Hrund Þórsdóttir, aðstoðarritstjóri fréttastofu 365, telur að starfsmenn á fjölmiðlinum hafi rofið trúnað við forsætisráðherra með því að greina blaðamönnum DV og Stundarinnar frá bræðiskasti sem hann er sagður hafa tekið á ritstjórnargólfinu. Þetta kemur fram í tölvupósti Hrundar til starfsmanna á 365 miðlum.
DV greindi frá því í gær að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði „tryllst á ritstjórn 365-miðla“ og að „tryllt öskur“ hefðu ómað um vinnustaðinn.
Frétt DV er í grófum dráttum í samræmi við frásögn heimildarmanna Stundarinnar sem urðu vitni að atvikinu.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var framkoma Bjarna viðhöfð í opnu rými og án þess að óskað hefði verið sérstaks trúnaðar um samskiptin.
Að því er fram kemur í tölvupóstinum sem starfsmönnum barst í morgun og Stundin hefur undir höndum er litið svo á að starfsmenn hefðu átt að þegja um framkomu forsætisráðherra. Er vísað til atviksins sem „uppákomu sem varð hér innanhúss“.
„Ég sendi þennan póst til að ítreka mikilvægi þess að starfsmenn hér á hæðinni haldi trúnað við fréttastofuna og samstarfsfólk sitt. Uppákoma sem varð hér innanhúss um helgina rataði í frétt á DV, sem er fjarri því að vera í lagi,“ segir í tölvupóstinum.
Aðstoðarritstjórinn vitnar í 1. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands, en þar stendur: Blaðamaður leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má telja fyrir stétt sína eða stéttarfélag, blað eða fréttastofu. Honum ber að forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á starfi blaðamanns eða skert hagsmuni stéttarinnar. Blaðamaður skal jafnan sýna drengskap í skiptum sínum við starfsfélaga.
„Þetta er lykilatriði í starfi okkar og má aldrei klikka“
„Fólk sem hér vinnur, og ekki síður viðmælendur og aðrir sem eigi erindi inn á ritstjórnarskrifstofuna, VERÐA að geta treyst því að hér ríki trúnaður. Þetta er lykilatriði í starfi okkar og má aldrei klikka. Það sem gerist á fréttastofunni fer ekki út fyrir fréttastofuna. Höfum þetta alltaf í huga,“ segir í tölvupósti Hrundar.
Athugasemdir