Nichole Leigh Mosty, þingkona og frambjóðandi Bjartrar framtíðar, segist hafa verið sorgbitin yfir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna þess hve litlum fjármunum var varið til menntamála. Þetta viðurkenndi hún á opnum fundi Stúdentaráðs Háskóla Íslands á Háskólatorgi í dag.
„Ég ætla bara að vera heiðarleg. Ég var sorgbitin þegar ég sá fjármálaáætlun, að sjá skort á metnaði á þessu málefnasviði,“ sagði Nichole. Eins og Stundin fjallaði ítarlega um í vor felur fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar í sér að aðhaldskrafan gagnvart menntastofnunum er fjórum sinnum harðari en til stóð samkvæmt áætluninni sem lögð var fram árið 2016 í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
„Í stuttu máli eru þetta mikil vonbrigði og ekki í samræmi við það sem sagt var af stjórnarflokkunum fyrir kosningar,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í samtali við Stundina þann 3. apríl síðastliðinn.
Nichole sagði á fundinum í dag að sér hefði liðið illa yfir útreiðinni sem menntakerfið fékk í áætluninni. „Við lofuðum öll að gera eitthvað í þessum málaflokki og ég hafði trú á að við myndum gera það,“ sagði Nichole og harmaði hvernig fór.
Nichole tjáði sig fjórum sinnum um fjármálaáætlunina meðan hún var til umræðu á Alþingi en aldrei um menntamál. Hún greiddi svo atkvæði með áætluninni þann 1. júní. Jafnframt greiddi hún atkvæði gegn liðum í breytingartillögu Oddnýjar Harðardóttur þar sem lagt var til að skorið yrði minna niður til framhaldsskólakerfisins heldur en áætlunin gerði ráð fyrir og að útgjöld til háskólamála yrðu aukin meira en til stóð.
Áður hefur Nichole lýst þeirri skoðun sinni í viðtali að þingmenn séu „langt frá því að geta haft áhrif þó svo að þingmennska eigi að teljast áhrifastaða“. Fjármálaáætlunin, sem hún segir að sér hafi liðið illa yfir, var þó eitt þingmálunum sem hefði ekki þurft nema einn þingmann úr stjórnarmeirihlutanum til að koma í veg fyrir að yrði samþykkt. Áætlunin var samþykkt með 32 atkvæðum á móti 31 þann 1. júní 2017.
Athugasemdir