nemur rétt tæplega 2,2 prósentum af þeirri upphæð sem Sinfóníuhljómsveit Íslands fær á fjárlögum frá íslenska ríkinu en árið 2018 nemur hún 1039,2 milljónum króna. Áætlaðar rekstrartekjur Sinfóníunnar, umfram ríkisframlagið, nema 442,1 milljón króna og er 22,5 milljóna króna styrkurinn frá GAMMA rúmlega 5 prósent af þeirri upphæð.
Mælir fyrir einkavæðingu og kaupir íbúðir
GAMMA er eignastýringar- og fjármálafyrirtæki sem rekur meira en 30 sjóði sem fjárfesta í alls kyns verkefnum á Íslandi, allt frá íbúðarhúsnæði til orkuverkefna og verkefna í ferðmannaiðnaði. Fyrirtækið er með um 115 milljarða króna í stýringu og er ógerningur að sjá hvaða aðilar standa á bak við fjárfestingarnar í einstaka sjóðum. Fyrirtækið hefur talað fyrir mikilvægi aukinnar einkavæðingar í íslensku samfélagi og sagði meðal annars „lógískt“ að selja bæði Landsvirkjun og Orkuveituna í skýrslu sem það gaf út í nóvember árið 2016.
GAMMA hefur auk þess verið gagnrýnt í gegnum árin vegna stórfelldra uppkaupa á íbúðarhúsnæði sem félagið framleigir svo áfram til almennings í gegnum leigufélög. Sjóðir GAMMA eiga nú ym 1500 íbúðir á suðvesturhorninu og heldur fyrirtækið áfram uppkaupum á íbúðarhúsnæði.
Nota nafn Sinfóníunnar í markaðssetningu
Fyrir þennan styrk getur GAMMA tengt nafn sitt við Sinfóníuhljómsveitina, þessa mikils metnu, virtu og óumdeildu ríkisstofnun, og notað þessi tengsl í markaðssetningu sinni. Til að mynda má nefna að á brottfarar- og komuganginum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er auglýsing frá GAMMA með mynd af tónlistarmönnum í Sinfóníuhljómsveit Íslands, auglýsing frá GAMMA með Sinfóníuhljómsveitinni var sýnd fyrir Áramótaskaupið á gamlárskvöld og á heimasíðu GAMMA er sérstök umfjöllun um Sinfóníuhljómsveit Íslands með myndbandi um hljómsveitina sem er merkt GAMMA. Víða tengir GAMMA nafn sitt því við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Athugasemdir