Spurningin um hvernig hefði farið ef nasistar hefðu unnið stríðið hefur löngum heillað fólk, enda ekki margir atburðir í seinni tíma sögu sem hefðu getað breytt jafn miklu. Nýlegir sjónvarpsþættir á borð við Man in the High Castle, sem gerast að mestu í San Francisco undir stjórn Japana árið 1962, eða SS-GB, sem gerast í Bretlandi hernumdu af Þjóðverjum árið 1941, sýna að áhuginn hefur síður en svo minnkað. Enda lifum við á tímum þar sem möguleikinn á því að einhvers konar Hitlersfígúra komist til valda virðist meiri nú en hefur verið frá stríðslokum. En hvernig hefði það orðið ef Hitler hefði unnið?
Fyrsta bókin sem fjallaði um það kom reyndar út árið 1937, Swastika Night eftir Katharine Burdekin. Fjallar hún um veröld þar sem þriðja ríkið hefur staðið í þúsund ár og Adolf Hitler verið tekinn í guðatölu. En þar sem hún gerist í framtíð höfundar frekar en í fortíðinni ætti líklega frekar að flokka hana sem framtíðardystópíu á borð við 1984 frekar en „hvað ef“ sögu. Ári eftir að stríðinu lauk kom svo leikritið Peace in Our Time eftir Noel Coward sem gerist í London sem er stjórnað af nasistum. Coward átti sjálfur harma að hefna, því hann var ofarlega á lista yfir þá sem átti að handtaka af Þjóðverjum hefðu þeir ráðist á Bretland.
Roosevelt myrtur og nasistar á Mars
Það var þó ekki fyrr en á 7. áratugnum sem fyrstu stóru verkin sem fjölluðu um sigur nasista í stríðinu birtust. It Happened Here er bresk mynd sem fjallar um írska hjúkrunarkonu í hinu hermunda Bretlandi á árunum 1944–45. Eyjunni er stjórnað af breska fasistanum Oswald Mosley, sem var raunverulega til en náði aldrei miklu fylgi. Þjóðverjar berjast enn við Rússa í Úralfjöllum og bandaríski flotinn gerir árásir á herstöðvar þeirra í Bretlandi, en flestir eyjarskeggja kjósa að vinna með hernámsliðinu. Myndin kom út árið 1964, en tveim árum fyrr hafði vísindaskáldsöguhöfundurinn Philip K. Dick sent frá sér bókina The Man in the High Castle, sem hinir nýlegu þættir Amazon eru gerðir eftir. Bókin minnir um margt á vísindaskáldsögu, Þjóðverjar hafa lagt undir sig Mars og Ítalir þurrkað upp Miðjarðarhafið, en baksviðið byggir á Ef sögu. Roosevelt forseti er hér myrtur árið 1936, sem gerir það að verkum að kreppan í Bandaríkjunum verður mun dýpri og Þjóðverjar leggja undir sig austurströnd Bandaríkjanna en Japanir vesturströndina, með hlutlausu leppríki inn á milli. Sögusviðið er vissulega langsótt, en bókin er áhugaverð, ekki síst vegna þess að hún fer einn hring í viðbót og segir frá skáldsöguhöfundi sem veltir því fyrir sér hvernig hefði farið ef bandamenn hefðu unnið stríðið. Ekki er þó allt hér kunnuglegt heldur.
Pabbi Hitlers gerður ófrjór
Það var þó fyrst á 10. áratugnum sem að formið komst almennilega á skrið. Árið 1992 kom bókin Fatherland eftir Robert Harris út og á íslensku ári síðar. Á hún reyndar að gerast árið 1964, í kringum 75 ára afmæli Hitlers, en líklega var þetta síðasta tímabilið þar sem hinir upprunalegu leiðtogar nasista voru enn í fullu fjöri. Bretland er hér orðið leppríki undir stjórn Mosleys og Eðvarðs 8., sem í raun var látinn segja af sér fyrir stríð, hugsanlega vegna tengsla hans við nasista. Stríðið geisar enn í Úralfjöllum og sögupersónan er lögreglumaður sem reynir að komast að því hvað varð af gyðingunum. Hér er það Joseph Kennedy, faðir Johns, sem er forseti Bandaríkjanna, en hann var hliðhollur nasistum í reynd.
