Kósóvó er ekki daglegur gestur í fréttum á Íslandi en í dag gegnir öðru máli af ástæðum sem ekki þarf að rekja. Af því tilefni er rétt að skoða ögn sögu þessa lands.
Kósóvó er á Balkanskaganum og var lengst af bara eins og hvert annað hérað þar og ekki byggt sérstakri þjóð. Það var hluti Rómaveldis meðan Rómverjar réðu Balkanskaganum fyrir 2.000 árum og varð síðan hluti af arftaka þess, Býsans-veldi eða austurrómverska ríkinu. Þegar leið að árinu 1000 eftir Krist var Býsans farið að hnigna og slavneskir ættbálkar mjög farnir að gera sig gildandi á skaganum miðjum og vestanverðum.
Héraðið Kósóvó var yfirleitt á yfirráðasvæði þeirrar slavnesku þjóðar sem öflugust var, en sú hét Serbar.
Í fjöllunum þar um slóðir og þó einkum nær strönd Adríahafsins hafðist hins vegar líka við önnur þjóð. Fátt er vitað um uppruna hennar fyrr en hún skaut upp kollinum í rituðum heimildum á 11. öld en þar voru komnir Albanir.
Albanir tala tungu sem er óskyld slavneskum málum og helst er talið að þeir hafi upphaflega verið afkomendur grískkynjaðra ættbálka sem búið höfðu á skaganum norðan Grikklands og Makedóníu en flúðu upp í fjöllin þegar Slavar fóru að sækja niður á Balkanlönd á sjöttu og sjöundu öld.
Hvað sem því líður - héraðið sem nú kallast Kósóvó var ósköp venjulegt fjallahérað á Balkanskaga, oftast innan vébanda Serbíu, en Albanir voru fjölmennir á vesturlandamærunum.
Árið 1389 breyttist svo allt.
Tyrkir höfðu þá komið austan úr Mið-Asíu og lögðu undir sig æ svæði í Litlu-Asíu, sem síðan heitir Tyrkland, og fóru síðan yfir Bospórus og tóku að herja á Balkanskaga.
Og þetta tiltekna ár var Múrad I Tyrkjasoldán á ferðinni með 40.000 manna her og hugðist ganga milli bols og höfuðs á Serbum. Serbar höfðu ívið fámennari her undir stjórn Lazars prins en framan af virtust þungbrynjaðir riddarar þeirra ætla að hafa betur gegn léttvopnuðu fótgönguliði Tyrkja.
Svo snerist stríðsgæfan Tyrkjum í vil, Lazar prins féll og riddaralið Serba riðlaðist og var á endanum strádrepið. Múrad soldán var að vísu myrtur af serbneskum flugumanni um það bil sem orrustunni var að ljúka en það kom ekki í veg fyrir að Tyrkir unnu afgerandi sigur og Serbar máttu sín lítils eftir það.
Þessi orrusta hafði verið háð á akri einum utan í hæðardrögum og kallaðist akurinn Svartfuglaakur, eða Kósóvó.
Eftir orrustuna við Kósóvó náðu Tyrkir brátt undir sig öllum Balkanskaga og réðu honum mestöllum í 500 ár. Serbar þjáðust undir hinu tyrkneska oki en þeir yljuðu sér við sögur og kvæði um hina hetjulegu framgöngu Lazars prins og manna hans við Kósóvó, þótt ekki hefði dugað gegn hinu illa tyrkenska valdi.
Í sögu flestra þjóða verða sigrar í orrustum miðpunktur þeirrar sjálfsmyndar sem þjóðirnar gera sér um sögu sína og sál, en í tilfelli Serba fór svo einkennilega að ósigurinn gegn Tyrkjum við Kósóvó varð einskonar akkeri í þjóðarvitund Serba.
Tilgangur Serba í lífinu var að hefna ósigursins á Svartfuglaakri. Eða svo mátti ætla af mikilvægi orrustunnar.
En Kósóvó varð nú hérað í Ottómana-ríki Tyrkja. Í vestri var Albanía og í norðri Serbía. Íbúarnir voru flestir Serbar til að byrja með en brátt fór Albönum að fjölga. Líkt og bræður þeirra og systur í Albaníu sjálfri reyndust Albanirnir í Kósóvó viljugri til að undirgangast íslamstrú Tyrkja heldur en flestir Slavarnir á svæðinu. Albanir urðu að lokum nær allir múslimar.
