Fyrrverandi forstjóri Tals, Ragnhildur Ágústsdóttir, kærði kaupsýslumanninn Jóhann Óla Guðmundsson og hæstaréttarlögmanninn Stefán Geir Þórisson fyrir „frelsissviptingu“, sem hún telur vera dæmi um „kynbundið ofbeldi“, árið 2009. Ragnhildur segir þessa sögu sína í pistli á Kjarnanum og tengir greinina við Metoo-herferðina. Sagan tengist deilum um yfirráð yfir fjarskiptafyrirtækinu í lok árs árið 2008 þar sem hluthafar þess tókust á, meðal annars meirihlutaeigendurnir í Teymi og Jóhann Óli Guðmundsson sem var stofnandi Tals og oft er kenndur við Securitas.
Ragnhildur nafngreinir ekki þá Jóhann Óla og Stefán Geir í pistlinum, en áður hefur verið greint frá kæru sem hún lagði fram á hendur þeim hjá lögreglunni. Ragnhildur lýsir því hvernig henni var gert að skrifa undir samning um starfslok sín hjá Tali, eftir að hafa gegnt forstjórastarfinu um nokkurra mánaða skeið í byrjun árs 2009, þar sem hluti hluthafanna vildi að Hermann Jónasson tæki aftur við forstjórastarfinu en hún hafði tekið við því af honum í lok desember 2008.
„Þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ert búin að koma þér útí stelpa“
Ýtt niður og skipað að skrifa undir
Lýsing Ragnhildar á því sem hún kærði sem frelsissviptingu er svohljóðandi en hún hafði þá verið kölluð á fund með Jóhanni Óla og Stefáni Geir: „Ég var ekki fyrr komin inn í herbergið en að hurðinni var lokað á eftir mér og lagt fyrir mig plagg sem mér var gert að lesa. Ég settist tortryggin niður og las fyrstu línurnar en spurði svo hvað væri eiginlega um að vera. Þá tók hæstaréttarlögmaðurinn umbúðalaust til máls og greindi frá því að um væri að ræða brottvikningu úr starfi þar sem ráðning mín í starf forstjóra hafi verið ólögmæt og að ég þurfi að kvitta undir plaggið. Ég tók upp farsímann til að hringja í lögfræðinginn minn sem ég hafði ráðfært mig við varðandi mína stöðu nokkrum vikum áður. Ég náði sambandi við skiptiborðið, kynnti mig og bað um samband og skömmu síðar svaraði lögfræðingurinn með nafni en þá slitnaði sambandið. Ég hringdi strax aftur en heyrði þá rödd svara „Lokað hefur verið fyrir þetta símanúmer“. Vitandi hvernig fjarskiptageirinn virkaði, leit ég vantrúuð á þá félaga sem enn voru standandi og spurði: „Létuð þið loka fyrir símanúmerið mitt?“ Þegar þeir svöruðu ekki stóð ég upp og sagði „Ég ætla að fara inn á skrifstofu og hringja í lögfræðinginn minn“. Þá steig hæstaréttarlögmaðurinn ákveðið fyrir dyrnar og í sömu andrá snéri fulltrúi minnihlutaeiganda sér að mér og ýtti mér ákveðið niður í sætið og sagði: „Þú ferð ekki út úr þessu herbergi fyrr en þú ert búin að skrifa undir þetta plagg“.“
Ekkert kom út úr málinu hjá lögreglunni segir Ragnhildur í pistlinum og var kærunni vísað frá á endanum.
Ríkisforstjóri hluti af sögunni
Ragnhildur segir í pistlinum að Hermann Jónasson, sem ráðinn var í starf forstjóra Íbúðalánasjóðs árið 2015, hafi komið að starfslokum hennar hjá Tali. Hún nafngreinir Hermann ekki í pistlinum en ljóst er að hún er að vísa til Hermanns. Hún segir að á meðan henni hafi verið haldið inni í herberginu til að skrifa undir starfslok sín hafi Hermann boðað til starfsmannafundar: „Ég frétti síðar hjá nokkrum starfsmönnum að mennirnir tveir sem ég var að glíma við inni í fundarherberginu voru ekki einir að verki. Meðan mér var haldið inni í fundarherbergi hafði fyrrum forstjóri valsað inn í fyrirtækið og boðað til starfsmannafundar þar sem hann tjáði starfsfólkinu að ég hefði látið af störfum og að hann væri aftur tekinn við forstjórataumunum. Því miður sá ég hann aldrei þennan tiltekna dag og því gat ég ekki lagt fram kæru á hendur honum eins og hinum tveimur þó ég sé ekki í vafa um að hann hafi verið vitorðsmaður í þessari framkvæmd allri.“
Tengir söguna við starfslok Hermanns í Arion
Ragnhildur nefnir í lok pistilsins að Hermann hafi gegnt forstjórastarfinu um í eitt og hálft ár eftir þetta og að hann hafi svo farið í bankageirann og verið vændur um kynferðislega áreitni sem leiddi til þess að hann missti starf sitt. „Til að gera langa sögu stutta þá sat forstjórinn sem fastast í sínum stól næstu 18 mánuðina eða svo. Þegar hann lét af störfum fór hann aftur í bankageirann og vann þar sem stjórnandi um nokkurra mánaða skeið þar til hann var settur í leyfi eftir að upp komu ásakanir um kynferðislega áreitni gagnvart nokkrum kvenkyns starfsmönnum bankans. Smávægileg umfjöllun varð um það mál í fjölmiðlum en málið náði aldrei neinum hæðum. Um margra ára skeið vildi ég sem minnst af honum og félögum hans vita.“
Segir tíma þagnarinnar liðinn
Ragnhildur segir í samtali við Stundina að hún vilji ekki tjá sig frekar um málið umfram það sem kemur fram í pistlinum á Kjarnanum.
Í pistlinum segir hún að hafi orðið að opna sig um reynslu sína: „Ég hef álasað sjálfa mig fyrir að hafa þagað yfir málinu. Að hafa ekki sagt frá og þar með lagt mitt á vogarskálarnar til að forða því að menn af þessu tagi kæmust í áhrifastöður. Að hafa með þögninni stefnt öðrum konum í hættu. En ekki lengur. Tíminn þagnarinnar er liðinn. Við verðum, sem þjóðfélag, að rísa upp gegn kúltúr sem lætur einstaklinga halda að þeir geti traðkað yfir annað fólk á skítugum skónum. Við verðum, sem þjóð, að krefjast þess að virðing sé borin fyrir öllum og standa vörð um þá hugsjón.“
Hermann Jónasson var ekki viðlátinn þegar Stundin hafði samband við Íbúðalánasjóð til að spyrja hann um málið þar sem hann var á fundi. Stundin náði heldur ekki samband við Stefán Geir Þórisson í gengum skiptiborð lögmannsstofunnar sem hann vinnur hjá.
Athugasemdir