Öfugt við það sem vonast var eftir tekur annar einræðisherra við í stað Hitlers
Fjórum árum síðar kom bókin Making History út, sem var þriðja skáldsaga gamanleikarans Stephen Fry. Segir hún frá háskólanema sem tekst að senda pillur aftur í tímann sem gera föður Hitlers ófrjóan. Í kjölfarið breytist allt, en öfugt við það sem vonast var eftir tekur annar einræðisherra við í stað Hitlers og tekst að vinna stríðið fyrir hönd Þjóðverja. Hér leikur Fry sér að þeirri hugmynd að það sé ekki einstaklingurinn sem skiptir máli í sögunni heldur hinar ytri aðstæður. Það voru jú sömu kringumstæður fyrir hendi hvort sem Hitler hefði notið við eða ekki, heimskreppa og ósigur í fyrra stríði. Eigi að síður virðist sem einstaklingurinn skipti nokkru máli, því hæfari maður en Hitler hefði getað unnið stríðið, að minnsta kosti samkvæmt Fry. Hvað sem því líður er bókin stórskemmtileg, en gagnrýnanda New York Times fannst nóg um að farið væri með fleipur um svo alvarlegt efni.
Suðurríkin sigra, geimverurnar koma
Bók Fry hefur því miður ekki komið út á íslensku, en það gerði hins vegar Samsærið gegn Bandaríkjunum eftir Philip Roth sem bókaútgáfan Hólar þýddi árið 2006. Hér segir frá Bandaríkjunum á 4. áratugnum þar sem flughetjan Charles Lindbergh er orðinn forseti, en hann var hallur undir nasista og á móti gyðingum, sem setur mjög mark sitt á stjórnartíð hans. Roth er virtari höfundur en flestir sem hafa fengist við formið og þykir bókin bókmenntaverk sem gagnrýnendur hafa neyðst til að taka alvarlega. En á sama tíma hefur orðið til stóriðnaður nokkurs konar flugvallabókmennta og koma ótal bækur út á hverju ári þar sem sögunni er snúið á haus. Meðal helstu höfunda í geiranum er Harry Turtledove, sem hefur skrifað ófáar bókaseríur. Meðal þeirra þekktustu eru Southern Victory serían, sem segir frá því þegar Suðurríkin sigra í borgarastríðinu og halda sjálfstæði sínu en Norðurríkin mynda bandalag við Þýskaland og hjálpa þeim að sigra í fyrri heimsstyrjöld. Einnig hefur hann skrifað bækur um að seinni heimsstyrjöldin hafi hafist árið 1938 frekar en 1939, sem hefði jú getað gerst, og að geimverur koma inn í stríðið, sem er kannski öllu langsóttara.
Hitler ræðst á Svíþjóð
En hefði Hitler getað unnið? Þetta er spurning sem ekki bara skáldsöguhöfundar heldur einnig sagnfræðingar og hernaðarfræðingar hafa velt fyrir sér. Í bókinni The Hitler Options frá 1998 er nokkrum möguleikum velt upp, svo sem ef Þjóðverjar hefðu ráðist beint á Bretland árið 1940, einbeitt sér að Miðjarðarhafinu, sótt að Moskvu frekar en Úkraínu, hafið nánara samstarf við Japani eða byggt upp öflugri kafbátaflota frekar en ofansjávarskip. En einnig hefðu bandamenn getað gert ýmislegt örðuvísi. Bretar hefðu getað samið frið sumarið 1940 eins og kom til tals, Bandaríkjamenn haldið sig utan við stríðið með því að leyfa Japönum að leggja undir sig Austur-Asíu, eða þá verið enn árásargjarnari, ráðist fyrr inn í Evrópu og jafnvel komist til Berlínar á undan Rússum.
En það eru ekki aðeins stóru löndin sem hafa sínar „hvað ef“ sögur. Í bókinni Attentatet í Pålsjö skogen eftir sænska grínistann Hans Alfredson er Eva Braun myrt á ferðalagi um Svíþjóð og kærastinn Hitler lætur hernema landið. Þetta leiðir síðan aftur til þess að stríðinu lýkur árið 1944. Pólverjar hafa einnig skrifað bækur þar sem þeir ganga í lið með Þjóðverjum árið 1939 og sigra Rússa, en snúast síðan gegn Þjóðverjum og verða að mesta stórveldi Evrópu. Hér er þó frekar verið að sökkva sér ofan í óskhyggju höfundar en að skoða hvað raunverulega hefði getað orðið. Sama hefur verið sagt um bandaríska öldungadeildarþingmanninn Newt Gingrich, sem hefur skrifað bók þar sem Bandaríkin láta Þýskaland vera en einbeita sér að Japan, og aðra þar sem Suðurríkin vinna stríðið. Líklegt er að bókmennagreinin eigi langa framtíð fyrir sér, því stöðugt er jú eitthvað nýtt að gerast sem hefði getað farið í aðrar áttir, auk þess að sögulegir viðburðir á borð við seinni heimsstyrjöld vekja enn áhuga. Fyrsta íslenska „hvað ef“ bókin, Örninn og fálkinn, fjallar einmitt um hvað hefði gerst ef Þjóðverjar hefðu hernumið Ísland árið 1940.
Valur Gunnarsson er höfundur bókarinnar Örninn og fálkinn.
Athugasemdir