Fyrrverandi frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Önundarson, gerir athugasemdir við prófílmynd Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hún birti í sumar, vegna frásagna hennar af kynferðislegri áreitni.
„Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem ,,prófílmynd“ á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig,“ segir Ragnar.
Þegar Áslaug Arna spyr Ragnar hvað hann sé að meina með athugasemdinni, svarar Ragnar: „Kannski ættirðu að leita ráðgjafar almannatengils ?“
„Þessi ummæli þín og aðdróttanir eru til skammar“
Ragnar er harðlega gagnrýndur undir færslu sinni um myndaval Áslaugar Örnu. „ Í fyrsta lagi er ekkert að þessari mynd. Í öðru lagi eru samskiptamiðlar ekki bara fyrir fólk til að kynna sig. Þessi mynd er á persónulegri síðu Áslaugar Örnu, ekki pólitísku síðunni hennar. Þetta er síðan sem hún notar m.a. í samskiptum við vini og fjölskyldu, síða sem hún ræður yfir og má að sjálfsögðu hafa eins og henni sýnist. Þessi ummæli þín og aðdróttanir eru til skammar Ragnar en segja meira um þig en hana,“ segir Margrét Tryggvadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Karlar taki ábyrgð
Yfir þrjú hundruð konur í stjórnmálum rituðu nafn sitt á lista í dag með áskorun til stjórnmálamanna vegna áreitni og kröfu um að allir karlar taki ábyrgð.
Þrjár stjórnmálakonur komu fram í Kastljósi Rúv í kvöld og greindu frá reynslu sinni, þar á meðal Áslaug Arna. „Það sem snýr kannski mest að mér eru kynferðislegar athugasemdir um að maður sé ekki starfi sínu vaxinn, ekki eins hæfileikaríkur og staða manns gefi til kynna og að maður sé ekki nógu góður í starfi svo maður hljóti að hafa sofið hjá þeim sem völdin hafa til þess að komast á þann stað sem maður er,“ sagði hún meðal annars.
Athugasemdir