Fulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis leggjast gegn hækkun fjármagnstekjuskatts og fulltrúi Viðreisnar vill að hækkun skattsins verði frestað.
Í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar er lagt til að skatturinn hækki úr 20 prósentum upp í 22 prósent um áramótin, en slík hækkun mun samtals skila 2,6 milljörðum í ríkissjóð, þar af um 1,5 milljörðum frá tekjuhæstu 10 prósentum landsmanna.
Til fjármagnstekna einstaklinga teljast vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar, en fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna en almennar launatekjur á Íslandi og jafnframt miklu minna en tíðkast í flestum ríkjum OECD.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fulltrúi flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, telur að ef markmið ríkisstjórnarinnar sé að jafna skattbyrði óháð uppruna tekna sé réttara að lækka fjármagnstekjuskatt fremur en að hækka hann.
Réttara að lækka skattinn
„Þeir sem hafa lifibrauð af fjármagnstekjum greiða ekki aðeins fjármagnstekjuskatt. Sá sem greiðir sér laun af hagnaði eigin fyrirtækis, svo sem iðnaðarmaður með fyrirtæki utan um eigin rekstur, greiðir fyrst 20% tekjuskatt lögaðila og síðan 20% fjármagnstekjuskatt ofan á það, á arðgreiðslur til eiganda. Heildarskatthlutfallið verður því 36%. Hækkun fjármagnstekjuskatts upp í 22% þýðir að þetta hlutfall verður 37,6%,“ segir Sigmundur í nefndaráliti sínu um bandorminn svokallaða, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.
Sigmundur tekur dæmi af eldri borgara sem lifir af vöxtunum á 100 milljóna króna eign sinni.
„Í tilviki eldri borgara sem lifir á ævisparnaði fer endanlegt skatthlutfall eftir samspili vaxta og verðbólgu og raunverulegt skatthlutfall getur hæglega farið yfir 50%. Sá sem á 100 millj. kr. sparifé á 5% vöxtum í 3% verðbólgu hefur 2 millj. kr. í tekjur af höfuðstólnum þar sem 3 millj. kr. fara í að viðhalda virði höfuðstólsins vegna verðbólgu. Viðkomandi greiðir hins vegar 20% fjármagnstekjuskatt af 5 millj. kr., sem gerir 1 millj. kr. eða 50% af rauntekjum viðkomandi. Væri markmið ríkisstjórnarinnar raunverulega að jafna skattbyrði óháð uppruna tekna þyrfti að lækka, en ekki hækka, fjármagnstekjuskatt.“
„Flokkur fólksins andmælir hækkun fjármagnstekjuskatts“
Ólafur Ísleifsson, fulltrúi Flokks fólksins í fjárlaganefnd, leggst einnig gegn hækkun skattsins, meðal annars á þeim grundvelli að hann bitni á eldra fólki sem vill leigja út íbúðarhúsnæði.
„Hækkun fjármagnstekjuskatts snertir illa það fólk sem hefur fjármagnstekjur t.d. af leigu húsnæðis, auk þess sem slíkar tekjur koma til skerðingar á lífeyri. Núverandi reglur sem snúa að leigutekjum, hvernig þær skuli metnar og áhrif þeirra á skerðingar lífeyris, gera það að verkum að mjög óhagstætt er fyrir lífeyrisþega að leigja út íbúð. Bent er á þetta atriði í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um fjárlagafrumvarpið. Furðu sætir að ríkisstjórnarmeirihlutinn vilji með þessum hætti leggja stein í götu fólks sem bæði hefði vilja og getu til að leigja út íbúðarhúsnæði á tímum þegar skortur er á slíku,“ skrifar Ólafur í nefndaráliti sínu. „Svipað má segja um söluhagnað eigna, svo sem sumarhúsa, sem og verðbætur. Hvort tveggja kemur til skerðingar lífeyris. Flokkur fólksins andmælir hækkun fjármagnstekjuskatts sem leggst þungt á eldri borgara og styður það að frítekjumark vegna fjármagnstekna verði hækkað. Þetta viðmið hefur ekki breyst frá 2009. Leigutekjur af einni íbúð ættu að vera undanþegnar fjármagnstekjuskatti eins og Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á.“
Viðreisn vill fresta hækkuninni
Þorsteinn Víglundsson, fulltrúi Viðreisnar í efnahags- og viðskiptanefnd, telur að tíðar og fyrirvaralitlar breytingar á skattkerfinu hafi lengi verið vandamál hér á landi.
Hann bendir á að ef ríkisstjórnin hyggist breyta skattstofni fjármagnstekjuskatts með þeim hætti að horft verði til skattlagningar raunvaxta væri verið að „flækja fjármagnstekjuskattskerfið verulega og í raun endurvekja verðbólgureikningsskil hvað þennan skattstofn varðar“. Þorsteinn telur að ef til vill væri nær að hofa til heimilda einstaklinga til að draga frá vaxtagjöld, t.d. vegna húsnæðislána, fremur en að flækja skattkerfið með skattlagningu raunávöxtunar.
„Í ljósi áforma um endurskoðun gjaldstofnsins leggur 4. minni hluti til að hækkun fjármagnstekjuskatts verði slegið á frest þar til niðurstaða endurskoðunar á gjaldstofni liggur fyrir. Standi áform um hækkun fjármagnstekjuskatts óbreytt styður 4. minni hluti tillögu meiri hlutans um hækkun frítekjumarks fjármagnstekna úr 125 þús. kr. í 150 þús. kr,“ skrifar Þorsteinn.
Athugasemdir