Á síðari hluta 19. aldar fór albönsk þjóðernishreyfing vaxandi. Albanir gerðu þá engan greinarmun á þeim sem bjuggu héraðinu Albaníu og hinum sem bjuggu í Kósóvó innan um Serba.
Árið 1912 lýsti Albanía hins vegar yfir sjálfstæði en Serbar réðu enn Kósóvó. Héraðið fylgdi svo Serbíu inn í sambandsríkið Júgóslavíu við lok fyrri heimsstyrjaldar.
Í áratugi sagði fátt af Kósóvó en þó voru mikilvægir hlutir af gerast. Þrátt fyrir gildi Kósóvó í þjóðernisvitund Serba kusu margir þeirra að flytjast burt frá héraðinu, enda þótti lífsbaráttan erfiðari í þessu helstil frumstæða landbúnaðarhéraði en heldur en norður í Serbíu þar sem iðnvæðing jókst ört.
Þegar kom fram á níunda áratuginn voru Albanir orðnir fjölmennari en Serbar í héraðinu. Serbar fóru hins vegar með flestöll völd og serbneskir stjórnmálamenn í Júgóslavíu, ekki síst Slobodan Milosevic, spiluðu á vaxandi andúð milli þjóðarbrotanna.
Þegar Júgóslavía liðaðist í sundur um 1990 virtist í fyrstu ekki annað koma til mála en Kósóvó fylgdi Serbíu en úlfúðin var orðin svo mikil að 1998 braust út stríð í héraðinu. Þar áttust við her Serba (sem enn hétu raunar Júgóslavar) og svo þjóðfrelsisfylking Albana á svæðinu.
Albanir voru studdir NATO sem gerði meðal annars loftárásir á Belgrad, höfuðborg Serbíu, til að reyna að knýja Serba til að hætta hernaði í Kósóvó.
Þar höfðu Serbar unnið margvísleg grimmdarverk, en voru reyndar alls ekki einir um það. Albönskumælandi herflokkar frömdu líka fjöldamorð og svívirðilega glæpi.
Árið 1999 hrökkluðust Serbar burt, nærri allir serbneskir íbúar lögðu á flótta og árið 2008 lýstu Kósóvó-menn yfir sjálfstæði. Ekki voru allir ánægðir með það, ekki einu sinni meðal þeirra sem stutt höfðu Kósóvó-menn gegn Serbum, en æ fleiri ríki hafa þó verið að viðurkenna Kósóvó nú á seinni árum.
Alls munu nú 111 ríki heims hafa viðurkennt Kósóvó.
Kósóvó er um það bil einn tíundi hluti Íslands að stærð en þar búa rétt tæplega tvær milljónir manna. Nú er svo komið að Albanir eru 92 prósent íbúanna, Serbar 4 prósent og aðrir eiga sér annan uppruna. Aldrei hefur verið rætt um það í alvöru að Kósóvó sameinist Albaníu og þrátt fyrir fátækt og margvíslega erfiðleika munu leiðtogar Kósóvó líklega seint fallast á það.
Meðal þess sem Kósóvó-menn eiga við að stríða er gífurleg spilling í landinu. Forsetinn Hashim Thaci hefur af evrópskum yfirvöldum verið úthrópaður sem réttur og sléttur glæpamaður með margvísleg tengsl við bófasamtök.
Kósóvó fékk aðild að alþjóðafótboltasamtökum FIFA árið 2016. Kósóvó-menn unnu sinn fyrsta alþjóðlega landsleik, vináttuleik gegn Færeyjum, sem fram fór 3. júní í fyrra, niðurstaðan varð 2-0 á heimavelli.
Síðan hófst þátttaka Kósóvó í undankeppni HM og liðið byrjaði vel með 1-1 jafntefli gegn Finnum í Turkú. Síðan hefur Kósóvó tapað átta leikjum í röð, en liðið verður raunar sífellt þyngra undir tönn. Það hefur verið að tapa mjög naumlega fyrir sterkum liðum eins og Króatíu og Úkraínu og átti í raun alls ekki skilið að tapa fyrir Íslendingum í leik þjóðanna í mars.
Það styttist því óðum í að Kósóvó vinni sinn fyrsta sigur í alþjóðafótbolta. Vonandi gerist það samt ekki á Laugardalsvelli í kvöld.
Athugasemdir