Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem viðstaddir voru þingfund í nótt greiddu atkvæði gegn frumvarpinu til breytinga á útlendingalögum.
Frumvarpið felur í sér réttarbót fyrir barnafjölskyldur sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi og gæti haft áhrif á afdrif meira en 80 barna.
Í hópi þeirra eru hælisleitendur sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, svo sem stúlkurnar Hanyie og Mary og fjölskyldan frá Ghana sem fjallað var um fyrr í vikunni.
Byggja á sjónarmiðum lögreglunnar
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd telja að nýju lögin geti „aukið hættu á mansali eða smygli á börnum“.
Þá séu þau ekki til þess fallin að auka trúverðugleika stofnana á borð við Útlendingastofnun. Með lögunum sé Alþingi að taka „fram fyrir hendurnar á stjórnsýslunni í einstökum málum“.
Þetta kemur fram í nefndaráliti minnihlutans, þeirra Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, Valgerðar Gunnarsdóttur og Vilhjálms Árnasonar en það er að miklu leyti byggt á þeim sjónarmiðum sem fulltrúar lögreglunnar létu í ljós á fundi allsherjar- og menntamálanefndar, annars vegar Jón F. Bjartmarz og Gylfi Gylfason frá ríkislögreglustjóra og hins vegar Alda Hrönn Jóhannsdóttir frá lögreglunni á Suðurnesjum.
„... skipulögð glæpastarfsemi sem gerir
út á smygl á fólki víli ekki fyrir sér að
kynda undir þá túlkun“
„Bent var á að þrátt fyrir að um skýrt afmarkaða afturvirka breytingu sé að ræða sé erfitt að sporna við því að flökkusögur fari á kreik um að auðveldara sé að fá hæli hér á landi en áður og að skipulögð glæpastarfsemi sem gerir út á smygl á fólki víli ekki fyrir sér að kynda undir þá túlkun,“ segir í nefndarálitinu.
Engin áætlun gegn mansali komin fram
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur látið sams konar sjónarmið í ljós. „Ef þetta er samþykkt og það spyrst út að hér sé löggjöf sem sé sérsamin fyrir fólk með börn þá hafa vaknað spurningar hjá mér og fleiri fagaðilum um hvort það skapi raunverulega hættu á mansali. Að hingað komi fólk með börn og fái sérmeðferð,“ sagði hún í viðtali við Morgunblaðið í gær.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, bregst við orðum ráðherra í Facebook-færslu og skrifar:
Ég hef ítrekað spurt Sigríði Andersen um mansalsmál. Aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali rann út um síðustu áramót. Skv. svari Sigríðar stóð til að hefja endurskoðun áætlunarinnar á miðju þessu ári. Nú er að líða níundi mánuðurinn þar sem engin áætlun er í gildi. Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár nefnir mansal ekki á nafn. Engin fjárveiting til að berjast gegn því. Núll krónur. Þá gerist það loksins núna, þegar Sigríður vill halda landinu lokuðu fyrir flóttafólki, að baráttan gegn mansali kemst efst á forgangslistann hjá henni. Sýnir þetta pólitíska forgangsröðun í þágu baráttunnar gegn mansali, eða eitthvað annað?
Kristjana Fenger, sem starfað hefur sem lögfræðingur hjá Rauða krossinum, tekur í sama streng á Twitter. „Áhugavert að ráðherra sem setur 0 kr. í baráttunni gegn mansali á fjárlög og hefur ekki gert nýja aðgerðaráætlun í að verða ár hafi skyndilega áhuga og áhyggjur af mögulegu mansali sem fylgifiski nýrra laga,“ skrifar hún.
Frumvarpið samþykkt í nótt
Lagabreytingarnar sem samþykktar voru í nótt taka til barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hérlendis fyrir gildistöku laganna og ekki yfirgefið landið. Frumvarpið felur í sér tvær meginbreytingar. Annars vegar þurfa nú aðeins að líða 9 mánuðir frá því að umsókn barns um alþjóðlega vernd berst, í stað 12 mánaða, til að stjórnvöldum beri að taka umsóknina til efnismeðferðar.
Jafnframt er stjórnvöldum nú heimilt að veita barni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef það hefur ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 15 mánaða, en áður hefur verið miðað við 18 mánuði í þessum efnum. „Jafnframt væri þá almennt eðlilegt að veita foreldrum sem fara með forsjá barnsins, og eftir atvikum systkinum, dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laganna til að tryggja einingu fjölskyldunnar, að uppfylltum öðrum skilyrðum,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Greidd voru atkvæði um frumvarpið eftir þriðju umræðu rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins studdu frumvarpið. Sautján þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn því, þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Haraldur Benediktsson, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Sigríður Á. Andersen, Teitur Björn Einarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Athugasemdir