Björn Þorsteinsson, fyrrverandi rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, segir að Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar, hafi hringt og varað sig við því að leggjast gegn tillögu ráðherra um val á settum rektor til eins árs þegar málið var til umfjöllunar í háskólaráði skólans.
Eins og DV greindi frá á dögunum vakti ráðningarferlið furðu innan skólans; kvartað var til umboðsmanns Alþingis vegna málsins og orðrómur uppi um pólitískt inngrip.
Stundin hafði samband við Björn Þorsteinsson, fyrrverandi rektor skólans sem var formaður háskólaráðs þegar dr. Sæmundur Sveinsson var settur tímabundið í stöðu rektors án þess að hafa undirgengist formlegt hæfnismat.
„Haraldur hringdi í mig og mæltist eindregið til þess að ég legðist ekki gegn tillögu ráðherra í þessum efnum. Hann orðaði það sem svo, að ef ég setti mig upp á móti tillögunni þá gæti það komið „mjög illa út persónulega fyrir mig“,“ segir Björn í samtali við Stundina.
Haraldur vísar þessu á bug en viðurkennir að hafa átt í samskiptum við Björn vegna málsins. „Ég kannast við að hafa átt samskipti við Björn í tengslum við val á rektor. Við ræddum saman um stöðuna sem var komin upp,“ segir Haraldur sem kannast þó ekki við að hafa þrýst á Björn með þeim hætti sem lýst hefur verið.
Fulltrúi ráðherra vildi Sæmund
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, setti dr. Sæmund Sveinssoní stöðu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands þann 1. október síðastliðinn. Eins og DV greindi frá í byrjun mánaðar hafði starfið áður verið auglýst og þrír umsækjendur verið metnir hæfir. Aðeins einn þeirra var talinn búa yfir nægri stjórnunarreynslu en hann reyndist ekki geta tekið við starfinu.
Háskólaráð Landbúnaðarháskólans brást við þessu með því að útbúa lista í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið yfir hugsanleg rektorsefni. Var þá stefnt að því að fá einhvern sem væri ótengdur ýmsum ágreiningsmálum sem höfðu skekið skólann mánuðina og árin á undan.
Að því er fram kemur í fundargerð háskólaráðs frá 7. september stakk fulltrúi ráðherra í háskólaráðinu, Sigríður Hallgrímsdóttir, fyrrverandi aðstoðarkona Illuga Gunnarssonar, betur þekkt sem pistlahöfundurinn Sirrý – upp á því að Sæmundur Sveinsson fengi stöðuna.
Haraldur hringdi í Björn
Björn segir í samtali við Stundina að fyrir fundinn hafi fulltrúi ráðherra nefnt Sæmund við sig. Björn hafi þá bent á að ef til stæði að fá innanhússmann til að gegna starfinu væri ef til vill heppilegast að leita til einhvers sem hefði stjórnunarreynslu.
„Í kjölfar þessa hringdi Haraldur Benediktsson í mig og mæltist eindregið til þess að ég legðist ekki gegn tillögu ráðherra um settan rektor. Hann sagði að ef ég gerði það þá gæti það komið mjög illa út fyrir mig persónulega.“
Björn vill taka fram að Haraldur hafi oft verið sér hjálplegur og átt þátt í að tekist hafi að rétta fjárhag skólans af meðan hann var rektor. Honum hafi þó orðið verulega brugðið þegar Haraldur lét þessi orð falla.
„Ég átta mig ekki á því hvað hann meinti, hvað það væri sem gæti komið mér illa persónulega, og hafði ekki geð í mér að spyrja hann.“
Mál eiginkonu hans var til meðferðar
Eftir þetta ákvað Björn að halda sig til hlés á fundinum. Mál eiginkonu hans, Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors við skólann, hefði verið til skoðunar í kjölfar tölvupósts sem hún sendi samstarfsmönnum sínum um vorið og var unnið að því á þessum tíma, í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, að finna ad hoc-rektor til að taka ákvörðun um viðbrögð við málinu í ljósi vanhæfis Björns. Að þessu leyti var Björn, fráfarandi rektor og prófessor við skólann, í óþægilegri stöðu.
„Ég ákvað að hafa mig ekki í frammi á fundinum. Aðrir háskólaráðsmenn báru ekki fram neinar mótbárur, svo Sæmundur var kallaður í viðtal. Ég treysti því auðvitað að stjórnsýsla ráðuneytisins í máli Önnu yrði í lagi, að staðið yrði við það sem áður stóð til, að settur yrði ad hoc-rektor til að fjalla um málið.“
Eins og Stundin greindi frá í morgun tilkynnti Sæmundur Sveinsson Önnu Guðrúnu prófessor í síðustu viku að hann hefði í hyggju að segja henni upp störfum. Anna hafði ekki fengið áminningu og hefur gegnt prófessorsstöðu við skólann í 25 ár.
Ástæða uppsagnarinnar er tölvupóstur hennar til samstarfsmanna þar sem hún gagnrýndi hvernig staðið var að ráðstefnu um landgræðslu og loftslagsmál í Hörpu síðasta vor. Komst siðanefnd skólans að þeirri niðurstöðu að tiltekin ummæli í tölvupóstinum fælu í sér ómaklegar aðdróttanir og brot á siðareglum skólans. Sæmundur, sem nú er rektor, sat í undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna sem Anna Guðrún gagnrýndi og kom að skipulagningu hennar.
„Ég hélt að það væri samhljómur um að það yrði íþyngjandi og óheppilegt fyrir Sæmund að taka á máli Önnu Guðrúnar, meðal annars í ljósi aðkomu hans að undirbúningi ráðstefnunnar sem hún gagnrýndi,“ segir Björn sem ræddi við Kristján Þór Júlíusson ráðherra um málið þann 27. september. Hann segist hafa skilið Kristján sem svo að hann væri sammála sér og að áfram yrði unnið að því að fá ad hoc-rektor, sem stæði utan ágreiningsmálanna í skólanum, til að taka ákvörðun í málinu. Nú í síðustu viku tilkynnti hins vegar Sæmundur Sveinsson rektor um fyrirhugaða uppsögn Önnu Guðrúnar og veitti henni 14 daga frest til að neyta andmælaréttar síns.
„Eftir á að hyggja, þegar ég velti fyrir mér orðum Haraldar, þá veit ég ekki hvað það er sem hefði getað komið mér „persónulega verr“ heldur en einmitt það sem nú hefur verið gert gagnvart eiginkonu minni.“
Kannast við samskipti en ekki þrýsting eða hótanir
Stundin hafði samband við Harald Benediktsson og spurði hvort hann kannaðist við að hafa beitt Björn þrýstingi þegar val á settum rektor var til umfjöllunar í háskólaráði Landbúnaðarháskólans.
„Nei, ég get ekki stundað neinar slíkar hótanir. Og hvers vegna ætti ég að gera það?“ sagði hann. Aðspurður hvort hann hefði átt í samskiptum við Björn vegna vals á rektor sagði hann: „Jú, ég kannast við að hafa átt samskipti við Björn í tengslum við val á rektor. Við ræddum saman um stöðuna sem var komin upp. Ég hef talað við hann og hann hefur leitað til mín. En ég hef enga þannig stöðu í þessu máli að geta farið að beita þrýstingi.“
Athugasemdir