Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Samfylkingin eru sigurvegarar Alþingiskosninganna 2017, en Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar, Viðreisn og Björt framtíð helstu tapararnir.
Miðflokkurinn, klofningsframboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, endaði með 10,9 prósent greiddra atkvæða og sjö þingmenn, Flokkur fólksins fékk 6,9 prósent og fjóra þingmenn og Samfylkingin fékk 12,1 prósent atkvæða, bættu við sig fjórum þingmönnum og eru því alls með sjö.
Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkurinn á landinu, hlaut 25,5 prósent greiddra atkvæða, en missti alls fimm þingmenn frá fyrra kjörtímabili. Píratar misstu fjóra þingmenn, Viðreisn þrjá og Björt framtíð hlaut einungis 1,2 prósent greiddra atkvæða og komust því ekki á þing.
Vinstri græn enduðu með 16,9 prósent fylgi, sem er nokkuð minna en kannanir sýndu, en bættu við sig einum þingmanni. Framsóknarflokkurinn, sem hafði verið að mælast lítill í skoðanakönnunum eftir að flokkurinn klofnaði með framboði Sigmundar Davíðs, endaði í 10,7 prósentum og hélt sínum þingmannafjölda.
Niðurstaða Alþingiskosninga 2017
Sjálfstæðisflokkur 25,5 prósent - 16 þingmenn
Vinstri græn 16,9 prósent - 11 þingmenn
Samfylkingin 12,1 prósent - 7 þingmenn
Miðflokkurinn 10,9 prósent - 7 þingmenn
Framsóknarflokkurinn 10,7 prósent - 8 þingmenn
Píratar 9,2 prósent - 6 þingmenn
Flokkur fólksins 6,9 prósent - 4 þingmenn
Viðreisn 6,7 prósent - 4 þingmenn
Athugasemdir