„Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“ Þannig komst Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Glitnis og vinur Bjarna Benediktssonar, að orði í tölvupósti til Atla Rafns Björnssonar, aðstoðarmanns Lárusar Weldings bankastjóra Glitnis, þann 6. október 2008 klukkan 14:15. Í tölvupóstinum er líklega vísað til Jónasar Fr. Jónssonar sem var forstjóri Fjármálaeftirlitsins á þessum tíma.
Í nýju tölublaði Stundarinnar er fjallað með ítarlegum hætti um viðskipti Bjarna Benediktssonar, föður hans og föðurbróður, dagana fyrir hrun bankakerfisins. Fram kemur að Bjarni seldi fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni banka á tímabilinu 2. til 6. október árið 2008 og bjargaði þannig sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu dagana á eftir.
Bjarni hafði á þessum tíma, vegna stöðu sinnar sem þingmaður, aðgang að upplýsingum um raunverulega stöðu Glitnis eftir að hafa setið fundi um ógöngur bankans og fjármálakerfisins í heild. Tölvupósturinn frá 6. október bendir til þess að Bjarni hafi miðlað upplýsingum um störf FME til framkvæmdastjóra hjá Glitni þegar mikil óvissa ríkti um framtíð bankakerfisins á Íslandi.
Upplýsingarnar koma fram í gögnum innan úr Glitni banka sem Stundin hefur undir höndum og vinnur úr í samstarfi við Reykjavík Media og breska dagblaðið The Guardian. Gögnin varpa nýju ljósi á ýmislegt er varðar viðskipt Bjarna, föður hans og föðurbróður í aðdraganda hrunsins, meðal annars Vafningsmálið, sem og viðskiptin sem fóru fram í gegnum aflandsfélagið Falson á Seychelles-eyjum. Umfjöllunina í heild má nálgast í blaðinu sem kom út í dag.
Athugasemdir