Nýrnaveiki hefur sett stórt strik í reikninginn í starfsemi laxeldisfyrirtækisins Arnarlax í Arnarfirði á þessu ári og leitt til mikils dauða á eldislaxi hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri móðurfélags Arnarlax, Salmar AS, sem gert var opinbert í morgun. Salmar er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs og á 34 prósenta hlut í Arnarlaxi. Í sérstökum kafla í árshlutauppgjörinu er fjallað um starfsemi Arnarlax nýrnaveikina sem fyrirtækið hefur barist við á árinu og allt frá því í fyrrahaust.
Orðrétt segir í árshlutauppgjörinu: „Kostnaður við lífmassann [eldislaxinn] sem var ræktaður var á þriðja ársfjórðungi varð fyrir neikvæðum afleiðingum vegna líffræðilegra þátta, þar með talið hærri dánartíðni, meðal annars vegna fiskisjúkdómsins BKD, nýrnaveiki.“ Þessar upplýsingar um nýrnaveikina og dánartíðni eldislaxa Arnarlax á þriðja ársfjóðrungi 2017 hafa ekki komið fram áður en Salmar As virðist telja að brýnt sé að halda þessum upplýsingum til haga.
Tekjutap út sjúkdómnum
Fram kemur í uppgjörinu að tekjur Arnarlax hafi dregist saman frá 198 milljónum norskra króna á öðrum ársfjórðungi og niður í 113,8 milljónir norskra króna á þriðja ársfjórðungi 2017, meðal annars vegna nýrnaveikinnar. Þá fór hagnaður Arnarlax fyrir fjármagnsliði úr 26 milljónum norskra króna á öðrum ársfjórðungi og niður í mínus 4,8 milljónir norskra króna.
„Ég ætla ekki að tala um þetta“
Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, neitar að tjá sig um nýrnaveikina og þær upplýsingar sem fram koma í árshlutauppgjöri Salmar. Norska félagið gefur því meiri upplýsingar um nýrnaveikina en íslenska dótturfélagið. „Mér finnst þú skrifa um laxeldið á mjög einsleitan hátt og mér finnst eins og þú sért á móti þessari grein. Þannig að ég ætla bara ekkert að tjá mig um þetta. Þú getur bara skrifað það sem þú vilt. Þetta er ekki stórmál og ekki viðkvæmt mál. Ég ætla ekki að tala um þetta. Takk fyrir að hringja,“ segir Víkingur.
Glímt við veikina í heilt ár
Fréttatíminn greindi frá því ársbyrjun að nýrnaveiki hefði komið upp hjá Arnarlaxi en þessi sjúkdómur er einn helsti sjúkdómurinn sem komið getur upp í laxeldi og getur verið erfitt að eiga við hann. Löxum sem sýkjast af nýrnaveikinni er slátrað og þeim fargað líkt og gert var hjá Arnarlaxi og Arctic Sea Farm síðastliðið haust samkvæmt frétt Fréttatímans. Þar sagði að slátra hefði þurft 200 tonnum af eldislaxi vegna sjúkdómsins en sá fiskur er svo keyrður til Borgarfjarðar þar sem hann er urðaður hjá sorphreinsistöð Borgarfjarðar.
Nýrnaveikin smitast frá villtum laxi yfir til eldislaxsins þó villtir laxar beri ekki smiteinkenni sem eldislaxarnir bera. Sjúkdómurinn sýnir að eldislaxinn hjá Arnarlaxi hefur komist í návígi við villtan lax og getur slíkt samneyti falið í sér hættu á erfðablöndunun á milli villta íslenska laxisins og norska eldislaxsins sem notaður er í eldinu á Íslandi. Nýrnaveikin getur orðið svo skæð að dæmi er um að laxeldisfyrirtæki hafi orðið gjaldþrota þegar hún hefur komið upp samkvæmt Matvælastofnun Íslands.
Árshlutauppgjör Salmar As má nálgast hér.
Athugasemdir