Engin ríkisstjórn hefur notið meiri stuðnings síðasta áratuginn en nýmynduð stjórn Katrínar Jakobsdóttur í samstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks.
Samkvæmt könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis styðja 78 prósent landsmanna ríkisstjórnina en 22 prósent styðja hana ekki. Leita þarf aftur til ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, með samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, til þess að finna viðlíka stuðning við ríkisstjórn, en 83 prósent landsmanns studdu hana eftir að hún var mynduð í júní 2007. Árið eftir var stuðningurinn kominn niður í 52 prósent og við efnahagshrunið féll stuðningurinn enn meira, eða niður í 26 prósent áður en yfir lauk.
Báðar ríkisstjórnir voru kynntar sem tímamótastjórnir þar sem vinstri og hægri flokkur náðu saman við myndun sáttastjórnar.
Ríkisstjórn Katrínar hefur sett á oddinn að „skapa sem breiðasta samstöðu um ýmis mál sem hafa verið deilumál í íslensku samfélagi,“ eins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra orðaði það við undirritun stjórnarsáttmálans.
Af stjórnarsáttmálanum má ráða að mikið ójafnvægi er milli útgjalda- og tekjuráðstafana í stefnu nýrrar stjórnar, þar sem boðaðar eru skattalækkanir og svo fráhvarf frá skattahækkunum á sama tíma og margvísleg, veruleg útgjaldaaukning er í burðarliðunum.
VG hafði sætt gagnrýni innanflokks sem utan fyrir að hefja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en fyrir kosningar höfðu ýmsir forsprakkar flokksins hvatt til uppgjörs við flokkinn. Í samtali við Fréttablaðið undraðist hún stuðninginn. „Ég er auðvitað bæði undrandi og glöð með þennan stuðning og þakklát fyrir þann meðbyr sem við fáum í upphafi.“ Hún sagði þetta kalla á „enn ríkari kröfur um að standa undir þeim væntingum sem fólk hefur.“
Athugasemdir