Dómsmálaráðuneytið varð ekki við beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um að afhenda öll gögn í málum Róberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar, kynferðisbrotamanna sem fengu uppreist æru í fyrra.
Gagnabeiðnin barst ráðuneytinu þann 20. október síðastliðinn á grundvelli 51. gr. þingskaparlaga að frumkvæði Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, með stuðningi Jóns Þórs Ólafssonar og Svandísar Svavarsdóttur úr Vinstri grænum. Farið var fram á öll gögn, minnisblöð og önnur skjöl sem tilgreind eru á lista yfir málsgögn í málum Róberts Downey, Hjalta Sigurjóns Haukssonar og mannsins sem dró umsókn sína um uppreist æru til baka eftir að dómsmálaráðherra hafði látið málið liggja óafgreitt um nokkurra vikna skeið.
Dómsmálaráðuneytið svaraði ekki beiðninni og hefur ekki viljað gera það eftir kosningar með vísan til þess að fyrri nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi misst umboð sitt eftir að nýtt þing var kosið. Þórhildur Sunna fékk svo þau skilaboð frá dómsmálaráðuneytinu að hún yrði sjálf að senda upplýsingabeiðni á grundvelli upplýsingalaga. Það gerði hún þann 15. nóvember síðastliðinn og hefur enn engin svör fengið.
„Það er augljóst af þessu verklagi ráðuneytisins að þar er enginn vilji til þess að upplýsa þingið um málið sem felldi síðustu ríkisstjórn. Ráðuneytið dregur lappirnar fyrir kosningar og neitar að afhenda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd öll gögn málsins eins skjótt og unnt er eins og þingsköp segja til um,“ segir Þórhildur í samtali við Stundina.
„Í ljósi alls sem á undan er gengið og margítrekaðra ásakana á hendur Sigríðar Á Andersen, starfandi og líklega verðandi dómsmálaráðherra, um leyndarhyggju í uppreist æru málinu hafði ég væntingar um að hún myndi bregðast hratt og örugglega við óskum nefndarinnar um upplýsingar. Þess í stað kýs Sigríður og ráðuneyti hennar að skýla sér bak við sjö daga frest sem er lengsti mögulegi tími sem ráðherra má taka sér til þess að verða við beiðnum þingnefnda um gögn. Vitandi að kosningar gætu leyst þau undan þeirri ábyrgð að svara nefndinni sem slíkri. Það er svo kaldhæðnislegt að ég fái þau skilaboð að senda upplýsingabeiðni á grundvelli upplýsingalaga og fögur fyrirheit um svör sem svo berast ekki. Kannski er verið að bíða eftir að Sjálfstæðisflokkurinn innsigli stjórnarsáttmála áður en ráðuneytið lætur sig hafa það að fara að upplýsingalögum.“
Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga ber stjórnvaldi að skýra fyrirspyrjanda frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta ef beiðni hefur ekki verið afgreidd innan sjö daga frá því að hún berst. Aðspurð hvort hún hafi fengið skýringar á töfunum, líkt og lög kveða á um, svarar Þórhildur neitandi.
Athugasemdir