Bandaríski flugherinn hefur farið fram á andvirði um eins og hálfs milljarðs króna á fjárlögum Bandaríkjanna á næsta ári til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Þetta kom fram í frétt Foreign Policy í síðustu viku og greint var frá á RÚV, en fjárveitingin verður notuð til framkvæmda við flugskýli á Keflavíkurflugvelli svo hægt verði að koma þar fyrir fleiri P8 Poseidon kafbátaleitarflugvélum. Eins og nýlega var fjallað um í fréttaskýringaþættinum Kveik hafa umsvif rússneskra kafbáta við Íslandsstrendur aukist umtalsvert að undanförnu. Samhliða hafa umsvif kafbátaleitarsveita aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins stóraukist.
Aukin umsvif Bandaríkjahers á Íslandi og Atlantshafsbandalagsins í hafinu kringum Ísland gætu reynst Vinstri grænum erfið, en flokkurinn er með það á stefnuskrá sinni að Ísland skuli standa utan allra hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. „Ekki á að leyfa heræfingar í landinu eða innan lögsögu þess. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir umferð með kjarnorku-, sýkla- og efnavopn í lofti, á láði og legi,“ segir meðal annars í stefnu Vg. Þá eigi Ísland að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu og biðjast afsökunar á þátttöku sinni í hernaðaraðgerðum á þeirra vegum. Jafnframt skuli standa í vegi fyrir komu herskipa og herflugvéla til Íslands.
Flokksforysta Vinstri grænna þurfti að gefa talsvert eftir í andstöðu sinni við hernað og hernaðarbandalög þegar flokkurinn átti í ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna á tímabilinu 2009 til 2013. Á þeim árum jukust framlög hins opinbera til Atlantshafsbandalagsins, auk þess sem Ísland varð, sem eitt af aðildarríkjum NATO, óbeinn þátttakandi í hernaðaraðgerðum bandalagsins í Líbíu. Á þessum árum fór Samfylkingin með utanríkisráðuneytið auk þess sem mikill þingmeirihluti var og er enn fyrir áframhaldandi veru Íslands í NATO.
„Atlantshafsbandalagið verði áfram
lykilstoð í vörnum Íslands“
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, kemur fram að „þjóðaröryggisstefna Íslands sem samþykkt var af Alþingi“ verði höfð að leiðarljósi næstu ár. Í umræddri stefnu, sem samþykkt var í formi þingsályktunar þann 13. apríl 2016, kemur fram að „Atlantshafsbandalagið verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja“. Þetta stangast á við stefnu Vinstri grænna en er í samræmi við stefnu flestra annarra flokka á Alþingi.
Athugasemdir