Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að engin tengsl séu á milli fundarins með Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis, þann 19. febrúar 2008 og sölu sinnar á hlutabréfum í bankanum tveimur dögum síðar þann 21. febrúar.
Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna á Mbl.is. Þar fullyrðir hann jafnframt að á fundinum með Lárusi hafi ekki verið spurt um „stöðu Glitnis og hvernig bankinn stæði fjárhagslega“.
Tölvupóstsamskipti sem Stundin hefur undir höndum benda til þess að fundurinn – sem Bjarni og Illugi Gunnarsson, þáverandi þingmaður sem var jafnframt stjórnarmaður í Sjóði 9, áttu frumkvæði að – hafi snúist um „vanda bankanna“ og hvernig heppilegast væri að ríkisstjórn Íslands kæmi til móts við slæma stöðu þeirra. Á þessum tíma hafði svokölluð súper-ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar þegar fengið upplýsingar sem bentu til grafalvarlegrar stöðu fjármálakerfisins.
„Ég þarf að fara á fund með Illuga Gunnarssyni, Bjarna Ben o.fl. vegna tillagna um með hvaða hætti ríkisstjórnin getur komið að lausn vanda bankanna. Fundurinn er að þeirra frumkvæði og boða þeir forstöðumenn bankanna,“ segir í tölvupósti Ingólfs Heiðars Benders, þáverandi forstöðumanns Greiningardeildar Glitnis, til Jóhannesar Baldurssonar sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans á þessum tíma.
„Ég þarf að fara á fund með Illuga Gunnarssyni, Bjarna Ben o.fl. vegna tillagna um með hvaða hætti ríkisstjórnin getur komið að lausn vanda bankanna“
Verð á hlutabréfamörkuðum hafði lækkað umtalsvert frá áramótum auk þess sem myndast hafði lánsfjárskortur á alþjóðafjármálamörkuðum. Hins vegar var ekki á almannavitorði hver stærðargráða vandans var.
Að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið áttu þáverandi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherrafund með bankastjórn Seðlabankans þann 7. febrúar 2008 þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri dró upp ,,mjög dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum íslensku bankanna“. Upplýsingarnar bentu til yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnhagslíf,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar.
Opinberlega kvað við jákvæðari tón. Þannig kom t.d. fram í Þjóðhagsspá Glitnis frá febrúar 2008 að uppbygging bankakerfisins á undanförnum hefði „gert það mun sterkara og áhættudreifðara“ og að það væri „þannig mun betur í stakk búið nú en áður til að taka á vandamálum sem nú blasa við á erlendum lánsfjármörkuðum“.
Bjarni Benediktsson hefur ekki viljað ræða við Stundina um viðskipti sín, en í samtali við Mbl.is segir Bjarni meðal annars:
„Á fundinum með Lárusi Welding þá sátum við Illugi og vorum að velta fyrir okkur hvaða aðgerða stjórnvöld gætu mögulega gripið til, til þess að bregðast við og auka tiltrú á markaðnum. Við listuðum það upp í Morgunblaðsgrein hvað það var sem við teldum að gæti komið að gagni. Við vorum ekki mættir þarna til að spyrja um stöðu Glitnis, hvernig hann stæði fjárhagslega. Við vorum mættir þarna til að ræða það hvað við gætum gert til að styrkja stöðu íslenska fjármálakerfisins.“
Þá hafnar hann því alfarið að sala hlutabréfa hans í Glitni hafi tengst fundinum með Lárusi Welding og bendir á að hlutabréfamarkaðir hafi verið búnir að lækka hressilega frá áramótum á þessum tíma.
Gögn sem Stundin hefur unnið úr í samstarfi við Reykjavik Media og The Guardian sýna að Bjarni seldi bréf sín í Glitni dagana 21. til 27. febrúar. Hann seldi fyrir rúmlega 119 milljónir króna í fimm viðskiptum en hélt eftir bréfum sem voru rúmlega 3 milljóna króna virði samkvæmt viðskiptayfirliti hans.
Athugasemdir